top of page

Afstöðuleysi allegoríunnar

Áminning eftir Hans Thoma

Sumarið í lífi mínu er alltaf kaos. Fjölskylduferðalag til Svíþjóðar og Finnlands. Það þarf að mála veggi á húsinu og bera á pallinn og sinna fleiri smáborgaralegum fastaeignaskyldum. Og svo eru bara allir alltaf heima og pallurinn á Heimabyggð – sem er rétt við skrifstofugluggann minn – fullur af háværu, blaðskellandi fólki í sumarfríi. Ég er með hugmynd að bók í hausnum sem þarf helst að vera orðin – ja, ég segi ekki fokheld, það væri smáborgaraleg fasteignamyndlíking, en að minnsta kosti þannig að ég hati hana ekki ef ég lít af henni í nokkra daga. Þannig er það oft með hugmyndir sem ekki er búið að vinna svolítið í. Það gleymist nefnilega að nær allar frábærar hugmyndir – allar þessar hugmyndir sem heltaka mann og halda fyrir manni vöku – voru alls ekki frábærar þegar maður fékk þær og hélt þær væru frábærar. Það sem gerði þær frábærar var bara þessi rakalausa trú á þær og að maður skyldi ekki gefa þær upp á bátinn heldur halda áfram að hamra, saga, mál ... nei ég meina, næra og klæða, eða uh „ganga með í maganum“, leiða í gegnum þrengingar, vaða með yfir ófæra svelgi, bera á höndum sér einsog barnunga keisarynju, í reifum, reka á undan sér einsog óstýrilátt fé, móta einsog sykurdrukkin grunnskólabörn ... þar til þær „stóðu á eigin fótum“.


Og ég sem sagt missti fjóra daga úr vegna ... ég hef ekki beinlínis verið með flensu. Sennilega er réttast að kalla þetta aumingjaskap. Ég hef verið í mesta lagi hálfslappur. En ég hélt tvær afmælisveislur fyrir Aino á helginni og orkan dugði eiginlega ekki í neitt annað. Í gær vaknaði ég svo með verk í hálsinum einsog ég hefði verið skorinn milli eyrna og ákvað strax að fara ekkert á skrifstofuna en var svo orðinn bærilegur fyrir hádegi. Án þess að það yrði til þess að ég dröslaðist út. Dagurinn nýttist í alls konar vinnutengt en ég vann ekkert í bókinni – sem er á ónettengdri 100 ára gamalli iMac á skrifstofunni ásamt öllum glósunum mínum.


Svona er bóhemlífið. Maður er ryðgaður fram eftir degi og heldur svo veislur á kvöldin.


Nú er ég kominn aftur á skrifstofuna og stari á glósurnar mínar. Ég er að reyna að vanda mig við glósurnar. Að setja ekki of mikið á blað sem er vitleysa. Að binda ekki trúss mitt við hugmyndir sem ég veit – og vita sjálfar – að ég ætla ekki að halda trúnað við.


***


Í gærkvöldi horfði ég á American Fiction. Hún fjallar um Monk, bandarískan rithöfund og bókmenntakennara (var þetta ritlist eða bókmenntafræði?) sem á í fremur erfiðu sambandi við hvíta líberalsamfélagið í kringum hann, sektarkennd þess og patróníserandi áhuga. Þetta birtist manni fyrst þegar ungur hvítur nemandi mótmælir því að hann hafi skrifað N-orðið á töfluna – hann er að kenna smásöguna „The Artificial Nigger“ eftir Flannery O'Connor. Hann ver notkunina og er sendur í „frí“. Svo sjáum við hann reyna að selja skáldsögu sína, sem byggir á Persunum eftir Æskylos, en fá það svar frá útgefendum að bókin sé einfaldlega ekki „nógu svört“ – hafi ekkert að segja um „hina svörtu upplifun“. Á sama tíma verður hann var við velgengni ungrar svartrar konu, Sintöru Golden, sem hefur nýverið gefið út bókina We's lives in da ghetto – Sintara er háskólagengin forréttindakona og „virðulega“ máli farin en skrifar á þykku ebonics-máli, sögur um einstæðar svartar gettómæður og gangsterana sem þær elska. Þetta verður til þess að Monk ákveður að reyna fyrir sér með svipuðum hætti – undir dulnefni þó – og skrifar My Pafology (sem er síðar endurnefnd Fuck) og nær fyrirsjáanlegum vinsældum.


Þetta var ágæt mynd. Hún fór kannski heldur grunnt í flesta karaktera sína og var hugsanlega sterkust þegar hún var ekki að reyna að vera allegoría – sagan af systkinunum og af ástarmálaþreifingum Monks var miklu sterkari en allegorían, sem markeraðist af því að slá stöðugt úr og í, af ótta við eiginlega afstöðu. Og persónurnar í fjölskyldunni voru raunverulegri á meðan persónurnar í bókmenntaheiminum voru meira einsog Southpark persónur – sem getur verið alltílagi, en misræmið gekk ekki upp.


