top of page

21. mars

Það er alveg sama hversu oft dagar, það dagar alltaf aftur. Þetta er alveg bjargfast, ég hef trú á þessu, þetta hefur ekki brugðist mér hingað til.

Í dag er 21. mars, dagur ljóðsins og afmælisdagur eiginkonu minnar sem situr í þessum orðum töluðum í flugvél á leiðinni til Frakklands, þar sem hún ætlar að sinna erindum næstu tvær vikurnar. Á Ísafirði er dóttir okkar lasin – eða hún er að vísu hitalaus, en segist vera með hausverk og fær því að vera heima einn dag til. En á morgun er það engin miskunn. Þá er það bara leikskóli og ballett og ekkert kjaftæði.

Það er auðvitað ekkert meira viðeigandi fyrir mig en að vera giftur konu sem á afmæli á degi ljóðsins. Og heitir þess utan sama nafni og frægasta bók André Breton – Nadja. Hún er 39 ára í dag og þar með jafn gömul og Nadja Bretons varð nokkurn tíma, sé ég nú með gúgli og ekki laust við að mér finnist í senn morbid að uppgötva það – en ekki síður að nefna það hér. Hvað er maður að tala um dauðann á afmælisdögum? Og aðrar konur á afmælisdegi konunnar sinnar?

Héðan úr Sjökvist sendum við henni ástkærar afmæliskveðjur – sungum raunar fyrir hana í gærkvöldi, tókum upp á myndband og ég vaknaði í morgun fyrir allar aldir og sendi henni það í símanum.

 

Á morgun mæta til mín smiðir og rífa niður eldhúsvegg í leit að myglu. Þá verð ég eldhúslaus í einhvern tíma – sennilega upp undir tvær vikur að minnsta kosti. Til þess að mæta eldhúsleysinu hef ég fest kaup á hrísgrjónapotti sem er á leiðinni til mín frá höfuðborginni. Hrísgrjónapotturinn mun, ásamt hraðsuðukatli og George Foreman Lean Mean Fat-Reducing Grilling Machine – og hugsanlega örbylgjuofni, sem er hér úti í bílskúr – taka á sig hitann og þungann af eldhússtörfunum. Sennilega mun ég sakna uppþvottavélarinnar mest – og vasksins.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page