Untitled

Ég las Ljóð um hold og frjósemi þess úr Óratorrek á Catalínu í gær. Ég las það upp fyrir útvarp í vikunni og fannst ég uppgötva að það væri betra í upplestri en ég hafði ímyndað mér. Í gær var ég svo næstum hættur við. Fyrstu ljóðin sem voru lesin í gær fjölluðu mikið til um kvenmannslíkamann og mér fannst kannski ekki á það bætandi. En ég er ánægður að ég lét af því verða. Sennilega fær fólk bara aldrei nóg af kvenmannslíkamanum.

***

Það var ekkert ort um karlmannslíkamann á sviðinu í gær. Að vísu var Óskar Árni með ljóð um neglur karla og kvenna – neglur skálda. En ég held ég hafi varla heyrt minnst á limi í gær. Eða eistu.

***

Ég hlýt samt að eiga einhver ljóð um karlmannslíkamann. Um tilveru karlmannsins í líkama sínum. Um hvað það þýðir að líkamna sem karlmaður. Sennilega eru samt flest holdljóðin mín um líkamann almennt – líkama manneskjunnar, dauðann, lostann, hungrið og það allt saman.

***

Fyrirmennskun. Er það gott orð fyrir gentrification? Ég nenni ekki enn öðru -væðing orði.

***

Fyrirmennskun Kópavogsbæjar hófst sem sagt í gær þegar 101 Reykjavík gerði innrás á Café Catalínu. Ungir, fátækir listamenn blandast drykkfelldu úthverfafólki. Það er uppskriftin að fyrsta og mest spennandi skrefi allrar fyrirmennskunar. Og það skref getur enst lengi – það þarf ekki nauðsynlega að breytast í lifandi helvíti markaðssamfélagsins (einsog 101, Prenzlauer Berg eða önnur hverfi sem hafa klárað sinn fyrirmennskunarferil). Þar þarf ekki allt að verða hreint og fínt og dýrt. Það getur haldið áfram að vera skítugt, sjúskað og heiðarlegt.

***

En það þarf að viðhalda stiginu. Þarf að halda orkunni gangandi og í skefjum. Hamraborgin hentar af mörgum ástæðum – maður er enga stund að fara þangað og strætósamgöngur eru góðar úr miðbænum. Það þarf ekki að slást við skipulagsyfirvöld – það má reka bari þarna, þetta er „miðbær“. Sennilega væri meira að segja hægt að fá borgaryfirvöld (var það ekki Kópavogur sem tók upp borgarheitið?) til að leggja alls kyns grósku lið.

***

Borgaryfirvöld í Reykjavík eru líka sjálf á lokastigi fyrirmennskunnar. Jakkafatahippsterar nærðir á lífrænt ræktuðu og sojalattéum. Þau eru post-world einsog borgin sjálf; hafa gleymt sjúskinu, misst kontakt við drulluna. Þau vilja ekki styðja listina eða stoppa hana, þau vilja bara vera hún sjálf. Vera rokkstjörnuborgarstjórar. Myndlistarstjörnuborgarstjórar. Skáldborgarstjórar. En það gengur ekki upp án þess að svipta listina lífsblóði sínu. Borgarstjórar eiga að vera óviljugir samstarfsmenn gróskunnar – grámenni sem standa í bakgrunni í von um að fá hið minnsta litsmit af trylltri æskunni. Ekki þrumuþjófar eða gjörningameistarar.

***

Listin þarf ekki að vera í andstöðu við allt yfirvald – þótt hún sé það oft – en hún verður að geta lifað án beins stuðnings við það.

***

Það er ekki víst að það séu spennandi tímar í væntum í Hamraborginni. En það er óhemju pótensjall, alveg trylltur.

***


0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png