top of page

Þvenglaus á stönginni


Myndljóð eftir mig sem nýlega var sett upp á það sem mér sýnist vera ryðgaðasta strætóskýli Reykjavíkurborgar. Mynd: insta borgarbókasafnsins.

Vorið kom og vorið fór og nú er haust og á morgun skilst mér að verði vetur. Þetta var stutt gaman. Eftir tvær vikur fer ég til Finnlands í viku – svo kem ég aftur og sest að í rithöfundaresidensíunni á Tangagötu, þar sem ég dvelst einn við skriftir í júní, meðan fjölskyldan þvælist um sænsk héruð. Ég fer svo út og þvælist með þeim eitthvað í júlí. Meðal annars til Berlínar með Aino – hún fékk þá ferð í afmælisgjöf – og á Iron Maiden tónleika í Gautaborg með Aram, sem fékk þá miða einmitt líka í afmælisgjöf. En þá var unglingurinn bara ungbarn, eiginlega, þetta var fyrir covid.


Ég treysti því að í útlöndum verði sumar. Og sennilega sólardagar inn á milli hérna. En það munaði litlu að ég færi að kasta hlutum í sjónvarpið í gær þar sem ég sat yfir veðurfréttunum.


Hvað sem öðru líður er ég reyndar glaður að fá að vera mikið heima í sumar. Og kemst vonandi á góðan rekspöl í nýju bókinni, sem mér finnst reyndar alveg handónýt í dag, og er farinn að renna mjög hýru auga til gamals handrits sem ég henti fyrir átta árum síðan – það er mjög skemmtileg bók og nánast tilbúin til útgáfu, einsog mér fannst hún leiðinleg 2014. Kannski svolítið sérviskuleg en mér hefur nú aldrei verið láð það mikið að vera sérvitur. Eða ekki nærri jafn mikið og ég á skilið.


Annars er ég með barnabók fyrir jólin. Jólahryllingsbarnabók. Og á þrjár-fjórar ljóðabækur hérna á lager og ljóðaþýðingabókina sem bara bíður og bíður. Fyrir utan þessar tvær skáldsögur. Svo var ég hugsanlega að lofa mér í eitthvað bíóhandritsgrín og að minnsta kosti tvö myndlistargrín. Samt get ég svarið það að mér finnst ég eiginlega aldrei gera neitt. Nema að elda mat og sofa út. Og kannski lesa og horfa á Netflix og spila tónlist (ég er búinn að vera með heiftarlega bassadellu síðustu mánuði, sem sér ekki fyrir endann á).


Í síðustu viku keypti ég loks nýju ljóðabókina hans Sjóns. Hún er eiginlega alveg frábær. Sérstaklega sitja í mér eitt ljóð um Number of the beast og annað um að dreyma reglulega að maður sé að taka í höndina á fólki á covid-tímum.


Las líka Bjarmalönd eftir Val Gunnars – sem er í senn gríðarlega fróðleg og full af svolítið lúðalegum sjarma. Hann skiptist á því að fræða mann um ástandið á helstu áhrifasvæðum rússa og segja manni frá klúðurslegum tinderdeitum sínum.


Og margt margt fleira. Er núna í miðri Ungar sorgir eftir Danilo Kis, sem hefur nú áreiðanlega heillað aðra meira en mig – kaflarnir eru afar missterkir, finnst mér, allir fallegir og ljóðrænir og barnslega einlægir en þetta er samt eitthvað meh. Líkt svo mörgu öðru. Þessi töfrandi æska í harmanna heim. Ég veit ekki hvort þetta bara eldist illa eða hvort ég er bara kominn með nóg eða hvað – mér finnst ég alveg svolítið heimsbókmenntalegur að lesa þetta, svona einsog ég fái stig fyrir það, en þetta er samt líka meh.


