Untitled

Mér sýnist DV hafa markað sér stöðu sem grjótharður andspyrnukraftur við íslamsvæðingu Íslands. Í dag las ég þar alveg flengsturlaða grein um „ástandið í Svíþjóð“ – hálfsannleika, útúrsnúninga og lygar – aðra um Íslamska öfgamenn sem hafi ráðist á skóla á Fillipseyjum, þriðju um misheppnaða hryðjuverkið í Brussel og fjórðu þar sem Inga Sæland varar við uppgangi íslamismans á Íslandi. Þetta er allt úr fréttaskammti dagsins og það er ekki einu sinni komið hádegi.

***

Ég kann ekki annað en dæsa og veit að það gerir ekkert gagn.

***

Aðrir miðlar eru með frétt um hryðjuverkið í Brussel (þetta er allt sama fréttin, búið að bera kennsl á tilræðismanninn). Sennilega munar mest um þessa löngu „fréttaskýringu“ um anarkíið í Svíþjóð. Ég ætti eiginlega að afpanta ferð sumarsins, enda mjög invandrartätt område sem ég bý yfirleitt á. Allt pakkfullt af múslimum. Óaðlöguðum.

***

Ég ætlaði að prófa franska crepes-vagninn en þá var hann lokaður. Kannski opnar ekki fyrren tólf. Keypti mér samloku og epli í staðinn. Einhver sagði mér þá sögu, með því fororði að hún væri lygi en ekki verri fyrir það, að vagninn væri rekinn af belgískum efnaverkfræðingum sem hefðu gefist upp á vísindamannslífinu á meginlandinu og flutt hingað gagngert til þess að selja Ísfirðingum crepes.

***

Þetta er nú meira skítasumarið annars. Það er alltaf kalt og blautt. Og skemmtiferðaskip alla daga vikunnar. Skemmtiferðaskipatúristar eru allt öðru vísi en venjulegir túristar. Þeir eru svo umkomulausir. Ráfa um bæinn einsog ringlað sauðfé. Standa úti á miðri götu og lesa kort. Ég er dauðhræddur um að ég eigi eftir að hjóla á einhvern þeirra fyrir rest. Þeir eru líka allir svo gamlir. Með stökk, þunn bein. Ef ég hjóla þá niður standa þeir sennilega aldrei aftur upp.

***

Ég les upp í Kópavogi í næstu viku. 27. júlí. Í fríðu föruneyti, ætlaði ég að skrifa, en fattaði svo að í því fælist – alveg óvart – svona líka gríðarhallærislegur orðaleikur. Það er nefnilega Fríða Ísberg sem skipuleggur. Með fullt af fínu fólki, segi ég bara, sæg af áhugaverðum skáldum í viðstöðulausri baráttu við fegurðina.

***

Á Café Catalinu.

***

Nú var fyrrum starfsmaður Stígamóta að „skila skömminni“ til stofnunarinnar. Við erum orðin svo ákveðin í því að vera þolendur að við getum ekki lengur bara sagt fólki að skammast sín. Við þurfum að láta einsog það hafi látið okkur skammast okkar og við bara skilum skömminni, sem við áttum sko ekkert með að skapa sjálf.

***

Ekki þar fyrir. Starfsmaðurinn virðist í fullum rétti með að segja Stígamótum að skammast sín. Einu hjó ég eftir – þetta með að fullyrt sé að starfsfólk sé menntað, en svo sé það bara bókasafnsfræðingar eða álíka. Altso, það sé með menntun sem kannski hjálpi til við einhver afmörkuð störf innanhúss, en hafi ekkert með hið eiginlega starf hússins að gera. Þetta er landlægt. Á Íslandi er 99% allra svona stofnanna – sem má kalla hið leynilega einkarekna velferðarkerfi, frá meðferðarheimilum að fátækrahjálp – stýrt af misklaufalegum amatörum. Og sumir þeirra – furðu margir, finnst manni – hafa reynst hryllilegir níðingar.

***

En kannski er merkingarlaust að segja fólki að skammast sín. Kannski er það bara eldri orðaleppur – þessi með að skila skömminni rennur út á endanum líka. Það þarf að endurnýja tungumálið til að það hafi slagkraft, a.m.k. ef maður ætlar að segja eitthvað sem hefur alltaf verið satt.

***

Buzzword er það kallað á ensku. Orð eða orðasamband sem nær miklum vinsældum á takmörkuðu tímabili – endar oftar en ekki sem innihaldslítill orðaleppur (en þó ekki alltaf). Oft bara umorðun á einhverju eldra.

***

Nú kom ég að enda greinarinnar. Þar er Stígamótum sagt að skammast sín.

***

Ég er alltaf smá stund að koma mér að verki. En ég byrja með hreint borð, hreinan huga.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png