Untitled

Ég sit á fiskimannakaffihúsinu á Suðureyri og borða plokkfiskloku. Aino er á sundnámskeiði hérna í bænum. Það ristir frekar asnalega í sundur vinnudaginn minn en mér finnst ég skulda henni þetta – hún er svo dugleg að synda. Lærði það í Víetnam áður en hún var orðin tveggja ára. Eða svona, hélt sér á floti nokkra metra strax þá. Nú syndir hún auðveldlega fram og til baka langar sundlaugar. Hún kann réttu sundtökin en hundasyndir samt meira.

***

Hugmyndin var reyndar líka að nota tímann til að lesa. En svo gleymdi ég bókinni minni. Kláraði Orðspor eftir Juan Gabriel Vasquez í fyrradag og byrjaði á Kaputt eftir Malaparte. Báðar eru ótrúlega vel skrifaðar – alveg kynngimagnaður prósi – og söguþráðurinn er áhugaverður. Kaputt er sjálfsævisöguleg – á svipuðum tíma og andlegum slóðum og Veröld sem var, en dálítið húmorískari, óforskammaðri. Ég átta mig reyndar ekki alveg á því hvort hann er alltaf að grínast eða hvort hann er bara svona mikið skoffín.

***

Ég tek Kaputt með mér á morgun. Námskeiðið er alla virka daga þar til við förum.

***

Suðureyri er alveg frábær bær annars. Ef þið skilduð ekki vita það.

***

Í dag klukkan 17 opnar ný sýning í Byggðasafni Vestfjarða, um Karitas Skarphéðinsdóttur. Ég skrifaði einþáttung fyrir sýninguna og lít við á opnun.

***

Í gær skipti ég um rúðu á baðherberginu. Í fyrstu virtist það ætla að verða fáránlega erfitt en svo var það fáránlega létt. Ég þarf að vísu að kaupa betri skrúfur í karminn og svona skyggingu (svo maður geti nú skitið í friði).

***

Í Illsku stendur að „einhver kínverskur heimspekingur“ hafi talað um að maður gæti aldrei stigið tvisvar í sömu ána. Nú var gríska forlagið mitt að gera athugasemd við þetta. Þetta var Herakleitos. VANDRÆÐALEGT.

***

En þetta verður rétt í grísku útgáfunni. Í sænsku útgáfunni – þegar Ómar er að borða sér leið í gegnum Evrópu – var líka breyting. Í orginalnum borðar Ómar núðlur í Malmö, þetta þótti sænska útgefandanum alger fásinna, og við sömdum um að því yrði breytt í falafel. Málmeyingar hreykja sér af besta falafelinu á norðurlöndum.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png