top of page

Skýrsla: Vísað á dyr á Kaffi Vest


Þessa mynd tók Ævar Þór. Ég á auðvitað ekkert með að nefna hana, en ég kalla hana samt „þín eigin upplestrarferð“.

Ég kom til höfuðborgarinnar í gærkvöldi og verð með aðsetur hér næstu daga, meðan ég sinni upplestrum í nærsveitum. Á morgun er svo útgáfuhóf á Fiskislóð, klukkan 15.30, og þangað mæta auðvitað allir (ég hef tvisvar haldið útgáfuhóf í Reykjavík og það var messufall í bæði skiptin, svo ég er dálítið nervus). Þar verður allavega boðið upp á veitingar og ég les eitthvað upp – ég hef ekki gert það upp við mig hvort ég taki eitthvað styttra eða lesi bara einsog ég hef verið að gera (sem tekur þá á bilinu 25-40 mínútur og hefur yfirleitt falið í sér eitthvað spjall). Það verður engin myndasýning – forlaginu tókst ekki að útvega skjávarpa og ég nenni því ekki sjálfur, Nadja er í bænum og ég vil heldur eyða tíma mínum í að hangsa með henni.


Það hefur gerst alls konar síðustu daga. Ég hef rekist á truflaðar eftirlegukindur djammsins á Eskifirði („ég var vakandi í alla nótt að horfa á Gordon Ramsay, alveg kokkaður“ eru orð sem ég mun áreiðanlega stela og nota einhvers staðar, víðar en hér, kannski bara aftur og aftur), átt tvo æðislega daga með systur minni í sveitinni, orðið veðurtepptur í Eyjum og rambað þar á gamlan vin sem ég kynntist í ógæfunni í Færeyjum fyrir tuttugu árum síðan, hann er nú orðinn Sprettubóndi og gotterísframleiðandi; fílósóferað um músík við Gímaldin – og Jonna og Hrein á menningarstofu Austurlands – og snætt kvöldverð með bókmenntadoktornum Soffíu Auði á Höfn, fengið mér lúr við þjóðveginn og látið Ævar Þór njósna um mig (og njósnað um hann á móti) á pizzustað í Vík; rætt matreiðslu hrafna á Höfn, hlustað á ljóðskáld ræða sláturtíð, breytingarskeiðið og sútun á Hvolsvelli, mætt Tóta Leifs, sem virðist vera kominn með meirapróf (ég er ekki viss um að hann hafi séð mig), allavega með fulla rútu af túristum, og sennilega var þetta Bergsveinn Birgisson sem veifaði mér úr bíl á Hverfisgötunni í morgun (það var stór bíll, en krafðist líklega ekki meiraprófs). Já og svo kom fjöldamorð í gróðurhúsum til tals á Selfossi. Nú síðast var mér svo vísað á dyr á Kaffi Vest fyrir að taka upp tölvu á „no electronics“ svæði við eina lausa borðið í húsinu. Ég reyndi að þykjast ekki skilja ensku en afgreiðslukonan sá í gegnum mig og ég endaði á að þurfa að sinna mínum erindum í bílnum með tölvuna í kjöltunni – og fór svo á Kaffi Læk, en missti af Steinari Braga, sem fór á Kaffi Vest af því hann hélt ég væri að grínast með að hafa verið vísað á dyr. Hattinum var auðvitað stolið á Egilsstöðum, en ég þarf varla að segja ykkur frá því – það var rætt í bæði DV og Síðdegisútvarpinu (og hefur hatturinn þar með fengið meiri fjölmiðlaathygli en bókin), og þar villtist ég líka inn á rennsli á nýju verki eftir Þór Tulinius, sem var mjög skemmtilegt.


Útgáfuhófið á morgun er vel að merkja ekki lokahnykkur túrsins, einsog einhverjir hafa haldið, heldur verð ég á Akranesi á mánudag, Hafnarfirði á þriðjudag, Reykjavík á miðvikudag, Grindavík á fimmtudag (ef guð og eldfjallið lofar), Stykkishólmi á föstudag og heima á Ísafirði á laugardag eftir viku. Þar verð ég svo bara að öllum líkindum fram að jólum – ég er ekki bókaður í neitt nema Vísindaport háskólasetursins á Ísafirði (til að ræða heimildavinnu) og það er í göngufæri. Ég er almennt frekar lítill bílakall og þetta hafa verið talsverð tilbrigði fyrir mig – og hluti af mér verður alveg ánægður að losna út úr bílnum. En mér er samt farið að þykja hann mjög heimilislegur, svona ef ég á að segja alveg einsog er. Með kaffibolla og Rás 1 eða hljóðbók. En veðrið og færðin hafa líka verið til stakrar fyrirmyndar.


Þetta hefur sem sagt allt gengið bærilega og mælst vel fyrir, ef frá er talinn örlítill snúður í sumum kollegum, en ég leiði það mestmegnis hjá mér. Annað kvöld eftir útgáfuhófið ætlum við Nadja í leikhús – á Svartþröst, sem Vignir vinur minn leikstýrir – og svo á ég langþráðan frídag á sunnudag.


En nú ætla sem sagt ég að fá mér lúr og eftir það keyri ég á Glæsivelli í Ölfusi – þar sem ég les í kvöld ásamt Elísabetu Jökuls og Lilju Magnúsdóttur (Sigmundur Ernir forfallast víst, en líklega verður samt lesið úr bók hans).

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page