top of page

Að lesa Ulysses

Einn af frægustu lesendum Ulysses, Marilyn Monroe.

Ég hef gert tvær fyrri atlögur að Ulysses – ef ég tel ekki með skiptið sem ég reyndi að kaupa hana í enskri bókabúð í Berlín fyrir 25 árum og fékk neitun við kassann, þetta væri síðasta eintakið og það gæti engin alvöru bókabúð verið án eintaks af Ulysses. Í fyrra skiptið náði ég mér einfaldlega í frítt kindileintak og byrjaði að lesa og varð fljótt villtur. Í seinna skiptið hafði ég ákveðið að það hefði verið enskan sem þvældist fyrir mér í fyrra skiptið og varð mér úti um eintak af þýðingu SAM – ég komst eitthvað aðeins lengra en villtist fljótt aftur. Um það leyti lýsti ég því hátíðlega yfir, einsog maður gerir, að þetta væri leiðinleg bók og Joyce væri leiðinlegur höfundur og þetta væri allt bara eitthvað rugl – flækjur flækjanna vegna, ekki skáldsaga heldur sudokugáta. Innst inni held ég að ég hafi auðvitað vitað að þetta væri bara uppgjöf í mér, svona einsog maður sem snýr við í miðri fjallgöngu og lýsir því yfir að útsýnið hafi hvort eð er ekkert verið merkilegt, sennilega séu útsýni bara glötuð almennt, og best að vera inni.


Ég er ekki kominn nema ríflega þriðjung inn í bókina núna. Þessa stærstu bók sem ég á – risavaxið eintak með ljósprenti af fyrstu útgáfu bókarinnar, óteljandi athugasemdum og ritgerðum fyrir hvern einasta kafla. Yfirleitt les ég fyrst kaflann, fletti svo aftur að ritgerðinni, horfi kannski á nokkur YouTube-myndbönd, gúgla einhverjum skrifum, glugga í þýðingu SAM, og les svo kaflann aftur. Og er nýbyrjaður á hljóðbókinni með (frá byrjun). Glósa og undirstrika og skil alltaf meira og meira en aldrei allt – og skilst maður nái nú aldrei svo langt heldur. Nokkrum sinnum hefur hvarflað að mér að fara bara beint í næsta kafla eftir fyrsta lestur – ég hafi nú náð svona megninu og þetta hafi nú kannski ekki verið skemmtilegasti kaflinn í bókinni. En svo þegar ég læt mig hafa það samt að gægjast undir yfirborðið verður það undantekningalítið til þess að kaflinn opnast upp á nýtt og verður margfalt skemmtilegri og áhugaverðari – ekki bara vegna þess að maður sér íþróttina, kannski síst hennar vegna, og meira vegna þess að sjálfur kjarninn verður ljósari, persónurnar og staðurinn lifna við.


Þessi kjarni er svo margir ólíkir hlutir í raun – það er ekki bara á yfirborðinu sem Ulysses er margræð. Ulysses er bók um tilviljanir en hún er líka bók um augnablikið og fortíðina, um einmanaleikann, um tilraunir okkar til þess að rjúfa einmanaleikann – hún er bók um jöðrun fólks, fátækt, Guð, þjóðrembu og þjóðrembu í undirokaðri nýlendu. Það segir sína sögu að „lægsta“ persónan í bókinni hingað til, einfættur betlari, er ekki írskur heldur enskur – og syngur stöðugt „For England / Home and Beauty“ – þótt hinir undirokuðu séu Írar, eru Írar líka máttarstólpar þjóðrembunnar og kaþólskunnar, og þeir kúga líka hver annan. Samt er þetta í og með bók um nýlendustefnu Englendinga. Og svo er þetta bók um fjölskyldur, framhjáhald og fyllerí, búksorgir og basl, hæversku og grobb, söng og gleði og þunglyndi – og bók um bókmenntir, ekki bara Hómer og ekki bara Shakespeare, þótt þeir fari setji báðir mikið mark á bókina, heldur alla epík (hugsanlega er Ulysses síðasta raunverulega epíkin, síðasti alvöru bautasteinninn), biblíuna og aðrar trúartexta, alþýðuljóð og auglýsingatexta, írsku bókmenntaendurreisnina, erótískar sjoppubókmenntir, fræðirit og slúðursögur.


Eitt af því stórkostlega við að lesa hana (í dag) er síðan að skilja og finna fyrir því að maður er að lesa hana í samtali við 100 ár af lestri annarra, þetta er kollektíft verk og því er ekki einu sinni lokið – sjálfsagt er hægt að lesa hana „kalt“ og án þess að fletta upp neinu, giska bara á vísanir eftir bestu getu og njóta póesíunnar, en það væri að mínu (byrjenda) mati misskilningur á verkefninu, misskilningur á þeirri lestrarupplifun sem bókin býður upp á. Enda lagði Joyce upp með að hún væri full af leyndardómum – gott ef hann sagði ekki eitthvað á þá leið að nú ættu bókmenntafræðingar næstu alda að hafa nóg um að hugsa – og þótt hann hafi neitað alveg í fyrstu að gefa mikið af lyklum þá liðu ekki mörg ár þar til hann var farinn að hjálpa lesendum sínum heilmikið.


Í öllu falli finnst mér sjálfum uppljómandi og upplífgandi að lesa hana samhliða grúski um hana og sé fyrir mér að í þessu megi lúðast mörg misseri í viðbót án þess að manni fari að leiðast – af því bæði má lesa bókina sjálfa ítrekað (held ég mér sé óhætt að fullyrða) og svo er til svo mikið af bókum um hana og útfærslur á henni og svo auðvitað ævisögur Joyce. Planið er svo að fara til Dyflinnar á næsta ári.


En manni liggur ekkert á. Raunar held ég að það sé lykilatriði í þessari tilteknu lestrarnautn að vera ekki að drífa sig.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page