top of page

Dagur ljóðsins


Í dag er dagur ljóðsins.


Mér finnst ég núorðið vera hálfgerður loddari í ljóðabransanum. Þannig var það sannarlega ekki alltaf en af einhverjum orsökum þá ásækir tilfinningin mig nú reglulega. Til dæmis þegar ég er beðinn um að mæta í útlenskt hlaðvarpsspjall um ljóðlist, einsog gerðist í morgun. Fyrir þessu gætu verið nokkrar ástæður. Fram til sirka 2012 var langmestur gangur í „ferli“ mínum ljóðamegin í tilverunni (en ég hef alltaf skrifað bæði sögur og ljóð og lengst af þýddi ég talsvert líka). Ég var á talsverðu ljóðahátíðaflakki og gaf út ljóðabækur 2001, 2002, 2003, 2005, 2007 (tvær), 2008 (tvær) og 2009. Á sama tímabili gerði ég líka öll hljóðaljóðin og flest myndbandsljóðin – sem fóru á netið og kvikmyndahátíðir – gaf út Booby, Be Quiet, ritstýrði Af steypu og Af ljóðum og Tíu þúsund tregawöttum, þýddi Ginsberg (og allan fjárann annan) og startaði Alþjóðlegu ljóðahátíðinni. Á þessum tíma skrifaði ég vel að merkja líka Hnefa eða vitstola orð – þótt hún kæmi ekki út fyrren 2013.


Ýmislegt breyttist þarna upp úr 2009 (og ýmislegt hélt áfram að breytast og sumt breytist enn). Ég gifti mig 2007 (eftir mjög stutta trúlofun sem kom í kjölfar svona tveggja vikna sambands – við konu sem á einmitt afmæli á Degi ljóðsins). Ég varð pabbi 2009 – það breytir öllum rytma og því hvernig maður vinnur. Nýhil lagði upp laupana (sprakk í tætlur). Ég hafði lengi skipt vinnudeginum upp í tveggja tíma rispur – 2 tíma í ljóð, 2 tíma í prósa, 2 tíma í þýðingar og 2 tíma í tölvupósta og bókhald. En eftir að Aram fæddist og ég fór að sofa minna og óreglulegar á nóttunni og það hætti að vera vinnufært heimavið gekk þetta ekki upp – hausinn á mér var að springa. Ég var líka að sökkva í lengstu og umfangsmestu bók sem ég hafði skrifað fram að því (Illsku) og hafði ekki þrek til að splitta mér svona upp.


Á tímabilinu 2001-2009 skrifaði ég sem sagt 10 ljóðabækur. Á tímabilinu 2009-2024 hef ég skrifað eina (sem hefur komið út), Óratorrek – sem mörgum finnst ekki einu sinni vera ljóðabók (hún er það samt). Ætli ég hafi mig ekki bara grunaðan um að hafa svikið mína huldumey – snúið mér að öðru? Og finnist ég þess vegna sigla undir fölsku flaggi (svo ég nykri í tilefni af því að ég var spurður áðan hvað það þýddi).


En það er líka fleira. Sem ljóðskáld átti ég mér samastað innan Nýhil – sem tilraunaskáld, oft í transgressjón, alltaf í hálfgerðri vitleysu, einhverju tungumálabrjálæði, í leit að einhverju óvenjulegu, í leit að einhverju sem var oft bara mjög óljóðrænt. Þessi ljóðlist mín náði máli í ákveðnum kreðsum erlendis – annars vegar í framúrstefnukreðsunni og hins vegar sem performans (sem er ástæðan fyrir því að ég ferðaðist svo mikið á hátíðir). En utan einhverra Nýhilkreðsa er varla hægt að segja að þetta hafi vakið stormandi lukku á Íslandi (einn þekktur bókmenntajöfur bað mig meira að segja í guðanna bænum að hætta þessu ljóðarugli, ég hefði augljóslega engan talent í þetta – það var vel að merkja snemma á ferlinum og ég fór ekki að þeim ráðum).


Við þetta er kannski mikilvægt að bæta því við hér í innskoti að hugsanlega hætti ég líka að njóta þess að vera í þessari ljóðastjórnarandstöðu sem ég hafði sjálfur skipað mig í – lengi fannst mér nefnilega bara gaman ef ritdómarar voru hneykslaðir og enn meira gaman ef lesendur og hlustendur voru hneykslaðir. Ég held það sé ekki einu sinni orðum aukið að ég hafi fiskað eftir þannig viðbrögðum.


Og svo það sem meira var: ég hætti að finna mig í því sem aðrir voru að gera. Eftir að ég flutti frá Helsinki og Nýhil hætti var ég ekki lengur í neinni kreðsu – ekki í nærandi samræðu um ljóðlist við neinn, hvorki í gegnum það sem ég las né annars konar félagsskap. Ég á ekki við að mér hafi mislíkað það sem ég var að lesa – ég hef alltaf lesið mikið af ljóðum og finnst margt af því sem hefur komið út síðasta áratuginn vera æðislegt. En það er ljóðlist sem er á annarri vegferð en mín. Og ég hef ekki haft fyrir því að vera jafn leitandi og ég var – kaupi varla nema 2-3 útlenskar ljóðabækur á ári.


Hér verður eiginlega að vera annað innskot líka til þess að leggja áherslu á að ég hef aldrei hætt að skrifa ljóð. Ef það skyldi hljóma þannig. Annars vegar er ég langt kominn með ónefnda bók sem inniheldur ljóð sem hafa meira að segja flest birst í einhverri mynd – í TMM, Són, Með Hamraborgir á heilanum, Ljóðabréfi Tunglsins og meira að segja í einhverjum fínum útlendum ritum. Hins vegar hef ég gert tvær heilar bækur með fundnum og tillöguðum textum sem fóru báðar í geymsluskúffuna/ruslatunnuna – önnur var unnin upp úr álitsfrétt um fallegustu staði á Íslandi og var sett á ís þar til teiknarinn sem ég ætlaði að vinna með tæki við sér (síðan eru liðin mörg ár); hin var unnin eftir pöntun upp úr Samherjapóstunum með vilyrði um útgáfu frá manneskju sem hafði þegar til kastanna kom alls ekki neitt vald til að gefa slíkt vilyrði. Báðar voru þessar bækur í raun fullunnar frá minni hálfu, þótt þær kæmu aldrei út (og geri það áreiðanlega ekki héðan af).


Sú ljóðlist sem ég skrifa nú – þ.e.a.s. þessi ónefnda bók – er í annarri dýnamík líka en sú sem ég skrifaði einu sinni – ég er að leita að einhverju öðru, með einhverjum öðrum verkfærum, og satt best að segja er ég ráðalausari en ég var og þarf meiri tíma til að fullnægja mínum eigin fagurfræðilegu tiktúrum. Það gengur ágætlega en það gengur ekki beinlínis hratt – og nú er ég alveg á mörkunum að lenda í einhverju „segi alltaf færri og færri orð“ rugli einsog Sigfús, eða fara að haltra við hækuna hans Hallgríms, og sennilega best að ég hætti strax að lýsa því sem ég er að reyna að gera enda „bera fæst orð minnsta ábyrgð“ og allar þær klisjur.


Það sem ég vildi sagt hafa var í raun bara þetta: Gleðilegan dag ljóðsins (og til hamingju Nadja, með afmælið, ef þú lest þetta).


p.s. svo ætlaði ég líka að minna á LJÓÐAUPPLESTUR á mánudaginn næsta. Gamalt efni og nýtt. Á bókasafninu á Ísafirði kl. 17.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page