Því ákafar sem ég les sjálfur þeim mun minna finnst mér allir aðrir lesa. Ég las ekki nema tæplega 60 bækur í fyrra, þeim hafði þá fækkað ár frá ári sennilega bara frá því ég fékk fyrst börn og svo snjallsíma – innblásinn af gömlu kvóti í Árna Bergmann, um að sá sem segðist aldrei hafa tíma til að lesa ætti að prófa að slökkva á sjónvarpinu af og til, ákvað ég að gera eitthvað í þessu. Í stað þess að hætta að sinna börnunum hætti ég að sinna símanum og ef ég held áfram í sama tempói mun ég lesa um 300 bækur í ár. Og núna, á bók 106, er ég að átta mig á því hvað ég þekki mikið af fólki – þar með töldu bókmenntafólki, jafnvel starfandi rithöfundum – sem les ekki nema 1-2 bækur í mánuði. Það er auðvitað leiðinlegast fyrir þann sem finnur aldrei tíma til að lesa meira en svo, en það er líka leiðinlegt fyrir bókmenntasamfélagið – fyrir bókabúðirnar, útgefendurna, bókasöfnin, bókaklúbbana, rithöfundana og allt hitt þar sem gæti verið meira líf. Og styrkir enn frekar þá tilhneigingu „markaðarins“ að allir lesi sömu bókina – eða sömu þrjár. Því ef maður les fáar bækur er maður ekki mikið að sjansa neitt – fer bara í sinn Arnald, sinn Hallgrím, sína hvora Auðina. Forlögin eru reyndar mjög dugleg að peppa upp þá stemningu líka (enda kostar víst minni pening og fyrirhöfn að bæta 300 lesendum við Arnaldarkreðsuna en að bæta 100 lesendum á eitthvert ungskáldið eða 50 lesendum á einhverja fagurbókmenntaþýðingu). Og Storytel er sennilega verst – og annað en venjulegar bókabúðir með alveg hrottalega áberandi agenda. Já og jú oft eru bókabúðirnar að þessu líka – oft svo fljótar að losa sig við „gamlar“ bækur að ári eftir jólabókaflóð eru 8 af hverjum 10 titlum horfnir. Og í öllum tilfellum er þetta óþolandi. Stofnanir bókmenntaheimsins ættu alltaf að ýta undir margbreytileikann með öllum tiltækum ráðum – og segja einsleitni stríð á hendur.


Ég varð einmitt svolítið leiður úti í Svíþjóð um daginn þegar ég sá að Pocketshop var hætt að snúa kjölunum fram í bókabúðum sínum – þar var alltaf rosalega gott úrval, þótt það væru bara skáldsögur og bara í kiljum. Nú snúa kápurnar fram og þar með minnkar hið eiginlega hillupláss um 70%. Akademibokhandeln er svo bara einsog Eymundsson með minni ljóðabókahillu.


Ég ber óttablandna virðingu fyrir bókabúðum þar sem maður sér fáar kápur. Það eru helgidómar og þar vil ég eyða öllum peningunum mínum. Sem betur fer fyrir minn persónulega efnahag eru þær afar fáar – en svona eru bókasöfn og þau eru frábær.


Í Frakklandi fá bókabúðir alls konar sporslur og ívilnanir – en þá þarf líka að uppfylla sérstakar „bókabúðar“ kröfur. Það verður t.d. að vera ákveðið lágmark af titlum (sem er margfalt miðað við íslenskar bókabúðir) og þar má ekki leggja undir nema lítið svæði fyrir aðra hluti en bækur. Þar eru alla jafna ekki stórar ritfangadeildir og alls ekki neitt ferðamannaglingur. Og þar verða líka að vera viðburðir – jafnvel í smæstu bókabúðum Parísar eru reglulegir upplestrar og spjall við höfunda og álíka.


Áður en Geiri á Goldfinger var Geiri á Goldfinger var hann Geiri á Maxim's og þar áður var hann Geiri á Hafnarkránni. Á Hafnarkránni, sem var rónabúlla, var alltaf skilti í glugganum sem auglýsti hvað væru til margar viskítegundir á staðnum. Ég man ekki hvað þær voru margar en ég man að mér fannst eiginlega hálfstjarnfræðilegt að það væru yfir höfuð til svona margar viskítegundir í heiminum. En þetta hefur altso ekki dugað til – allar viskítegundir í heimi breyttu ekki staðnum og þetta endaði auðvitað bara með því að Geiri gerðist stripparadólgur.


Stripparar eru einsog allir vita lundadúkkur djammmenningarinnar. Það er sem sagt samlíkingin sem ég er að koma með hérna. Viskí eru bækur hennar og ég er bótaróninn sem eyðir tekjum sínum í ódýrasta eitrið sem hann fær. Og ef þið farið ekki að drekka mér til samlætis endum við sem sagt öll þvenglaus á stönginni.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page