top of page

Opnunartími sláturhússins


Á dögunum horfði ég á hálfan YouTube-ritdóm um ljóðabók eftir skáldið Atticus, sem ég hafði aldrei heyrt minnst á áður. Þetta birtist bara í algóritmíska flæðinu mínu – yfirskriftin var eitthvað á borð við „ER ÞETTA VERSTA LJÓÐABÓK SEM ORT HEFUR VERIÐ???“ og þetta fannst mér, fyrrum aðstandanda Íslandsmeistaramótsins í ömurlegri ljóðlist, eðlilega áhugavert. Svo ég smellti.


Það stóð svo auðvitað heima. Atticus var að sönnu ekki gott skáld – en þó mjög vinsælt, í einhverjum kreðsum sem ég verð ekki var við. En reyndar var ritdómarinn, Rachel Oates, kannski ekki mjög góður ritdómari heldur. Til þess að undirstrika ömurleika Atticusar valdi hún t.d. að bera hann saman við Shakespeare og John Donne – það er heldur ósanngjarnt – og að auki fannst mér allar túlkanir hennar á ljóðum þeirra Atticusar, Shakespeare og Donne alveg óþolandi kreddukenndar. Ég stóð mig meira að segja að því að fara að verja lélegar ljóðlínur Atticusar í höfðinu – einfaldlega vegna þess að það var þrátt fyrir allt meira í þær spunnið en hún vildi vera láta (þótt það væri ekki endilega mikið eða línurnar sérlega frumlegar).


Ég hef reyndar langvarandi antípat á bókmenntum sem mér þykja of-fágaðar – það er margt mikilvægara í bókmenntum en að gera hlutina „vel“ – en það er sennilega önnur Ella.


Svo rek ég mig óvenju oft á það þessa dagana að vera ósammála bókmenntalegum útleggingum fólks (t.d. á sögunum í Dubliners, sem ég hef verið að endurlesa, eftir misheppnaðan lestur við lok síðasta mánaðar). Jafnvel svo ég reiðist. Kannski er bara í mér einhver mótþrói. Sem er ágætt, ég kann vel við það.


Nú vill YouTube-algóritminn líka helst ekki að ég horfi á neitt annað en slátranir á einhverjum instagramskáldum – ekki síst Atticusi og Rupi Kaur en líka Bo Burnham og Megan Fox og alls konar fólki sem á það sameiginlegt að vera vinsælt en skrifa einsog starfsfólkið í ísskápaseglaverksmiðjunum. Og ekki bara frá Rachel Oates heldur sýnist mér vera heill her af til þess að gera ungum YouTuberum sem nærir vinsældir sínar með því að ranta um léleg ljóð. Sem er bæði áhugavert og gleðilegt – ekki bara að fólki finnist vond ljóðlist vond (sem er fagnaðarefni) heldur að fólk eyði, það best ég get séð, líka talsverðu púðri í að lesa, túlka, ræða og bera áfram betri ljóðlist (og vonandi líka eitthvað nýlegra en Shakespeare og John Donne). Og algóritminn virðist styðja þetta. Skál fyrir því.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page