30. desember: Menningarneyslan

Ég sá Star Wars. Flest sem sagt hefur verið um hana er einfaldlega rétt. Söguþráðurinn er einsog ábreiða af gömlu myndunum en hún er samt skemmtileg.

Ég las Ferdydurke eftir Gombrowicz. Hún var einsog Keystone Cops á spítti. Meðmælist en krefst ákveðinnar þolinmæði. Best skrifaði aulahúmor 20. aldarinnar.

Ég sá Hrúta. Það hefur verið sagt að íslenskar bíómyndir fjalli allar um skrítna karla úti á landi í tilvistarkreppu og einhverjir hafa heimfært það upp á Hrúta. Nema bræðurnir eru ekkert skrítnir og þeir eru eina fólkið sem ég hef séð lengi sem er alls ekki í neinni tilvistarkreppu. Þeir vita nákvæmlega hvað þeir vilja vera og hvernig þeir eiga að vera það, og gefa ekki þumlung eftir þótt lífið ráðist á þá af öllu afli. Og það er voðalega lítið um landbyggðarvorkunnina sem annars er svo algeng í bíóheiminum. „Meistarastykki um sigur mannsandans“ – segir maður ekki svoleiðis þegar vinur manns gerir mynd? Fimm stjörnur – eða sex danskar.

Ég hlustaði á Don Giovanni. Af því það var á Spotify er ég ekki viss hver söng eða spilaði eða stjórnaði eða hvað það heitir allt saman. Ég veit ekkert um óperutónlist. Sem er ástæðan fyrir því að ég fékk gjafakort í óperuna í jólagjöf. Eða í Hörpu, réttara sagt. Þar sem Don Giovanni verður settur upp í vor. Þetta er mjög langt og ég óttast að fylgja ekki söguþræðinum og þarf líklega að hlusta betur áður en ég mætti uppstrílaður í tónlistarhúsið. Ég óttast líka að það vanti í mig borgaralegt sensíbílitet, ég er óttalegur rusti stundum.

Ég gerði rækjukokteil og eyddi hátt í klukkustund bara í að smakka til sósuna. Í henni var heimalagað majones, tómatsósa, tabascosósa, sérrí, cayennepipar, sítrónusafi og worcestershiresósa. Á endanum varð hún himnesk. Meistarastykki um sigur mannsandans.

Ég þýddi leikrit eftir Jonas Hassen Khemiri. Eða, ég þýddi leikritið fyrir löngu en leikritið var sviðsett – ég sá það ekki enda var það ekki sviðsett á Ísafirði. Þegar ég skilaði þýðingunni var titillinn [≈um það bil jafn mikið og] en það þótti einhverjum í leikhúsinu alltof langt og klunnalegt svo það var stytt niður í [≈um það bil] – í minni óþökk. Í dag birtist svo gagnrýni þar sem ég var skammaður fyrir að stytta titilinn. Svona er lífið ósanngjarnt.

Ég hlustaði á nýja plötu Leons Bridges. Þetta er fínt soul, snerti mig fyrst, en eftir nokkrar hlustanir varð hún svolítið þunn. Af því að nú er rímlaus netöld man ég ekki hvað platan heitir. Líklega sá ég titilinn bara á lítilli s.k. thumbnail mynd og það var sjálfsagt búið að stytta hann.

Ég horfði á fyrstu tvo þættina í fyrstu seríu X-Files. Stíllinn er fríkaður. Illa leikið, illa skrifað, og allt er þetta mjög ósannfærandi. En það er næstum því einsog þættirnir hafi verið skrifaðir með það fyrir augum að verða költ. Og erfitt að njóta þeirra ekki, krefst hreinlega átaks.

Ég horfði á fyrstu tvo þættina í nýrri (annarri) seríu af Fargo. Ógæfa ofan í ólukkans óheppni. Það er merkilegt hvað maður endist til þess að njóta ófara annarra.

Ég hengdi stórt plakat af þessari mynd Louise Bourgoise á stofuvegginn hjá mér. Moderna Museet prentaði og Dagný Þrastar rammaði inn. Fimm stjörnur, sex danskar, meistarastykki um sigur mannsandans.


0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png