top of page

Tilurð náttúrulögmálanna


Ég tel níu presta á þessari mynd.
Sú skoðun mun þá einnig vera orðin almennust nú, að undrið sé ekki neitt brot á lögum náttúrunnar, heldur séu að verki náttúrulögmál, sem mennirnir þekkja ekki enn og geta því ekki hagnýtt né ráðið við undir venjulegum kringumstæðum.

Eimreiðin, 1926, Sveinn Sigurðsson


Ég var spurður að því – í tengslum við kynningarmál, áður en Náttúrulögmálin kom út – hvort ég gæti lýst tilurð bókarinnar í nokkrum orðum. Slíkar bollaleggingar eru alltaf eftiráskýringar – ég byrja að skrifa í mikilli óvissu, með þreifingum og kroti. Ég er ekki einsog sumir, að ég þurfi að vita hvernig bókin endar áður en ég byrja – hugsanlega myndi ég ekki einu sinni geta skrifað bók ef ég vissi hvernig hún endaði.


Það munaði mjög litlu að ég endaði Einlægan Önd – sem fjallar auðvitað um rithöfundinn Eirík Örn – á dauða aðalsöguhetjunnar. Það var ekki að mig langaði að deyja en ég fann samt fyrir sterkri löngun til þess að losna við „rithöfundinn Eirík Örn“ og ég íhugaði líka alvarlega að hætta að skrifa. Fara að gera eitthvað annað (ég kann ekkert annað). Þessi tilhugsun kemur upp af og til, mest auðvitað þegar þetta er basl (sem þetta er, tilfinningalega og fjárhagslega aðallega) og hangir áreiðanlega líka saman við að verða miðaldra. Maður finnur fyrir tilgangsleysi sínu og verður lítill og feiminn, kannski jafnvel huglaus, hættir að vilja sjást – að einhverju leyti af því maður verður viss um að enginn vilji í raun sjá mann. Að framboðið af manni hafi fyrir löngu farið fram úr eftirspurninni.


En ég drap sem sagt ekki Eirík Örn í Einlægum Endi og ég hætti ekki að skrifa en ég vissi að ef ég ætlaði að skrifa fleiri bækur yrði ég að gera það á öðrum forsendum og með öðrum aðferðum en ég væri vanur. Ég man ekki alveg hvernig ég valdi sögusviðið en sennilega var það byggt á misskilningi. Mér var einhvern tíma sagt að það hefði verið haldin prestastefna á Ísafirði í byrjun sumars árið 1925 og tekin mynd af sjö prestum (eða níu prestum eða sjö og einum eineygðum) til að ögra þjóðtrúnni um að þá myndi Gleiðarhjalli hrynja.


Í ljós kom að þetta var ekki satt en hins vegar hafði verið hér nokkuð af prestum í tengslum við vígslu grænlensks prests í frægri grænlendingaheimsókn til Ísafjarðar í ágúst 1925. Og þá var tekin mynd af níu prestum og fleiri grænlenskum fyrirmennum – sem voru á leiðinni til Scoresby-sunds, þar sem átti að nema land til þess að tryggja konungsríki dana yfirráð yfir Grænlandi öllu. Það er stórmerk saga sem mig langaði líka að gera skil – en komst bara aldrei svo langt. Ég festist bara á Ísafirði á þessum tíma og endaði á því að lúslesa öll bæjarblöðin frá fyrstu áratugum aldarinnar, með ekkert sérstakt fyrir stafni, annað en að fantísera.


Svo vatt þetta bara upp á sig. Fyrren varði var ég fastur á prestastefnu sem mér finnst núorðið furðulegt að hafi ekki átt sér stað – mér líður meira einsog ég hafi skreytt hana en skapað. En áður en ég var byrjaður að skrifa eyddi ég sem sagt heilmiklum tíma í að byggja heim sem er eiginlega Ísafjörður 1925 en lýtur samt sínum eigin lögmálum – og kannski verð ég bara þar það sem eftir er af rithöfundaferli mínum (og kannski lýkur honum bara hér, ég er hættur að lofa meiru en morgundeginum). Niðurstaðan er kannski bara enn ein eiríksbókin – ég veit það ekki – en upplifunin af því að skrifa hana var allt önnur en ég er vanur.


En það sem ég skrifaði þegar ég var spurður um tilurðina – einsog ég nefndi hér í upphafi – var eftirfarandi. Og það er ekki rangt, þótt það sé sumsé eftiráskýring, heldur lýsir það tilfinningu sem ég bar ekki kennsl á fyrren eftirá.


„Mig langaði að skrifa bók um það hvernig vestrænt nútímafólk í litlum kaupstað á Íslandi árið 1925 myndi bregðast við ef það lifði skyndilega á biblískum tímum – á tímum kraftaverka og undra; ef það kæmist ekki lengur upp með að vera einfaldar skynsemisverur, og skefjalaus trú þeirra á hið fjarstæðukennda í heiminum – Guð og kukl og spíritisma og þjóðtrú – fengi skyndilega sviðið óskipt; um fáránleikann og glundroðann og kátínuna og óttann og kærleikann sem það myndi óhjákvæmilega kalla fram. Og kannski langaði mig samtímis til þess að nota tækifærið og velta fyrir mér öllu hinu sem við köllum líka „Guð“ – fegurðinni, óttanum, ástinni, þránni, lífsfyllingunni, ölvuninni, voninni, tilfinningunni fyrir heimili og tilfinningunni fyrir nýjum og ókunnugum stað, tilfinningunni fyrir óendanlegri stærð heimsins og smæð. Öllu þessu óræða og rómantíska sem er uppistaðan í yfirdrifnum skáldskap, en er á sama tíma svo ógurlega hversdagslegt að það einkennir hvert einasta augnablik sem við lifum. Ég veit að ég vildi líka forðast að rómantísera eða exótísera náttúru hins guðdómlega – einsog svo oft er gert – og þess í stað skrifa bók þar sem náttúra Guðs (og manns) er dregin niður á jörðina, ekki til upphafningar, hvorki prestlegrar eða skáldlegrar, og ekki heldur til „grannskoðunar“ eða „greiningar“, heldur til þess að leika mætti við hana, fíflast með hana, hlæja með henni og að henni og gráta yfir henni og með henni af öllum þeim hversdagslegu sálarkröftum sem við – ég og lesandinn – ættum til.“


P.S. Í dag er útgáfuhóf fyrir bókina í bókabúð Forlagsins á Fiskislóð kl. 15.30.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page