top of page

Tímabundið heilaleysi


September er hinn eini sanni fyrsti mánuður ársins. Allar aðrar ársbyrjanir eru feik. Og 1. janúar er verst af öllum. Það lýkur engu 31. desember og byrjar ekkert 1. janúar. Flugeldarnir fara upp í loft öðrumegin og detta niður hinumegin. Í september byrja skólarnir fyrir alvöru, fyrstu bækur jólabókaflóðsins líta dagsins ljós, sumarfríum er lokið, veturinn – sem er eina alvara lífsins – byrjar að gíra sig upp (það verður stormur á helginni). Og svo framvegis. Hringrásin hefst á ný. Eiginlega ættum við að gera einsog Víetnamar og eldast bara öll í einu 1. september. Systir mín og sonur ná því næstum því – á 2. og 3. september.


Af þessu tilefni er ég kominn í bindindi á allan fjárann. Kaffi, áfengi og óhollustu almennt. Ég hef ekki lifað kaffilausan dag svo ég muni í svona 30 ár. Ég hætti í gær og hef verið hálfheilalaus síðan. Og talsvert verri í dag en í gær. En hugmyndin er nú sú að ég verði fær um að hugsa aftur þegar fráhvörfin eru liðin hjá. Og að ég sofi betur, kvíði minna, gremjist síður.


Annars fara dagarnir mest í dútl og skipulagningu. Að beisla kaos. Breyta draumum í veruleika. Ég er í allt öðrum fasa en í vor þegar ég var að klára bókina. Þá svaf ég áreiðanlega hálfan sólarhringinn – eða lá a.m.k. í rúminu, dormaði milli svefns og vöku og mátaði hugmyndir, reis svo úr rekkju til þess að skrifa einsog óður maður í nokkra klukkutíma áður en ég var úrvinda og sofnaði í hægindastólnum á skrifstofunni minni. Og endurtók það síðan áður en ég fór heim að sofa meira. Í morgun var ég mættur á skrifstofuna klukkan hálfátta. Enda er ég ekki að skrifa og hef því næði til þess að lifa því heilbrigða lífi sem músunum sem ég á allt mitt undir (þær eru mýs, ekki músur) hugnast ekki að ég lifi. En í staðinn er ég sem sagt nánast fullkomlega heilalaus.



natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page