top of page
IMG_4795.jpg

Um EÖN

Eiríkur Örn Norðdahl er rithöfundur, þýðandi og ljóðskáld.

Hann hefur gefið út átta skáldsögur, nú síðast Einlægur Önd – ævisaga . Fyrir skáldsöguna Illsku hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin, Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, frönsku Transfuge-verðlaunin (sem hann hlaut aftur fyrir Heimsku) og var bókin auk þess tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, Medici-verðlaunanna og Prix Meilleur Livre Étranger. Eiríkur hefur einnig gefið út sjö eða átta ljóðabækur, ritstýrt tveimur bókum um ljóðlist, gefið út safn ritgerða um ljóðlist á ensku og skrifað stutta bók um bókaþjófnað og höfundarrétt. Þess utan hefur hann þýtt fjölda bóka, þar á meðal valin ljóð eftir Allen Ginsberg, safn erlendra framúrstefnuljóða og skáldsöguna Móðurlaus Brooklyn eftir Jonathan Lethem, en fyrir þá síðastnefndu hlaut hann íslensku þýðingarverðlaunin 2008. Nýjasta þýðing hans er Hvítsvíta eftir Athenu Farrokhzad, sem kom út árið 2017 hjá Máli og menningu.

Eiríkur hefur verið staðarskáld í Vatnasafninu á Stykkishólmi, í boði Stykkishólmsbæjar og listasjóðsins Art Angel, sem og í Villa Martinson í Jonsered í Svíþjóð (2015) og í AIR Krems í Austurríki (2018). Árið 2010 hlaut Eiríkur viðurkenningu úr Fjölíssjóði. Eiríkur var Bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2014-2015. Hann hefur hlotið aukaverðlaun Ljóðstafs Jóns úr Vör, sérstaka viðurkenningu á kvikljóðahátíðinni Zebra Poetry Film Festival í Berlín, Sparibollann fyrir fegurstu ástarjátninguna og Rauðu fjöðrina, erótísk stílverðlaun lestrarfélagsins Krumma.