top of page

Jarðsprengjusvæði


Ég man eftir því að hafa rifist við vini mína í Ungum sósíalistum um alþjóðlegt bann við jarðsprengjum. Þetta var upp úr aldamótum einhvern tíma. Ungir sósíalistar voru gjarnan með frekar kategórísk svör á höndum og í þessu máli tönnluðust þeir á því að jarðsprengjur væru „vopn fátæka mannsins“ og tilgangurinn með banninu – sem var mjög í deiglunni á þessum tíma – væri einfaldlega að afvopna byltingarsinna með því að gera þeim illmögulegt að útvega sér ódýrustu og áhrifamestu vopn sem þeir hefðu völ á. Heimsvaldasinnar hefðu dýrari og fínni græjur í sínu vopnabúri og gætu því leyft sér að vera án jarðsprengja í baráttunni um brauð og frelsi. Þessi kenning náði eins langt og hún náði – og var áreiðanlega kúbönsk að uppruna, enda skilst mér að þar sé það fyrst og fremst rosalegt jarðsprengjubelti sem skilji herstöð bandaríkjamanna í Guantanamo frá sósíalíska alþýðulýðveldinu. En meðal þeirra sem neituðu að skrifa undir sáttmálann á sínum tíma voru – auk kúbana – flest fastaríki öryggisráðs SÞ, ekki vegna þess að þau væru háð því að nota jarðsprengjur, heldur vegna þess að þau höfðu hagsmuni af því að mega selja þær.


Mér fannst þetta ekki beinlínis órökrétt – en mér fannst samt hitt líka rétt að jarðsprengjur færu hryllilega með saklaust fólk og gerðu það jafnvel áratugum saman eftir að stríðsátökum lauk. Og að það væri í sjálfu sér óásættanlegt. Þetta sá ég svo berlega síðar þegar ég bjó í Víetnam – þar er fólk nefnilega enn að stíga á sprengjur og tapa útlimum. Slíkum efasemdum var svarað með því að tilgangurinn helgaði meðalið – að byltingin væri ekkert teboð, einsog það var einhvern tíma kallað.


Nema hvað. Mér varð hugsað til þessara röksemda um vopn fátæka mannsins þegar ég las nokkrar álitsgreinar í morgun um ástandið í Ísrael og Gaza. Þær áttu það flestar sameiginlegt að harma það ástand sem palestínumenn hafa mátt þola síðustu áratugina – því var jafnvel lýst sem hræðilegu, óásættanlegu og svo framvegis – en svo var einhverju bætt við um að stríðsmenn Hamas væru verri, hefðu með gjörðum sínum jafnvel „glatað mennskunni“, hugsanlega ætti að tala um þá sem „dýr“. Og ég verð að viðurkenna að ég byrja svolítið að svitna þegar fer að skína í viljann til þess að skilgreina mannfólk sem eitthvað annað en mennskt.


Höfum samt hitt á hreinu. Aðgerðirnar síðasta laugardag eru eins hrottalegar og stríðsglæpir verða. Hamasliðar hafa skotið jafnt börn, sjúka og gamalmenni og reynt að valda Ísraelsmönnum – ekki bara hermönnum, ekki bara stuðningsmönnum Netanjahú, heldur bara hverjum sem er – eins miklum skaða og þeim var frekast unnt, og með þeim hætti að slái sem mestri ógn í hjarta þeirra sem voðaverkin beinast gegn. Með öllum tiltækum ráðum. Það er ekki kærleiksríkt – en það er því miður mennskt.


Mótsögnin – sem er víst best að horfast í augu við þótt hún sé ógeðfelld – er síðan þessi: voðaverkin voru kannski eina verkfærið sem Hamasliðum stóð til boða til að reyna að hreyfa við óþolandi ástandinu – fátækum, menntlausum, einangruðum og án nokkurs annars pólitísks atbeinis en ofbeldis. Heimsbyggðin hefur fullkomlega brugðist þeim – ekki bara ár og ár, heldur í margar kynslóðir – og fylgst með af tiltölulega kaldranalegu hlutleysi þegar þeirra eigin saklausu börn og gamalmenni hafa verið skotin, sprengd, fangelsuð, pyntuð og svelt. Við sem stöndum utan deilunnar höfum löngu sætt okkur við að svona sé þetta bara. En höfum líka á hreinu að í þessari deilu – átökum, stríði, hvað maður vill kalla það – er bara annar aðilinn með töglin og hagldirnar, bara annar aðilinn getur beitt fyrir sig „siðmenntuðum“ stríðstólum, bara annar aðilinn getur stuðlað að nauðsynlegum umbótum. Hinn aðilinn býr í fangabúðum, er alinn þar upp og gerir áreiðanlega ráð fyrir að drepast þar, annað hvort sem fórnarlamb eða píslarvottur.


Svo er hitt auðvitað jafn ljóst að þessar breytingar sem knýja á fram með ofbeldi geta orðið hverjar sem er, og langlíklegast að þær komi Gazabúum alls ekki til góða. Ísraelsk yfirvöld eru ekki beinlínis þekkt fyrir linkind. Kannski verður niðurstaðan bara sú að Gaza verði þurrkað út – Netanjahú hefur lofað að þurrka út Hamas, og ég er ekki viss um að honum sé treystandi til þess að gera mikinn greinarmun á saklausum og sekum, frekar en Hamasliðum. Kannski veðja Hamasliðar einfaldlega á að Netanjahú gangi nógu langt til þess að alþjóðasamfélagið verði nauðbeygt til þess að grípa fram fyrir hendurnar á honum (og að það sé hægt). Og kannski eru þeir löngu búnir að gefa upp alla von um einhvern „sigur“ – kannski ætla þeir bara að valda jafn miklum skaða og þeir geta, falla í dýrðarljóma og fá verðlaun í paradís.


Ég horfði annars á viðtal í morgun við Isaac Asimov. Það var tekið eftir að fyrstu tvær Star Wars myndirnar voru komnar í bíó, en fyrir þá þriðju – það er að segja einhvern tíma í upphafi níunda áratugarins. Þar var Asimov beðinn um að spá fyrir um framtíðina í ýmsum efnum og reyndist merkilega sannspár – talaði um ljósleiðara og genatækni og að við myndum öll geta rekið okkar eigin sjónvarpsstöð – nema að hann var líka spurður um framtíð stríðsrekstrar og sagðist þá halda að eftir 30 ár (þ.e. fyrir 10 árum) myndum við sennilega hafa lagt niður allt slíkt. Að öðrum kosti værum við áreiðanlega búin að gera út af við mannkyn með öllu. Og þá veit maður ekki hvort maður eigi að líta á það sem klúður að hafa ekki tekist að leggja niður vopnaskak – eða hvort það sé þvert á móti varnarsigur að hafa ekki tortímt öllu lífi á plánetunni.



natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page