top of page

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar


Ég lá andvaka í nótt og fór að velta fyrir mér eðli paródíunnar – upp úr því að hafa annars vegar rifjað upp Silvíu Nótt með krökkunum og hins vegar verandi búinn með (þaðsemégheldaðséu) paródískustu kaflar Ulysses, Cyclops, Nausicaa og Oxen of the Sun. Ég geri ráð fyrir að flestir þekki til Silvíu en ég skal fara stuttlega yfir þessa kafla.


Cyclops gerist á barnum Barney Kiernan's. Sögumaður er nafnleysingi sem talar í fyrstu persónu („I“ verður „eye“ – auga kýklópsins) og kjarninn í kaflanum eru samræður manna á bar, ekki síst Leopolds Bloom, aðalsöguhetju Ulysses, og manns sem er kallaður „the citizen“ og er síns tíma írskur trumpisti – gyðingahatari og þjóðremba. Umræðuefnið er Írlands gagn og nauðsynjar – írsk menning, írskar íþróttir, innflytjendur (og hverjir séu innflytjendur) und so weiter.


Fyrstupersónufrásögnin er síðan brotin upp af alls kyns milliköflum í ólíkum og afar ýktum stílum – t.d. er the citizen fyrst lýst svona:

The figure seated on a large boulder at the foot of a round tower was that of a broadshouldered deepchested stronglimbed frankeyed redhaired freelyfreckled shaggybearded widemouthed largenosed longheaded deepvoiced barekneed brawnyhanded hairylegged ruddyfaced sinewyarmed hero. From shoulder to shoulder he measured several ells and his rocklike mountainous knees were covered, as was likewise the rest of his body wherever visible, with a strong growth of tawny prickly hair in hue and toughness similar to the mountain gorse (Ulex Europeus)

Þetta heldur reyndar áfram lengi. Alls eru þessi frammígrip í kaflanum ríflega þrjátíu talsins og vel flest ef ekki öll í einhvers konar hetjusagnastíl.


Næsti kafli, Nausicaa, er sjálfsfróunarkaflinn frægi. Þá erum við stödd á Sandymount Strand og sagan er aftur í þriðju persónu. Fyrri hluta kaflans sjáum við atburði frá sjónarhorni ungrar stúlku, Gerty MacDowell, sem sér Leopold Bloom álengdar og gerir sér um hann ýmsar rómantískar hugmyndir. Kaflinn nær hámarki sínu þegar hún hefur beygt sig fram svo hann sjái vel upp um pilsið á henni meðan hann fróar sér og fær fullnægingu á sama tíma og flugeldasýning hefst niðri í bæ. Eftir fullnægingu förum við aftur inn í höfuðið á Bloom. Allan tímann sem við erum í höfðinu á Gerty MacDowell er stíll bókarinnar paródía af ástarsögum 19. aldar – hýperrómantískur og afar upptekinn af allri ásýnd hluta. Ef the citizen minnir nútímamann á æstan trumpista minnir Gerty mann á áhrifavald á instagram. Stíllinn er tilgerðarlegur og ýtir jafnvel að einhverju leyti undir þá hugmynd að maður sé alls ekki í höfðinu á Gerty sjálfri, heldur sé þetta fantasía Blooms um hugsanir Gertys. Það þarf ekki að túlka það þannig – það er líka áhugaverður lestur að hún sé sitt eigið viðfang, hin frjálsa unga kona í kaþólsku landi, og þar með lýsing á því hvernig maður kúgar aldrei ímyndunaraflið – en mér finnst sannarlega opið fyrir hitt líka.


Loks er það Oxen of the Sun, sem mér skilst að sé almennt álitinn erfiðasti kafli bókarinnar. Sá kafli gerist á Holles Street fæðingarspítalanum þar sem hópur fullra karlmanna situr frammi á einhvers konar biðstofu og bíður þess að frú Purefoy eignist barn sitt – en hún hefur verið í hríðum í þrjá sólarhringa.


Kaflinn byrjar sannarlega ekki mjög árennilega – byrjar á heiðnum þulum og fer svo beint út í langan texta sem er sennilega fyrst skrifaður á latínu og svo mjög-hráþýddur yfir á ensku, án beyginga. Svo tekur hver stíllinn við á fætum öðrum – engilsaxneskur, mið-enskur, artúrskur, miltonskur, swiftískur, dickenskur og svo framvegis – og ég held það sé rétt að við hvern stíl færumst við nær nútíma Joyce. Einsog í frammígripunum Cyclops ræður stíllinn líka gjarnan því hvað er sagt – svona er til dæmis sagt frá því að Bloom hafi fáeinum dögum áður komið á spítalann til þess að láta líta á býflugnastungu:

And the traveller Leopold was couth to him sithen it had happed that they had had ado each with other in the house of misericord where this learningknight lay by cause the traveller Leopold came there to be healed for he was sore wounded in his breast by a spear wherewith a horrible and dreadful dragon was smitten him for which he did do make a salve of volatile salt and chrism as much as he might suffice.

