top of page

Áreitið


Mér finnst nánast sársaukafullt að hugsa til þess að ég hafi eytt allri föstudagsfærslunni í að tala um nagladekk. Ég bið ykkur að fyrirgefa mér. Ég er byrjaður aftur á samfélagsmiðlum og sogaðist inn í eitthvað svona málefnasvarthol.


Mér finnst reyndar alveg jafn ljóst núna þegar ég er byrjaður aftur að „fylgjast með“ og þegar ég hætti að „fylgjast með“ um síðustu áramót að þetta skekki mann einhvern veginn – maður fari skyndilega ómeðvitað að eyða miklum tíma í að hugsa um það sama og flestir aðrir, daginn út og daginn inn. Eða í öllu falli það sama og bergmálsklefinn mann kastar í mann. Ekki endilega bara til að vera sammála, líka til að vera ósammála eða einfaldlega til þess að líða illa yfir. Í grunninn er þetta auðvitað bara að tilheyra samfélagi fólks – en samfélagsmiðlar eru bara svo mannmörg kaffistofa, það verður svo óyfirstíganlegt að vinna úr öllu áreitinu.


Kannski er ég eitthvað óþarflega viðkvæmur en þegar ég skrolla mig í gegnum vanlíðan og fögnuð til skiptis – einn er beittur óréttlæti, annar á afmæli, þriðji vill steypa ríkisstjórninni, fjórði var að fá góðan dóm, fimmti er hugsi, sjötti póstar þorstagildru, sjöundi kokteil og áttundi líki – á mjög háu tempói þá verð ég á endanum hvefsinn. Einsog það sé viðstöðulaus dissonans í höfðinu á mér – tíu útvörp í gangi öll stillt á sitthvora rásina. Helstu áhrifin sem það hefur út á við er eins konar óþol gagnvart öllu ójafnvægi í kringum mig. Og af því veröldin er limbó jafnvægis og ójafnvægis fer mjög mikill hluti af orku minni í gremjustjórnun – sem getur lýst sér í þegjandahætti og mjög óskýrum hugsunum, og jafnvel að ég tali mér þvert um hug af einhverjum orsökum (ekki bara í einhverju devil's advocate dæmi – heldur beinlínis bara að ég finni þörf fyrir að sanna réttmæti einhverrar skoðun sem ég hef ekki eða vil hafa). En lýsir sér kannski helst þannig á netinu að ég skrifa status eða komment og eyði því síðan – skrifa og eyði, skrifa og eyði, skrifa og eyði – af því engar samræður virðast þess virði. Þær virðast flestar bara auka á hávaðann.


Þetta passívítet og þetta óþol fyrir ójafnvægi er líka líklegt til þess að gera úr manni óþarflega mikinn íhaldsmann. Það og þessi hlutverkaskipan auðvitað – internetið er fullt af yrðingum um hvíta miðaldra gagnkynhneigða sís karlmenn og hvað þeim finnst um lífið og á endanum hlýtur maður að taka það bara til sín. Því ekki fer maður að leiðrétta það.


Ég hef samt engan áhuga á að verða íhaldsmaður. Eða að hafa skoðun á nagladekkjum. Bara svo það sé sagt. Í hjarta mér er ég anarkisti á sumardekkjum.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page