En hver er allegorían? Hvað tengir óvertúrinn – kennslustundina – við meginbálkinn? Átök manns við væntingar annarra til sín og/eða eitraða/mótsagnakennda afstöðu þeirra? Hvítir vilja banna svarta manninum að skrifa N-orðið á töfluna – haft eftir hvítri konu sem skrifaði fyrir 80 árum – en þeir vilja að hann skrifi sjálfur í eigin nafni skáldsögur fullar af N-, F- og MF-orðum.


Monk er síðan auðvitað ekki bara svartur rithöfundur – hann er líka miðaldra, jafnvel á jaðri þess að vera gamall. Hann er fulltrúi gamalla bókmennta, skrifar uppúr Æskylosi, eitthvað sem við fáum aldrei að sjá eða upplifa – í myndinni er af og til vitnað í Fuck og We's lives in da ghetto, þeim til háðungar, en það eru aldrei nein dæmi, svo ég muni, um góðar bókmenntir, hvorki tilvitnanir né neimdropp til þess að gefa okkur vísbendingar um það hvers konar „gæðabókmenntir“ Monk skrifar/fílar (ef frá er talin Alcools eftir Appollinaire sem er alltaf á borði agentsins – og auðvitað Persarnir eftir Æskylos). Í einhverjum skilningi þarf gremja hans gagnvart „nýju bókmenntunum“ alls ekki að vera tengd kynþáttamálum og gæti staðið alveg án þeirra – Kerouac mætti sams konar gremju eldri fauska, allt nýtt og villt gerir það, í öllum listgreinum; einhverjir muna kannski eftir gamalli ritdeilu á Kistan.is um „bloggmenntir“ eftir útgáfu skáldsögunnar Vaknað í Brussel eftir Elísabetu Ólafsdóttur (sem þá var þekktur bloggari, Beta Blogg a.k.a. Beta Rokk), gott ef þar tókust ekki á Ágúst Borgþór, fyrir ákæruvaldið, og Kristján B. Jónasson varði (hann var ritstjóri Elísabetar).


Ég hugsaði líka oft til tveggja annarra dæma – þótt ég viti ekki alveg hvernig þeim var tekið, hvort þau fengu þessa tegund af krítík, en ég held þau hafi fengið þessa tegund af hyllingu. Annars vegar eru það bækur JT Leroy – utangarðsbækur sem áttu að vera hálf-sjálfsævisögulegar en reyndust skrifaðar af einhverri saklausri úthverfakonu – og hins vegar Ett öga rött eftir Jonas Hassen Khemiri sem er skrifuð á úthverfasænsku, en kynnt af rithöfundi sem talar sjálfur (a.m.k. á sviði og í viðtölum) „virðulegri“ sænsku.


Monk og Sintara eiga það síðan sameiginlegt að vera bæði að „þykjast“ í einhverjum skilningi – en ekki þó alveg á sama hátt. Monk býr til karakter, Stagg R. Leigh, sem á að vera til og sem hann leikur af og til. Hann segir reyndar að Fuck sé ekki sjálfsævisöguleg heldur einhvers konar saga allra svartra bandaríkjamanna – lýsing á raunsönnum aðstæðum. Sintara gefur ekki heldur í skyn að bækur hennar séu sjálfsævisögulegar, eða að hún sé gettóbarn, heldur segist hún stunda rannsóknir og vitnar jafnvel orðrétt í fólk til þess að auka á ektleika skrifa sinna (eitt gott töts er þegar hún situr og les White Negroes eftir Lauren Michele Jackson, sem fjallar um menningarnám á svörtum kúltúr og hvernig hvítir græði ævinlega á því – sem vekur óhjákvæmilega upp tvær spurningar: a) ætlum við að fara að finna að því nú þegar svartir eru farnir að hafa sína eigin menningu að féþúfu, jafnvel þó það sé klisjukennt og b) er húðlitur næg réttlæting á menningarnámi efri-millistéttarinnar á kúltúr fátækra utangarðsmanna?).


Allegorían í American Fiction spyr margra áleitinna spurninga og forðast afstöðu – það eru meira að segja bærilega framkvæmdir meta-fimleikar með þrem- fjórum snúningum í restina til þess að koma í veg fyrir að sagan verði nokkurn tíma sú fullyrðing sem formið kallar á. Og það er í sjálfu sér skemmtilegt. Ég veit ekki hvort mér finnst spurningarnar samt nægilega þungar til þess að verðskulda þessi undanbrögð. (Drasl er drasl; klisjur eru klisjur; viðkvæmni fólks er löngu komin úr böndunum og „N-orðið“ er bara önnur stafsetning á sama orði; það þarf ekki að fara all-in pc gone mad til þess að leyfa sér smá fullyrðingagleði).


