top of page

Hvers vegna fer maður í upplestrarferð?


Náttúrulögmálin koma í bókabúðir á morgun, en einsog sjá má hafa sumir þegar tryggt sér eintak eftir krókaleiðum.

Hvers vegna bókar maður upplestrarferð með hátt í fjörutíu stoppum á tæplega þrjátíu dögum? Í nóvember á Íslandi, þegar líkurnar á því að verða veðurtepptur einhvers staðar eru sennilega að minnsta kosti 50%. Ég er búinn að gefa alls konar svör við þessari spurningu síðustu vikurnar. Hér eru flest þeirra.

  1. Það segir kannski ekki mikið að mér finnist það sjálfum, en ég er mjög ánægður með bókina og finnst hún eiga það skilið að ég sinni henni eins vel og ég get. Ég er á sæmilegum stað andlega og alveg fær um það.

  2. Ég hef stundum farið til Reykjavíkur í 1-2 vikur til þess að fylgja bókum eftir en oftar en ekki eytt meiri tíma í að klóra mér í rassinum en mér finnst réttlætanlegt þegar ég skil Nödju eina eftir með heimilisreksturinn.

  3. Ég á Nödju að og hún getur staðið vaktina heima meðan ég fer. (Hún ætlar að vísu að koma og hitta mig í Reykjavík líka).

  4. Ef ég fæ ekkert nema hræðilega dóma og allt gengur á afturfótunum er ég a.m.k. ekki heima hjá mér að gera alla vitlausa á meðan.

  5. Ég er áhugamaður um afmiðjun íslensks menningarlífs – að við hættum að haga okkur einsog Ísland sé borgríki. Það er ekkert óvenjulegt í nágrannalöndunum við að maður fari í upplestrarferð. Ég hef farið – sem þýddur höfundur – í upplestrarferðir í Frakklandi, Þýskalandi, Póllandi og Svíþjóð en aldrei á Íslandi (ef frá er talinn Nýhiltúrinn 2003). Ekki svona langar, en samt.

  6. Mér fannst inspírerandi að aðstandendur kvikmyndarinnar Volaða lands skyldu fara í túr um landið og sitja fyrir svörum eftir sýningar á myndinni í vor.

  7. Kenning mín er sú að fólk fari milli bæja fyrir tónleika en sjaldan fyrir upplestur. Ef ég vil lesa fyrir bolvíkinga – Bolungarvík er korter í burtu – þarf ég eiginlega að fara til Bolungarvíkur. Tónlistarmanni myndi sennilega duga að spila bara á Ísafirðii. Þess vegna kem ég víðar við. Á móti kemur að ég þarf ekki að róta upp mögnurum og trommusetti og gera hljóðprufur. Ég get farið inn og út. Ég þarf heldur ekki að keyra meira þótt ég stoppi oft. Hringvegurinn er alltaf jafn langur.

  8. Ég þekki gott fólk um allt land og hefur tekist að snapa mér gistingu víðast hvar – sem dregur talsvert úr kostnaði.

  9. Suma daga er ég bjartsýnismaður en aðra daga er ég svartsýnismaður. Bjartsýnismaðurinn ráðfærir sig ekki endilega við svartsýnismanninn þegar hann tekur svona ákvarðanir.

  10. Mig langar að hitta lesendur. Alls konar lesendur. Það er skemmtilegt.

  11. Ég er frekar góður í að skipuleggja svona hluti. Ég hef oft gert það fyrir verkefni sem fleiri taka þátt í – ég stofnaði og rak ljóðahátíð Nýhils í nokkur ár, ritstýrði Tíu þúsund tregawöttum og Starafugli, skipulagði viðburði og gaf út bækur (annarra) og svo framvegis. Mér finnst það ekkert leiðinlegt.

  12. Ég hef yfirleitt haft alls konar fólk með mér í útgáfufögnuðum og fundist erfitt að vera einn – viljað dreifa fókusnum, og stundum beinlínis fela mig á bakvið hæfileikaríka vini mína. Á túrnum er ég oftast – en ekki alltaf – einn og í því er fólgin áskorun sem ég held að mér sé hollt að mæta.

  13. Mér finnst líklegt að þetta verði til þess að vekja athygli og jafnvel áhuga á bókinni minni.

  14. Ég hefði hvort eð er ekkert skrifað af viti í jólabókaflóðinu og bókin sem ég er með í höfðinu hefur gott af því að marínerast svolítið. Ég fæ nógan tíma í bílnum með hugsunum mínum.

  15. Einhverjum mun finnast þetta óþolandi athyglissýki, en ég hef ákveðið að láta það ekki trufla mig.

  16. Þetta verður aldrei ferð til fjár – en ég gæti sloppið á sléttu. Ég hef ákveðið að láta það ekki trufla mig heldur. (Án listamannalauna gæti ég þetta samt augljóslega varla).

  17. Það vantar samt ferðastyrki fyrir listamenn innanlands. Ég get hæglega fengið styrk til þess að fara á bókmenntahátíð í Rio de Janeiro en ég get ekki fengið styrk til þess að fara á bókamessuna í Reykjavík (og sem stendur eru allar líkur til þess að ég sleppi henni einmitt). Samt er ekki endilega alltaf ódýrara að fara til Reykjavíkur en útlanda, vel að merkja. Með mikilli vinnu væri sjálfsagt hægt að kría eitthvað út hjá menningarnefndum ólíkra sveitarfélaga en þeir smáaurar dygðu varla fyrir vinnunni sem færi í að sækja um þá. Menningarhúsin úti á landi vantar líka styrki til þess að geta boðið fólki sem býr annars staðar að koma til sín. Að ég fari á túr breytir þessu ekki, en það er kannski vísir að því að breyta kúltúrnum – að það verði eðlilegra að menningin eigi sér stað á landsvísu.

  18. Það er gaman að gera eitthvað grand. A.m.k. ef það fer ekki allt í handaskolum! En ég er líka alveg nógu æðrulaus þessa dagana (held ég!) til þess að fara ekki af hjörunum þótt eitthvað klikki.

  19. Ég fæ tækifæri til að ferðast um landið og hitta vini. Ég ætla t.d. að vera tvær nætur hjá systur minni á suðurlandi sem ég sé alltof sjaldan. Og heimsækja marga bæi sem ég hef kannski bara komið til einu sinni eða tvisvar.

  20. Þetta er sennilega ekkert sem ég myndi nenna að gera í hvert sinn sem ég gef út bók. En að gera þetta einu sinni – og kannski venja mig á að gera a.m.k. nokkur stopp fyrir hverja bók – mig langar það.

  21. Af því bara. Ég á þetta, ég má þetta.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page