Untitled

Ég var að borga 17 þúsund krónur fyrir að fá að sækja um að fara til Bandaríkjanna í ágúst. ESTA pappíra. Þetta er náttúrulega rán! Um hábjartan dag!

***

Daginn fyrir sumarsólstöður!

***

Túristar á Íslandi eru líka rændir. Og hafa orðið fyrir fjölgunarminnkun. Samdrætti í viðbótum. Mest dregur úr fjölgun á jaðarsvæðum – því þeir sem koma fara styttra og gera færra, vegna þess að þeir fá minna fyrir peningana. Það hefur ekki bara með styrkingu krónunnar að gera, þótt auðvitað spili hún stóra rullu. Verð voru bara komin að sársaukamörkum fyrir flesta áður en krónan tók á rás. Og nú kann enginn að lækka.

***

En þetta er líka ágætt. Sennilega eru fæstir túristar hér á Vestfjörðum en við máttum alveg við fjölgunarsamdrætti. Það eru engir innviðir til að takast á við fjölgunina einsog hún hefur verið og engar áætlanir um að byggja slíka innviði. Um daginn setti Vegagerðin upp fjóra útikarma og það komst í landsfréttir. Að það væri hægt að pissa.

***

Og ekki pissar maður lengur í Hörpu nema taka með sér 300 krónur, sem forsvarsmenn þar segja að sé gangverð á meðalhlöndun. Mér finnst það eigi að setja lög sem skylda veitingastaði til að leyfa fólki að nota klósettið og gefa öllum frítt vatn. Það er alls konar rekstrarkostnaður sem fylgir því að reka veitingastað og margt af honum hefur með staðsetningu að gera og aðstæður sem eru ótengdar sjálfum rekstrinum.

***

Besta leiðin til að mótmæla þvaggjöldum er að míga utan í hús. Maður gæti að vísu lent í því að lögreglan taki mann, en það er kannski þess virði.

***

Það er eitthvað dæmigert fyrir samtímann líka. Að við skulum berjast fyrir meira líberal klósettum þar sem allir fái að míga – hvað sem líður kyni, kynvitund, kyngervi o.s.frv. – en allir eigi að borga. Eina tabúið sem okkur tekst aldrei að yfirstíga er fátæktin. Eina fólkið sem er alltaf alltílagi að níðast á eru þeir sem eiga ekki 300 kall til að borga fyrir pissuskál. Þeir geta bara migið heima hjá sér. Eiga hvort eð er ekki neitt með að vera að þvælast í Hörpu þar sem póstkortin kosta þúsundkall.

***

Annars hafði ég einsett mér að skrifa í dag um stíl. Eða um prósa, réttara sagt, hvað sé fallegur prósi. Hvernig hann þurfi í senn að vera í takt – atkvæðin raði sér upp með réttum áherslum – og stöðugt að koma á óvart. Hvernig hann þarf að líkja eftir hugsuninni sem skapaði hann .

***

Brokk. Hvers vegna höfum við svona illan bifur á brokki? Að við skulum tala um að eitthvað sem hangir illa saman – til dæmis stíll eða prósi – sé brokkgengt? Brokkgengur stíll ætti að vera fallegur. Jafnvel þótt hann bryti stundum á sjálfum sér. Prósi þarf að vera myndríkur og reglulegur nema þegar hann er óreglulegur og ef hann er aldrei óreglulegur er hann alveg vonlaus.

***

Prósi þarf líka að vera rómantískur og sínískur og hversdagslegur og afslappaður.

***

Sérhljóðaharmonían þarf að vera falleg. Einsog í sérhljóðaharmonía. Eða trérótaammoníak. Bréfrósakoníak.

***

Og myndríki. Ég geri stundum lítið úr því vegna þess að það dómínerar svo. En myndríki skiptir máli. Göngumst bara við því. Það þarf að lýsa hlutunum og þær lýsingar þurfa að ná til manns.

***

Prósi þarf líka að vera um eitthvað sem skiptir máli.

***

Og hann þarf að vera meðvitaður um sjálfan sig. Skilja hvar hann verður hlægilegur, hvenær hann er farinn að taka sig of alvarlega. Og svo þarf hann kannski bara samt að taka sig alvarlega, stundum er það bara þannig.

***

Maður þarf að finna fyrir því að hann hviki hvergi. Að höfundurinn sem skrifi hann sé ekki að hnika til orðum í sérhlífni.

***

Merkilegt með skyldleika líkra orða annars. Að hika, hvika og hnika eru allt undanbrögð.

***

Ef að prósi er grimmur og aðgangsharður, myndríkur og taktfastur, þá þýðir það ekki að hann þurfi ekki að vera mannlegur líka. Einhvern veginn mjúkur og auðmjúkur og stimamjúkur.

***

Og svo þarf maður að koma sér að verki. Prósi þarf að vera til; það er kannski mikilvægast af öllu.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png