top of page

Untitled

Ég rakst á Ödda á leiðinni úr ræktinni. Það var sem sagt ég sem var á leiðinni úr ræktinni. Hann var að spjalla við pabba sinn úti á götu fyrir framan Íslandsbanka. Muggi var með mótorinn í gangi og keyrði í burtu fljótlega eftir að ég kom. Öddi er á túr og kemst ekki með mér á Bubba annað kvöld. Við erum ásamt Rúnu og Skúla mennska í Bubba koverlagabandi svo þetta er sérlega bagalegt. Eigum alveg eftir að kynna okkur nýja efnið.

***

Þegar Öddi kemur loks hingað til að spila verðum við víst farin.

***

Hamraborgarhamborgari m/ osti og grænmeti og Örnuskyr með kirsuberjabragði í hádegismat. For the win, einsog krakkarnir segja, for the win.

***

Nú er liðin vika frá því ég kláraði fyrsta uppkast að leikritinu Hans Blævi (já, það beygist svona) og ég er farinn að skilja betur annmarka mína sem leikskáld. Eða sem leikskálds? Á ég kannski við takmarkanir frekar en annmarka? Nei, nei, ég meina annmarka. En ég er ekki viss um fallið.

***

Ég kann ekki að gera langa sögu stutta. Það er vandræðamál í leikhúsformi. Ég kann bara að ranta. Flækja málin. Skrifa útúrdúra og delera. Það er fínt í skáldsögum og fínt í þess konar ljóðum sem ég skrifa. En ég þyrfti þá helst að fá fjórar-fimm klukkustundir til þess að segja söguna í leikritinu.

***

Ég er líka dálítið sínískur. Það er ekki galli sem hefur með leikhúsið að gera heldur bara galli almennt. Eða – ég er ekkert sínískur sjálfur. En það sem ég skrifa verður oft sínískt. Ég kýs að líta svo á að ég sé það fullur af eðlislægri meðlíðan með öðru fólki að ég skilji ekki alveg að aðrir þurfi að láta leiða sig þangað – það þurfi eitthvað sérstaklega að skapa meðlíðan með sögupersónum. Ég lít svo á að allir séu góðir innst inni og er gersamlega blindur á að það geri ekki líka allir aðrir.

***

Þessi kenning sprettur eðli málsins samkvæmt úr hybrisinu á mér. Og ábendingin um að hún spretti úr hybrisinu á mér sprettur úr sínískri heimssýn minni (ég treysti ekki einu sinni sjálfum mér fyrir heiðarlegum, fallegum tilfinningum).

***

Áðan heyrði ég á tal tveggja kvenna. Önnur var held ég á leiðinni til útlanda, eða í öllu falli úr bænum. Hin óskaði henni góðrar skemmtunar. Og bætti svo við: „Og góða verslun“. Það sem er amerískt við Íslendinga er ekki að þeir versli meira eða séu meira efnishyggjufólk, samanborið við norðurlandabúa, heldur hitt að norðurlandabúar skammast sín fyrir það á meðan Íslendingar flagga því. Svíum finnst hálft í hvoru óþægilegt að ganga um í Gamla Stan með innkaupapoka. Íslendingar halda þeim hátt á lofti.

***

Í tengslum við fréttina í DV í gær, um „ástandið í Svíþjóð“, hef ég hugsað svolítið um það hve ginnkeypt við erum fyrir alls kyns ótrúlega einföldum fordómum um þjóðir. Og hvernig við segjum alltaf sömu söguna aftur og aftur, einsog til að staðfesta sanngildi hennar. Þið vitið. Danir eru hressir og gefa skít í reglur. Norðmenn eru dugandi fólk sem eyðir furðu stórum hluta sólarhringsins í að klappa sjálfum sér á bakið. Finnar eru þunglyndar fyllibyttur. Og Svíar eru réttlætisriddarar sem þagga allt niður og þora aldrei að „taka umræðuna“.

***

Finna og Svía þekki ég best af þessum þjóðum, þótt ég hafi reyndar átt lögheimili á öllum norðurlöndunum (að meðtöldum Færeyjum en frátöldum Grænlandi, Sápmi og Álandseyjum). Og auðvitað er sitthvað til í alls kyns fordómum – fordómar eru yfirleitt ekki algerlega dregnir úr lausu lofti, heldur ýkjur sem vaxa í sífellu og verða loks yfirgengilegar, verða eiginlega „frístandandi staðreyndir“ sem þurfa ekki lengur á neinni tengingu við veröldina að halda. Þannig er hægt að halda því fram trekk í trekk í dagblöðum um víða veröld að í Svíþjóð séu „no go zones“ – þótt það sé af og frá og hafi margsinnis verið hafnað af öllum til þess bærum stofnunum og einstaklingum. Og þótt auðvitað séu alls kyns félagsleg vandamál og þau misstór eftir hverfum og landssvæðum þá er einfaldlega af og frá að „gettóvæðingin“ í Svíþjóð sé slæm í samanburði við … hvar sem er, nánast.

