Upp, upp!

Heilinn á mér er alls staðar í einu þessa dagana. Páskarnir tóku á. Plokkfiskveislan var átök. Ég er næstum því orðinn lasinn – Nadja náði að leggjast á undan mér en ég stefni að því að verða veikur strax og hún er orðin skárri.

Og ég hef ekkert verið að svíkjast um með lestrardagbókina. Ég hef bara ekki verið að lesa neitt – nema ég hef gluggað aðeins í bók um matreiðslumanifestó fútúrista – sem inniheldur bæði sjálft manifestóið og ýmis skrif því tengd (mikið til snýst það um stóran debatt um það hvort það sé framtíðarmanninum sæmandi að éta pasta – Marinetti sagði það af og frá, lýsingarnar eru eiginlega einsog hann hljóti að hafa verið með heiftarlegt glútenóþol).

Ég fór á bókamessuna í Leipzig og hékk síðan með Hauki og Bryndísi í Berlín – flaug heim og lenti í Keflavík á miðnætti daginn fyrir afmælisdag Nödju. Planið hafði verið að taka fyrri vélina morguninn eftir en vegna ófærðar höfðum við keyrt suður og bíllinn því í Reykjavík. Ég tók á honum stóra mínum og keyrði bara vestur um nóttina, mætti klukkan sjö og vakti hana með afmælissöngnum.

Síðan tók við undirbúningur fyrir Plokkfiskveisluna – varð mér úti um stuðning frá Forlaginu, AFÉS, Sjávarfangi, Gamla bakaríinu og Örnumjólk. Magga frænka og fjölskylda mættu á Skíðaviku, Aldrei fór ég suður og fjölskylduhangs. Þá var það Rokkfundur alþýðunnar (og erindið mitt). Síðan kom veislan. Daginn eftir það var boðhlaup milli kaffiboða í fjölskyldunni og svo fylltist húsið af rjómanum af íslensku popparaliði sem fékk impromptu ljóða- og uppskriftarupplestur.

Í gær var rólegheitadagur. Pizzadagur. Úti að hangsa á leikvelli dagur. Nadja féll í mók um miðjan dag og hefur varla litið upp síðan. Ég svona hjari. Ég þarf eiginlega að fara að finna mér rólegri en fastari takt í tilveruna. Ekki að ég átti mig á því hvernig það eigi að ganga upp. Í næstu viku fer ég til Normandí og þaðan til Istanbul. Á bókmenntahátíðir. Svo þarf ég líka að finna mér hærri tekjur.

Ég féll líka á einum deddlæn í gær. Ritgerð fyrir sænska ríkisútvarpið sem verður ekki skilað fyrren á morgun. Kei sera.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png