Þetta mun vera í stíl ferðasagna frá miðöldum.


Allar bera þessar paródíur merki djúprar ástríðu Joyce fyrir tungumálinu – en það er áhugavert að stundum er gengið út frá því að paródíurnar séu háð og stundum að þær séu tignun, án þess að ég sjái á því nokkurn mun annan en að sumt þykir fínt og sumt ekki (og kannski deildi Joyce þeim smekk síns tíma – en þess sér ekki endilega stað í því hvernig hann skrifar).


***


Nú man ég auðvitað ekki hvað það var sem hélt fyrir mér vöku – það var einhver algerlega snilldarlegur samanburður við paródíur nútímans. Það eina sem ég man var að ég hugsaði talsvert um stílinn á sögu Gerty. Þegar ég las hann þótti mér ekki endilega víst að Joyce væri að paródísera hann, frekar en bara sökkva tönnunum í hann – einsog hann gerir svo víða í bókinni, sem er auðvitað í og með ástaróður til enskrar tungu. Textinn er heldur ekkert væmnari eða „hallærislegri“ endilega en margt af því sem þykir gott og gilt í fagurbókmenntunum 21. aldarinnar. Og þegar ég las síðan ritgerðina sem fylgir kaflanum í bókinni minni, eftir Vicki Mahaffay, gladdi það mig að sjá að hún tók í sama streng og sagði raunar kominn tími til að hvíla þann lestur að hér væri Joyce að hæðast (frekar en annars staðar) og benti á rætur orðsins paródía, sem er „para“ (það er að segja „með“ eða „til hliðar við“) og oide, sem er sama orð og óður. Að paródísera er þannig í grunninn „að syngja með“ og þarf ekki að fela í sér háð (hvort það sé svo hægt að herma eftir einhverjum algerlega sviðalaust er önnur spurning).


Silvía Nótt kom síðan sem sagt til tals við kvöldverðarborðið í gærkvöldi og við horfðum á Til hamingju, Ísland og það sló mig að hún höfðaði á sínum tíma auðvitað í senn til fólks (barna, ungra stúlkna) a.m.k. hálf óírónískt – sem bara kúl gella – og til fullorðinna gagnkynhneigðra karlmanna sem óírónískt kyntákn – en fyrst og fremst sem einhvers konar gagnrýni á allt saman. Og auðvitað er paródía líka einhvers konar tignun, alveg sama hvað maður hæðist. Sennilega er meira að segja auðveldara að svipta paródíuna háðinu en tignuninni.


Og nú, hvað 15 árum síðar eða svo, má segja að þessi paródía hafi snúið aftur sem einlæg tignun. Ef að LXS, Æði, Prettiboitjokkó og allt áhrifavaldagengið í Instagram vikunnar hefði stigið fram fyrir 15 árum hefðum við áreiðanlega flest skilið það sem parodíu, einsog við skildum Silvíu Nótt, Johnny Naz, Ali G eða Tískubloggarann sem paródíu. En við gerum það ekki – eða, a.m.k. ekki sem háð, en kannski sem samsöng, eftirhermu, stælingu? Það er líka áhugavert að halda því til haga að ef Silvía notaði húmor til þess að afhjúpa og svíða, draga línu í sandinn og gagnrýna, þá nota áhrifavaldarnir húmor til þess að breiða yfir ákveðið innihaldsleysi. (Öll notuðu þau svo húmor sennilega fyrst og fremst til þess að skemmta, enda er það ekki ómerkilegasta hlutverk húmors).


Annað sem sló mig er að þessi tegund paródíu – sú grimma, sú sem bítur – sé tja ... segjum að minnsta kosti í talsverðri lægð. Maður þarf að vera syndugur á allt annan hátt – það er ekki nóg að vera yfirborðskenndur eða vitlaus eða hégómagjarn eða efnishyggjusinnaður til að eiga skilið grimma paródíu (þar sem maður þekkist), heldur þarf almenningi – sem er uppistaðan í „góða fólkinu“ – líka að finnast viðkomandi vondur. Það verður að vera hafið yfir vafa að hann eigi það skilið. Kannski erum við líka komin ofan af heimspekilega sviðinu um hýpóþetískar almennar syndir og niður í eitthvað meira konkret. Og persónulegra. Við segjum kannski ekki lengur að hégómi, hroki, öfund, bræði og ágirnd séu ámælisverðir eiginleikar – heldur að Siggi sé fáviti. Sennilega er það ástæðan fyrir því að PBT er í spilun en ekki Megas.


En þá er ég kominn aðeins út fyrir þessa paródíupælingu. Fyrst og fremst finnst mér í raun hressandi að hugsa um paródíuna sem eitthvað annað en háð – eða í það minnsta að háðið sé aukahlutverk við hliðina á samsönginum. Og svo spurningin: er hægt að búa til paródíu algerlega án þess að hæðast að frummyndinni; og er hægt að búa til paródíu algerlega án þess að tigna frummyndina?

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page