***

Ég hef búið í sænsku gettói – hverfi sem fólk sem er í millistétt eða ofar vill helst ekki búa – og það er einn idyllískasti staður sem ég hef búið á. Þar sendi ég Aram Nóa einan kortersgang í búðina til að kaupa mjólk þegar hann var 3-4 ára, án þess að hafa af því minnstu áhyggjur að unglingarnir sem héngu í kringum Råby Centrum myndu ónáða hann – þótt þeir væru svartir og töluðu með hreim. Og ef svo færi – unglingar eru náttúrulega pein – þá var ég viss um að vinkona okkar frá Rúmeníu sem sat alla jafna fyrir utan og betlaði sér til lífsviðurværis myndi koma honum til aðstoðar, enda einstaklega hjálpsöm og greiðvikin. Hvað varðar múslimana þá hafði ég mestar áhyggjur af því að Aram myndi óvart ráfa inn í íslömsku sérverslunina og koma heim með geitamjólk eða kókosmjólk, sem er engan veginn jafn góð út á seríos. Nei, fyrirgefiði, mig misminnir. Ég meina auðvitað kornfleks. Íslendingar eru enn ekki orðnir svo margir í Svíþjóð að maður geti keypt þar seríos.

***

Hvað varðar hin svonefndu „no go zones“ (þessar fréttir koma allar frá fólki sem er ólæst á sænsku og hefur enga innsýn í sænskt samfélag – þær koma úr alls kyns enskum sorpmiðlum, þetta hófst sennilega á FOX News fyrir um 15 árum síðan, með frægu innslagi frá Rosengård í Malmö) þá eru það alls ekki svæði þar sem lögreglan fer ekki, heldur svæði þar sem hún er með sérstakan viðbúnað og telur sig þurfa leggja áherslu á. Þetta eru vandræðahverfin, fátækrahverfin, þeir staðir þar sem er erfitt að halda uppi lögum og reglu. Ég veit ekki hvort nokkurt hverfi á Íslandi myndi falla undir þennan hatt – þar sem eiturlyf eru seld á götuhorni vandræðalítið – en það eru fáar borgir í heiminum þar sem ekki er að finna einhver slík hverfi. Og hefur minna með innflytjendur að gera en fátækt. Í flestum þessum hverfum bjuggu „innfæddir“ áður en þeim var skipt út fyrir „innflytjendur“ og í þeim löndum þar sem er lítið af innflytjendum, svo sem í austur-evrópu, eru það innfæddir sem fylla þau enn.

***

Skrítnast af öllu er samt hugmyndin um að þetta sé eitthvað sem Svíar ræði ekki. Það sé bannað. Blöðin eru full af fréttum og pistlum um þetta. Sumt af því er mjög rasískt. Annað er svakalega PC. Og megnið liggur einhvers staðar þar á milli.

***

Stóri munurinn á Svíþjóð og Noregi er ekki að það sé betra ástand í öðru hvoru landinu, heldur hinu að þegar þú segir við Norðmann hvað landið hans sé fallegt og hvað hann sé duglegur að standa vörð um lýðræðið, segir Norðmaðurinn takk. Svíinn hins vegar byrjar á að benda þér á Barsebäck, vopnaverksmiðjur og viðbjóð og spyrja hvort þér finnist þetta í alvöru fallegt? Svo rifjar hann upp REVA-lögin – sem gáfu lögreglu leyfi til þess að leita uppi ólöglega innflytjendur í almenningssamgöngum, með því að krefja fólk um vegabréf hvar og hvenær sem er, oftar en ekki á engum öðrum grundvelli en húðlit – bætir einhverju við um vananir þroskaheftra í denn og vananir transfólks enn þann dag í dag og spyr hvort þér finnist það lýðræðislegt? Og þá fer maður undan í flæmingi og segist bara hafa meint að það væri voða fallegur dagur og það sé gott að Svíþjóðardemókratarnir séu ekki í ríkisstjórn. „Slappaðu af!“, segir maður.

***

Mér finnst Svíar bókstaflega ALLTAF vera að „taka umræðuna“. Svíar eru þrasgjörn þjóð með smásmugulega fullkomnunaráráttu.

***

Það eru auðvitað mínir fordómar. Ég lifi við þetta. Og fæ þá sem betur fer ekki úr Daily Mail og Fox News.

***

Ég ætti að vera löngu byrjaður að vinna. En ég kann, einsog áður segir, ekki að gera langa sögu stutta.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page