top of page

Náttúrulögmálin – myndir

Á flestum stöðum þar sem ég hef komið fram síðustu vikur hef ég sýnt eitthvað af þeim ljósmyndum sem ég hafði fyrir augunum sjálfur meðan ég skrifaði bókina, mér til innblásturs. En á mörgum stöðum hefur líka vantað skjávarpa eða sjónvarp og sums staðar hefur tæknin einfaldlega verið til vandræða og þá hefur þessu verið sleppt – enda fyrst og fremst skraut með textanum. Einhverjum fannst þetta samt leiðinlegt og lofaði ég að birta eitthvað af þeim hér á blogginu. Ég veit vel að merkja ekki hver tók allar þessar myndir, aðallega af því ég hef sankað þeim að mér smám saman héðan og þaðan – bæði ljósmyndað sjálfur upp úr bókum og stolið af Facebook síðum og úr ljósmyndasöfnum á netinu án þess að nótera hjá mér neinar upplýsingar. Það er næsta víst að þær séu ekki í höfundarrétti, en það afsakar þó ekki slugsaháttinn. Meðal ljósmyndara sem eiga margar myndir frá þessu tímabili eru Björn Pálsson, Gunnar Guðmundsson, Sigurgeir Halldórsson, Haraldur Ólafsson, Martinus Simson, Jón Hermannsson og Thyra Juul – þá voru sumar myndirnar úr seríu sem Ágúst Atlason stóð fyrir, þar sem hann hafði hreinsað og fixað til gamlar myndir. Hafa ber þó í huga – einsog ég hef raunar nefnt stundum á upplestrum, enda ein sögupersóna bókarinnar kvenkyns ljósmyndari – að ljósmyndir voru lengst af ekki merktar ljósmyndaranum sem tók þær heldur (karl)manninum sem átti ljósmyndastofuna. Þegar ég sagði frá þessu á einum upplestri dró einmitt ungur maður fram mikið albúm í símanum – sem hann hafði nýlega fengið aðgang að – og sagði mér að þetta væru myndir langömmu sinnar. Þær voru allar með tölu merktar langafa hans, sem hafði aldrei tekið ljósmynd á ævinni.


Myndirnar sem ég hafði fyrir augunum (útprentaðar á veggnum hjá mér eða bara í tölvunni) voru reyndar miklu fleiri – en þetta er úrval af þeim sem tengjast bókinni mest.


Þessa mynd tók ég líklega upp úr Sögu Ísafjarðar – og notaði eitthvað töfratól í tölvunni til að fjarlægja skilin á opnunni. Þess vegna er hún svona skrítin í miðjunni. Hér má sjá bæinn allan og stórt skip við bæjarbryggjuna. Þetta er sennilega nokkrum árum eftir sögutíma okkar, enda byrjað að byggja í Túngötunni.
Hér má sjá hvernig Gleiðarhjalli gnæfir yfir bænum. Gatan aftast er Túngata, þar stóðu engin hús á sögutíma okkar, 1925 – þetta er líklega snemma á fjórða áratugnum, um svipað leyti og fyrsta myndin.

Þessi bátaróla birtist líka í myndbandi sem ég birti um daginn. Og kemur auðvitað fyrir í bókinni.

Flestir Ísfirðingar þekkja framhliðina á Felli – en þetta er bakhliðin, sú sem snýr út á poll og hefur blasað við gestum frá bæjarbryggjunni.

Á sögutíma Náttúrulögmálanna bjuggu álíka margir á Ísafirði og í dag – hátt á þriðja þúsund – en allir bjuggu á eyrinni, sem var miklu grennri en í dag, og þess utan undirlögð af saltfiskreitum. Þar sem maðurinn stendur er í dag Austurvegur, sundhöllin og grunnskólinn og blómagarðurinn – og teygðu reitarnir sig eiginlega alveg niður að sjó. Svo var annað eins í Miðkaupstað (fyrir aftan póst og síma) og niðri í Neðsta.

Fimleikasýning á palli fyrir aftan sjúkrahúsið.

Konur í fiskvaski og verkstjóri. Mig minnir að þessi mynd eigi að vera tekin úti á Torfnesi.

Mynd tekin niðri í Fjarðarstræti. Ég held ég fari rétt með að húsið þarna vinstra megin sé núna gula húsið metsöluhöfundarins Satu Rämö og fjölskyldu hennar. Og fjaran bara við húsvegginn.

Fyrsti bíllinn kom til Ísafjarðar 1923. Þetta mun vera hann, á vegarslóða sem sennilega varð svo Seljalandsvegur. Tveimur árum seinna voru bílarnir orðnir fimm, eftir því sem ég hef komist næst.

Af einhverjum orsökum átti ég voða erfitt með að staðsetja þessa mynd fyrst, þótt það blasi við mér núna. Þetta er Faktorshúsið í Hæstakaupstað – og garðurinn svona myndarlegur og stór. Þangað er farið með Imbu sel í bókinni, og þar tekur hún á móti gestum. Og reitarnir auðvitað í bakgarðinum (það mun hafa verið saltlykt af svo til öllu í firðinum).

Í „raunveruleikanum“ var ekki haldin prestastefna á Ísafirði þetta sumar, en það komu 100 grænlendingar til bæjarins síðsumars 1925 og við það tækifæri var tekin ljósmynd af níu prestum (og mörgum fleirum) við dyr Ísafjarðarkirkju.

