Untitled

Ef maður á ekki afmæli á Facebook þá á maður eiginlega ekki afmæli. Maður getur látist eiga afmæli og það er gott og blessað, en það er samt ekki það sama.

Ég var vakinn með afmælissöng, kaffi, pönnukökum og nýjum kúluhatti. Stetson. Ég er enn að máta mig við hann. Það er yfirleitt dálítið aðlögunarferli. Þetta er þriðji kúluhatturinn í lífi mínu. Þann fyrsta eignaðist ég líklega átján eða nítján ára – fékk hann í jólagjöf frá þáverandi kærustu minni. Og hafði beðið um hann. Þann næsta keypti ég daginn sem ég fékk afhent íslensku bókmenntaverðlaunin, í janúar 2013, og hef gengið með hann daglega síðan. Hann var orðinn vel þreyttur. Þess utan hef ég átt líklega fjóra hatta sem ég hef gengið með að staðaldri og sex-sjö aðra – ýmist meira spari eða bara svona að gamni.

Hvað er að frétta? Ég fór í viðtal við Liberation um fótbolta – og var presenteraður, alveg óvart, sem hálfgerð fótboltabulla. Staðreyndin er hins vegar sú að ég, einsog svo margir aðrir, fylgist aðallega með stórmótunum. Það þýðir ekkert að spyrja mig út í Manchester United, það er varla að ég viti að þeir séu til. En þetta viðtal fór víðar en ég er vanur að orð mín rati – endaði á forsíðu og var tíst skrilljón sinnum. Ég hef oft verið í viðtölum í stórum blöðum og fengið dóma þar en það er dálítið annað að tala um bókmenntir en íþróttir, svona upp á athyglina. Helförin er kannski vinsæl en hún er ekki nærri því jafn vinsæl og fótbolti (note to self: skrifa stóru íslensku fótboltaskáldsöguna).

Ég horfði á leikinn gegn Englendingum í ferjunni frá Stokkhólms til Finnlands. Fyrsta hálftímann á pöbbnum var leikurinn hljóðlaus og karókí í gangi. Gamlir, fullir finnar sungu tangóslagara. Það var mjög spes og mætti eiginlega taka upp víðar. Svo fórum við niður á kaffiteríuna og horfðum í tíu mínútur í viðbót og þá datt útsendingin út – við úti á reginhafi. Ég var að tryllast í svona 20 mínútur, sturtaði í mig bjór, og svo datt útsendingin aftur inn á 70. mínútu. Það var mikið fagnað í bátnum þegar leikurinn vannst.

Í dag er það svo tívolí og nepalskur matur. Leikurinn á sunnudag verður líklega tekinn á bar með Íslendingum í Helsinki.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png