top of page

Ófleygur


Lífið gengur sinn vanagang og ég veit ekki hvort ég hef frá nokkru að segja. Það er föstudagurinn þrettándi. Fyrir viku var þrettándinn föstudagur. Ég svaf sama og ekkert í nótt – tvo tíma kannski. Þetta er að verða svolítið þreytt. Ég er að verða svolítið þreyttur. En þetta eru ekki beinlínis tíðindi. Á morgun ætlum við meðlimir aðdáendaklúbbs Tyrfings Tyrfingssonar að fara til Reykjavíkur á Sjö ævintýri um skömm. Menningarreisa. Og í kvöld ætlum við sem ekki erum þegar farnir suður að hita upp með Villibráð í Ísafjarðarbíói. Það eru tíðindi.


Mér hefur gengið bærilega að berja saman grein mína um ísfirskar bókmenntir í vikunni. Ég hef stundum haldið því fram (og er ekki mín frumlega hugmynd) að þegar maður skrifi og endurskrifi verði textinn á endanum gáfaðri en maður sjálfur – stærri og fallegri. En ég hef verið að taka eftir því upp á síðkastið að frumdrögin eru oft umtalsvert vitlausari en maður sjálfur. Maður þarf að byrja á því að gefa sér leyfi til að vera vitlaus – og muna svo að láta þar ekki staðar numið. Margir flaska á þessu. Annað eða þriðja uppkast er svo á pari við mann sjálfan og fjórða og fimmta farið fram úr manni. Hver skilur þetta, hugsa ég þá – þetta er alltof gáfulegt fyrir svona götustrák einsog mig. Hver skrifaði þetta eiginlega? Þá óttast ég líka að ég sé farinn að bulla, að skáldskapurinn sé að hlaupa með mig í gönur – stundum gef ég þá í og stundum dreg ég úr, allt eftir því hvernig er stemmdur.


Ég er reyndar líka óvenju vitlaus svona illa sofinn – að ekki sé talað um ómyndarlegur og samanskroppinn. Ófleygur. Það er líka einhver nístandi óþefur af mér sem minnir á aceton og er sennilega svitalykt. Svo er Jeff Beck látinn. Það á ekki af manni að ganga.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page