top of page

Chez moi


Eftir því sem ég kemst næst eiga Frakkar sér ekkert orð fyrir „heima“. Þeir eru bara „í húsinu“ eða „hjá sér“. Merkingin er svo bundin í setningagerðina – à la maison er heima en dans la maison bókstaflega í húsinu. Þegar ég hef svarað fyrir skáldsöguna Heimsku – mest einmitt í Frakklandi – hef ég oft delerað um sifjar orðsins, hvernig heimska sé það að vera alltaf heima, sjá aldrei næsta fjörð og hvað þá önnur lönd, en hvernig orðin heima og heimur séu líka náskyld. Enda heimurinn heimili okkar. Og þá komið að þeim punkti líka að maður geti orðið alveg jafn heimskur af því að reyna að svolgra í sig allan heiminn í einu – ef maður gefi sér ekki tíma til að skilja heldur stundi lífshlaupið einsog það væri keppni (en það er kannski hjartað í skáldsögunni Heimsku).


Kannski verður það síðan enn ljósara með gervigreindinni að maður skilur ekkert með því einu að vita eða muna. Mér skilst að stærsti munurinn á fúnksjón gervigreindar og mannsgreindar sé sá að gervigreindin noti skrilljón gagnapunkta til þess að komast að niðurstöðu á meðan maðurinn sé einmitt fær um að draga ályktanir og skilja ýmislegt út frá mjög fáum gagnapunktum. Manni þarf held ég að leiðast til að geta verið mennskur – og það eru vélar augljóslega enn ekki færar um (en það er vel að merkja það sem gerist í kvikmyndinni Her – vélinni fer að leiðast). Og raunar er spurning líka hvort að sæborg sem dregur upp símann í hvert sinn sem leiðinn vofir yfir verði ekki á endanum meiri vél en maður.


***


Ég er að lesa nýjustu ljóðabók Þórarins Eldjárn – Hlustum frekar lágt. Þórarinn hefur átt einhverja taug í mér frá því ég var unglingur – það eru fáir höfundar á Íslandi sem hafa skrifað af jafn mikilli leikgleði og ástríðu fyrir því hvernig tungumálið hljómar. Í mínum huga er það líka einmitt það sem ljóðlistin er – eða allavega þar sem hún er best – þegar leikið er á tungumálið einsog hljóðfæri.


Í Hlustum frekar lágt nýtur þessi list sín jafnt í hversdagslegum athugasemdum, heimsósómakveðskap og meira að segja í hryggðarljóðum – sem og auðvitað í þeim fyndnu ljóðum sem Þórarinn er sennilega frægastur fyrir. Og stundum – eða jafnvel oftast – vefur hann þessu öllu saman í eitthvað innilega Eldjárnskt – með kómískum sorgarsvip og sorgbitnu brosi í senn. Einsog í upphafsljóðinu þar sem ljóðmælandi kemur heim og hengir grímuna sína á vegginn:

Gríman er með grettu glott sem henni er tamt stjarfa freðna fettu flíms og hryggðar jafnt.

Það er líka umhugsunarvert að Þórarinn skuli hefja bókina á bókina á eins konar yfirlýsingu um grímuleysi – og að bókin hefjist á að hann komi heim, „inn úr ani“, enda á skáldið alltaf fyrst og fremst heima í bókum sínum – og ljúka henni á ljóði um að maður skuli ekki líta niður á neinn, né horfa upp til eins né neins, með dásamlegu lokalínunni: „Dýrð sé guði í augnhæðum“. Það hefur kannski aldrei verið mikilvægari boðskapur – að líta grímulaust á aðra sem jafningja sína – en nú á tímum eftirsannleika, linnulauss leikaraskaps og stigveldis áhrifavaldanna.


***


Ég sendi handritið að Náttúrulögmálunum suður með flugfrakt í gær. Það var síðasta próförk sem ég sé. Handritið er sex hundruð blaðsíður og 3,2 kg. Bókin verður jafn löng en eitthvað léttari, gæti ég trúað. Þegar ég var með þetta monstrosítet á borðinu hjá mér í gær varð mér hugsað til senu í byrjun kvikmyndarinnar La vie de bohème eftir Aki Kaurismäki. Franski rithöfundurinn Marcel Marx kemur inn á knæpu og hefur að fyrirlesa um smámunasemi útgefanda sem vilji ekki gefa út bókina hans og það séu allir í þessum heimi, a.m.k. þeir sem einhverju ráði, pípandi fávitar. Barþjónninn sem hlustar á vælið býðst þá til þess að lesa bókina og gefa álit. „Kannt þú að lesa?“ spyr monsieur Marx. Og barþjónninn segist jájá hafa gengið í barnaskóla úti í sveit – tvo-þrjá bekki. Þá lifnar yfir monsiernum. „Já! Að fá álit alvöru alþýðumanns –  til fjandans með þessa skræðunjóla á forlögunum!“ Svo beygir hann sig yfir leðurtöskuna sína og tekur upp risavaxið handrit – a.m.k. 600 síður og áreiðanlega 3,2 kg – og skellir á borðið.


Þar lýkur vel að merkja senunni og við heyrum aldrei aftur af þessu handriti. Fyrir mína parta vona ég að bæði skræðunjólar og alþýðan hafi gaman af Náttúrulögmálunum.

104 views0 comments

Recent Posts

See All

Hinsegin

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page