top of page

Deux amoureux


Ostrur – tékk.

Tartare de bœuf – tékk.

Dúfa – tékk.

Morbier – tékk.

Comté – tékk.

Phoenicienne – tékk.

Bagettur (classique, tradition, rustique) – tékk.

Champagne – tékk.

Degustation de vin – tékk.

Lesa bók á frönsku – tékk.

Rautt, hvítt og rósa – tékk.

Læra lag á frönsku – tékk.

Plat du jour – tékk.

Croissant – tékk.

Skrifa dagbók á frönsku – tékk.

Baða sig í hafinu – tékk.

Fara í artí bíó – tékk.

Fara í útibíó – tékk.

Pain au chocolat – tékk.

Fara á nútímalistasafn – tékk.

Fara á gamltímalistasafn – tékk.

Pastís – tékk.

Fara á tónleika – tékk.

Carpaccio – tékk.

Kaupa Cent mille milliards de poèmes – tékk.

Fara í grasagarðinn – tékk.


Í Montpellier er maður víðast hvar ávarpaður á frönsku. Og raunar alltaf. Ég lenti að vísu í því í fyrsta sinn áðan að þjónninn skipti í ensku þegar hann áttaði sig á því að ég skildi ekki allt sem hann hafði sagt – eða las það í einbeitingarsvipinn á mér sennilega, því ég skildi hann alveg nóg. Ég svara mest með stökum orðum og bendingum, sem kannski setur fólk úr jafnvægi, en ég vil gjarnan að það tali frönsku við mig svo ég læri eitthvað (ég hef reyndar oft lent í því í Svíþjóð líka að afgreiðslufólk – sem talar sænsku – ávarpi mig á ensku; og þó tala ég sænsku reiprennandi, kannski er þetta bara einhver ára, einhver örlög). Hér er líka furðu lítið af erlendum keðjum sem maður ber kennsl á – langflestar búðir virðast vera annað hvort sjálfstæðar verslanir eða franskar keðjur.


Og heitt. Hér er mjög heitt. Líka langt fram á kvöld – það er einsog það kólni ekkert fyrren sólin beinlínis sest. Marga daga hefur mesti hitinn verið milli sex og átta.


Þetta er ansi ljúft líf. Og ég hef lítið unnið þrátt fyrir góðan ásetning – en eytt þeim mun meiri tíma í að læra frönsku. Og ætla að halda því áfram bara, held ég – þótt ég verði líka að spýta í lófana og sinna vinnunni minni. Þegar ég kem heim tekur líka við eitthvað meinlætalíf – hollusturispa – maður verður hræðilega sloj af la bonne vie. Að ekki sé minnst á hvað maður verður blankur.


Ég legg af stað annað kvöld en Nadja verður í viku í viðbót – vinkona hennar hér aðeins sunnan af heldur fimmtugsafmælið sitt í næstu viku. Ég er búinn að vera nóg að heiman og ætlaði líka á ættarmót – sem var að vísu aflýst – og sakna krakkana og vinnunnar. Verð eina nótt á Kastrup – hafði séð fyrir mér að kaupa mér aðgang að lounge og lúra bara þar en svo loka þau víst yfir nóttina, svo ég verð væntanlega bara á gólfinu.コメント


natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page