Untitled

Suma daga er auðveldara að stara út í loftið en að hugsa. Mér líður einsog ég sé með harðsperrur í heilanum – eða marbletti.

En jæja.

Ég er kominn til Svíþjóðar frá Tyrklandi og Grikklandi – helmingi feitari en áður og helmingi maríneraðri. Rosalegir staðir, Grikkland og Tyrkland, eða a.m.k. það sem ég hef séð af þeim.

Ég hef eitthvað verið að væflast með hugsanir um félagslegan tilbúning og afstöðu fólks til hans. Sem sagt, til dæmis þessa með þjóðernið – þjóðerni er augljóslega sköpunarverk frekar en náttúruleg eining og til þessa er oft vísað þegar fólk vill ómerkja tilvist þess. „Þjóðerni er lygi“ er til dæmis svona setning. Aðrar álíka væru „kyn er lygi“ eða „kyngervi er lygi“ og þar fram eftir götunum. Það sem truflar mig í þessum dæmum er vanvirðingin við skáldskapinn sem er fólgin í allri okkar tilvist. Sjálfsmynd okkar er tilbúin – hún er skáldskapur. En það er ekki þar með sagt, sumsé, að hún sé lygi eða ómerk eða röng. Auðvitað getur hún verið allt í senn – en hún þarf ekki að vera það.

Það hvort við séum gagnkynhneigð eða samkynhneigð eða höfum áhuga á fótbolta (sem sumum finnst fáránleg tímasóun) eða ljóðlist (sem sumum finnst fáránleg tímasóun) er allt einhvers konar skáldskapur. Ekkert okkar er fullkominn meistari sinnar tilvistar í þeim skilningi að við getum bara ákveðið sjálfsmynd okkar ein og óstudd – ég get t.d. ekki bara ákveðið einn, tveir og bingó að ég sé Tyrki. Sem þýðir ekki að ég geti ekki orðið Tyrki en til þess þarf þá ákveðinn feril. Ég þarf að sannfæra þá sem tilheyra hópnum – sem og þá sem standa utan hans – um að ég sé Tyrki.

Ég veit ekki hvort að sjálfsákvörðunarréttur manns um eigin sjálfsmynd eigi að vera nokkur mannréttindi. Mér finnst það eiginlega hálf kjánalegt, í aðra röndina, og í hina finnst mér í því fólgin óþægilega mikil einstaklingshyggja. Við erum samfélag, við erum upp á hvert annað komið – við þurfum að þola fordóma hvers annars og díla við þá á einhvern máta sem fleytir okkur áfram. Og við þurfum að bera virðingu fyrir vilja hvers annars – við þurfum að hlusta.

Með þessu er ég ekki að gera lítið úr þeim sem kjósa að sækjast eftir annarri sjálfsmynd en sem þeim hefur verið úthlutað – það er jafn sjálfsagður réttur manns að skipta um kyn*, kynhneigð** eða þjóðerni og að skipta um nafn, fatastíl eða fótboltafélag. En sjálfsmynd er flókið samspil alls kyns merkjasendinga, túlkana og kredda – og að baki hverrar sjálfsmyndar er ekki neitt nema vilji og skáldskapur. Það gerir hana ekki ómerkilegri – eiginlega þvert á móti. Sjálfsmyndin er einmitt heilög vegna þess að hún heyrir ekki undir hinn grjótfasta statíska veruleika, hún er fljótandi og dýnamísk og fögur.

Það er síðan ekki ómerkilegra að sverja sig í einhvern hóp – og þótt mér finnist sjálfum ósmekkleg hugmyndin um hvert og eitt okkar sem aðskilið einstakt snjókorn, þá er það alltílagi líka, fyrir þá sem fíla svoleiðis. En kannski er það einmitt sú sjálfsmynd sem er næst því að vera lygi – aðskilnaðarsjálfsmyndin, einstaklingshyggjan, séníblómið sem afneitar tengslum sínum við plebbíska alþýðu manna.

* Eða leiðrétta kyn sitt eða laga eða árétta eða hvernig sem maður vill skilgreina þá breytingu sem maður undirgengst – ég gef mér að sá ferill sé jafn persónulegur og lendingin. * * Raunar er merkilegt hversu sjaldgæft það er að nokkur skipti um kynhneigð.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png