Í upphafi bókar er talað um það hvernig heimurinn speglast stundum í pollinum. Ísfirðingar láta oft einsog það sé meira logn á Ísafirði en annars staðar, sem eru áreiðanlega ýkjur, en lognið sem stundum brestur á er sannarlega tilkomumikið á pollinum – og á hverju einasta sumri eru nokkrir dagar þegar Facebookið mitt fyllist af nákvæmlega svona myndum.

Tónlist, glaumur, gaman.

Þetta hús stóð í Tangagötu, ská á móti félagsbakaríinu. Þar bjó bókbindari sem þótti talsverður völundur í sínu fagi – en að sama skapi talsverður skítmixari þegar kom að húsasmíði.

Mér vitanlega er þetta eina almennilega ljósmyndin af húsi Hinna sameinuðu íslensku verslana á Ísafirði áður en því var breytt í pósthús – og þessir risastóru sýningargluggar á framhliðinni fjarlægðir, sem og kúpullinn á þakinu, og húsið svo steinað. Þetta var bara svona í nokkur ár og svo fóru Hinar sameinuðu á hvínandi hausinn. Þetta hús kemur talsvert við sögu.

Á Ísafirði voru tveir bankar og sparisjóður. Ég neyddist reyndar til þess að sleppa sparisjóðnum.

Þessi mynd er tekin fyrir utan Fell. Og þarna eru saltfiskreitarnir líka. Biskupinn minn býr þá í herberginu í turninum þar sem glugginn er opinn. Mig minnir að þessi kona sé danskur ferðamaður en í mínum huga var þetta alltaf frú Ragnheiður Líkafrónsdóttir, biskupsfrú.

Þessar konur unnu eftir því sem ég kemst næst á ljósmyndastofu Björns Pálssonar.

Horft niður Silfurgötuna. „Félagsbakaríið“ er á hægri hönd. Þar í kjallaranum var prentsmiðja Skutuls (og í bókinni er Lúðurinn prentaður þar líka).

Þetta er ein af fáum myndum þar sem sjá má bæði Fell, með sína turna vinstra megin, og verslunina Turninn, hægra megin. Í Turninum vinnur Engilráð Ragnarsdóttir og horfast þau biskupinn á yfir torgið, hvort í sínum ævintýraturni.

Séra Jónas mannspartur býr að Sjónarhæð, sem er skammt fyrir utan bæinn. Þetta hús stendur enn og þar býr Gísli Úlfarsson, kaupmaður, ásamt fjölskyldu sinni. Þar átti séra Sigurgeir Sigurðsson heima í „raunveruleikanum“ – en ef Jónas á eitthvað sameiginlegt með honum er það hrein tilviljun, því ég veit mjög fátt um Sigurgeir (annað en að hann átti heima þarna og varð síðar biskup, einsog sonur hans Pétur, sem er fæddur í húsinu).

Ein vetrarmynd, þótt Náttúrulögmálin gerist að sumri, aðallega af því mér finnst þetta alltaf vera ég sjálfur þarna með hattinn. Myndin er tekin lengst úti á polli. Hann hefur samt aldrei lagt í minni lífstíð, svo þetta hlýtur eiginlega að vera einhver annar.

Sjúkrahúsið nýbyggt.

Fell. Þetta hús átti langafi minn, Finnbjörn málari, þegar það brann 1946. Mér skilst að það standi til að reisa það aftur á Selfossi. Kannski þarna verði H&M í framtíðinni.

Ljósmyndastofa Björns Pálssonar. Hér gerast nokkrar senur í bókinni (en Björn er einsog annað „raunverulegt“ fólk fjarri góðu gamni). Það stóð við hliðina á gamla barnaskólanum en skemmdist í bruna á tíunda áratugnum og var rifið.

Lúðrasveit Ísafjarðar.

Einsog ég nefndi fjölgaði bílunum. Þetta er (held ég) Ford Model TT – „tonnatrukkur“ – með heimasmíðuðum palli.

Tónlist, glaumur, gleði.

Afgreiðslukonur í verslun (mig minnir að þetta sé í Brauns, inni í Felli). Konur eru nokkuð fjölmennari á Ísafirði á þessum tíma. Sennilega vegna þess annars vegar að þær áttu auðveldara með að fá vinnu í verslunum og hins vegar vegna þess að karlar sóttu sjóinn – og hann var helvíti heimtufrekur á mannslíf.

Þetta er tekið í Sundstræti. Ég held að þessi smíði þarna, sem er væntanlega til að halda aftur af hafinu, sé ástæðan fyrir því að þetta svæði var kallað „bakkarnir“ (langt fram á mína tíð).

Aldan. Rósa Maja, Guðný Eyvindardóttir og Engilráð leigja saman herbergi á efstu hæð – það sem er þarna í kvistinum næst okkur. Þar átti ég sjálfur heima í nokkur ár og þar átti amma Arnórs í Illsku líka heima, löngu seinna.

Arnrún frá Felli kallar Ísafjörð alltaf „Sandfjörð“ í sögum sínum og maður sér það á mörgum myndum að það hefur verið ótrúlega grunnt í kringum tangann allan – og áreiðanlega oft verið erfitt að leggjast að. Hér er unnið að dýpkun. Og allir auðvitað meira og minna í sparifötunum.






natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page