Og ég velti því líka fyrir mér hvar og hvort „allegorían“ sem frásagnarmáti skilji sig frá „skáldsögunni“ – er hægt að segja góða allegoríu sem hefur loðinn boðskap? Ég tek gjarnan undir með fullyrðingum af því tagi að skáldsögur eigi að spyrja spurninga en ekki svara þeim – þegar rætt er um að bókmenntir geti verið hættulegar, þá er það einmitt þessi skortur á fylgispekt sem veldur, hæfileiki skáldskapsins til þess að sá efa í brjóst hinna vissu – en ég er í augnablikinu ekki viss um að styrkur allegoríunnar liggi þar. Hefði Dýrabær verið betri ef það hefði verið opið fyrir það að Napóleon væri að gera sitt besta og þegar nánar væri að gáð þá hefði meðalaldur í raun hækkað mjög við valdatöku hans og dýrin fengið ókeypis lestrarkennslu og tannlækningar, sem hefði sannarlega ekki verið í boði hjá bóndanum, fyrirrennara hans? Væru Black Mirror þættirnir betri ef við fengjum líka að sjá allt hið góða sem tæknin hefur gert fyrir okkur? Myndum við skilja píslarsöguna betur ef okkur þætti Jesús kannski pínulítið hafa átt þetta skilið?


En auðvitað er American Fiction að reyna að fara bil beggja. Að stilla upp sterkri allegoríu en neita því á sama tíma að vera allegoría – annars vegar með afstöðuleysi gagnvart eigin spurningum og hins vegar með tveimur settum af karakterum og sögusviðum, einu sem er raunsæislegt og þar sem persónurnar eru marglaga fólk að díla við hversdagslegar harmsögur, og öðru sem er ýkt og þar sem persónurnar eru staðgenglar fyrir hóp af fólki, steríótýpur (líberal kvenhöfundurinn sem vill réttlæti; íhaldssami karlhöfundurinn sem vill „guts“; kvikmyndaframleiðandinn sem vill bara græða; sleikjulegu forleggjararnir sem vilja þjónka við metsöluhöfundinn; leiðu en samúðarfullu forleggjarnir sem neyðast til að valda vonbrigðum; verðlaunastjórnin sem neyðist til þess að auka á fjölbreytileika og inngildingu).


Kannski er áhugavert að staldra aðeins við karakter Sintöru sem við sjáum fyrst einmitt sem erkidæmi um allt sem er að bókmenntunum – hún skrifar steríótýpískt drasl en nýtur gríðarlegra vinsælda – en fær svo einhvers konar væga uppreisn æru eftir því sem líður á myndina, í því að hún virðist líka telja að skáldsagan Fuck sé einfeldningslegt drasl sem afskræmi líf svartra bandaríkjamanna. Og hún fær að virka sem „eðlileg“ manneskja innanum hina rithöfundana – sem eru ýktir. Þegar þau Monk takast aðeins á um fagurfræði í einni senunni er niðurstaðan „raunsæisleg“ – þau lenda ekki á neinum punkti, en tengjast samt, og okkur er leyft að halda að hugsanlega hafi Monk einfaldlega dæmt bókina (sem hann hefur ekki lesið) of hart. En það er líka opið fyrir að Sintara sé einfaldlega vel gefin og hefði getað skrifað miklu betri bók en valið að skrifa þá sem hún græddi mesta peninga á – og að sálarheill sjálfrar sín vegna velji hún að bæla það sem hún veit, að We's lives in da ghetto sé drasl, en sú bæling brjótist svo jafnvel út sem harðari fordæming á verkum sem minna hana á We's lives in da ghetto, einsog Fuck hlýtur að gera.


Það er spurning hvort það hefði mátt bjarga þessu einfaldlega með því að láta Monk sjálfan vera meira afgerandi – meira líkan sjálfum sér í fyrstu senunni. Hann verður bæði bljúgari og átakafælnari eftir því sem á líður, meira einsog hann stefni í kulnun en brjálæðiskast (tímanna tákn). En þá hefði höfundurinn lent í þeirri gryfju að áhorfendur, einsog lesendur, kenna gjarnan núorðið höfundinum um söguhetjur sínar, ef það er ekki hafið yfir allan vafa að þær séu málpípur þeirra. En þá verður líka eftirbragðið ófullnægjandi, þegar afstaðan er loðin, vegna þess að maður fær það á tilfinninguna að höfundurinn vilji segja eitthvað mjög tiltekið en hafi annað hvort ekki klárað að hugsa það til enda eða þori ekki að segja það.


Kannski hefðu þetta líka bara mátt vera tvær myndir. Eitt svona Six Feet Under fjölskyldudrama og önnur svona Dýrabær. Ekki þar fyrir – þetta var ágæt mynd.

1 comment
natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page