Ég er kominn aftur á skrifstofuna. Líklega hef ég skrúfað fyrir ofninn þegar ég fór – hér er rosalega kalt og ég sit í útifötunum við tölvuna með loppna fingur. Það stendur þó allt til bóta.
Ég hef ekki alveg haft tíma til að hugsa síðustu vikurnar en það hefur margt í sjálfu sér dunið á. Eða, tíma hef ég svo sem haft, en kannski ekki eirð. Það komu upp tvö menningarhneyksli – annars vegar var það jólakúlumálið á Ísafirði og hins vegar dramað í kringum Iceland Noir – og ég hef einhvern veginn ekkert náð til botns í þeim ennþá. Þótt ég hafi reyndar talsvert talað um bæði við fólk, nú þegar ég hugsa út í það. En ég skil til dæmis enn ekki hvers vegna Auður Jónsdóttir sagði af sér sem ritstjóri Heimildarinnar – hvað það hafði með Iceland Noir að gera. Eða hvað kom í veg fyrir að annar listamaður yrði gerður að heiðurlistamanni fyrst Öddi vinur minn afþakkaði. Nú heyrist mér á Yrsu að þau viti ekki hvort hátíðin verði haldin aftur. Og það er búið að auglýsa eftir tilnefningum til íþróttamanns ársins í Ísafjarðarbæ – einhver stakk upp á því að peningunum yrði eytt í páskaskraut. Ég er að hugsa um að tilnefna Hillary. Hún er áreiðanlega ekki verri íþróttamaður en hver annar.
Sennilega er þetta líka allt komið í einn graut í höfðinu á mér.
Hér var haldin Opin bók – þar voru margar spennandi bækur kynntar. Armeló hef ég reyndar lesið og get einlæglega mælt með – ég var eiginlega alveg agndofa þegar ég lagði hana frá mér. Það er svo mikið brjálæði að hafa sjálfsmynd í nútímanum. Og „feykilega vel gert“ einsog það heitir á ritdómaramáli. Hinar á ég enn eftir og byrja sennilega á Ljóð fyrir klofið hjarta eftir Helen Cova, sem gaf út hina æðislegu Sjálfsát fyrir nokkrum árum – þetta er fyrsta bókin sem Helen skrifar á íslensku og hún blandar saman bæði „leiðréttum“ texta, og „óleiðréttum“, ofan í spænskuna. Ég hef heyrt hana lesa upp úr henni í tvígang og þetta er algerlega eitthvað sem talar til mín og þess hvernig ég skil erindi ljóðlistarinnar.
Svo er ég víst búinn að lofa að leika (og syngja!) í Fiðlaranum á þakinu. Æfingar eru löngu hafnar og ég hef misst af þeim öllum nema einni. Það eru einhver bókagigg á næstunni þótt túrinn sé búinn – ég ætla í Háskólasetrið að tala um heimildavinnu við skáldskaparskrif, á bókasafnið að lesa upp úr Frankensleiki, í menntaskólann að tala um rithöfundalífið, á elliheimilið að lesa upp úr Náttúrulögmálunum. Svo er von á Víðsjá í bæinn og Mogginn ætlar að hringja á morgun. Ég náði Kiljuviðtali meðan ég var í borginni og það verður spilað á miðvikudaginn. Ég hef bara fengið einn dóm, enn sem komið – mjög lofsamlegan, í Heimildinni, set hlekk þegar hann kemur á netið – jólabókaflóðið hálfnað – en fæ vonandi einhver meiri viðbrögð fljótlega. Ekki þar fyrir að kannski á maður bara að hætta leik þá hæst hann stendur. Láta kalla inn öll kynningareintökin meðan ég er enn á sigurbraut. Svo þarf ég að ganga frá fjármálunum í kringum túrinn. Og komast inn í rútínuna aftur.
Og bara hvíla mig og taka því rólega. Og halda yfirveguð, stresslaus jól. Það væri geggjað.
Comments