top of page

Á bakinu


Í morgun vaknaði ég slappur og hugsaði nei andskotinn, ætlar mér aldrei að batna þessi helvítis flensa – sem ég var búinn að þríprófa við kórónaveirunni. Það var þó örlítil bót í máli, fannst mér, að nú fengi ég loksins að vera einn veikur heima í rólegheitunum – eftir samveikinda- og fjarvinnuviku í síðustu viku – og þyrfti hvorki að sitja yfir símafundum eða fjarspiluðum tölvuleikjum og söngli. Því einsog ég elska nú börnin mín þá fylgir nú börnum samt alltaf vinnuálag. Svo gæti ég kannski bara rölt í Hamraborg í hádeginu, fyrst þetta er ekki covid, og náð mér í mat og þyrfti þá í raun ekki einu sinni að hugsa um sjálfan mig.


Ég tók enn eitt heimaprófið með morgunkaffinu og um leið og ég lét hordropana falla í mæligapið bárust smáskilaboð frá grunnskólanum. Öll börn send heim vegna veðurs (veðrið er enn ekki orðið hræðilegt – en miðað við aflýsingar síðustu vikur fer maður að spyrja sig hvort það fari ekki bara að verða fullreynt að halda úti skólastarfi hérna, og þar með byggð, að vetrarlagi?).


Jæja, ég sting þá af á skrifstofuna hugsa ég – þar er allavega ró og friður – og ég get tekið til eftir þau þegar ég kem heim. Eða reynt að sannfæra þau um gildi þess að taka til eftir sjálfan sig (sem er ekki alltaf jafn erfitt). Og verður mér þá litið á covidprófið sem er loksins orðið jákvætt.


Ég hafði svo sem spáð því að þegar hinni flensunni lyki tæki covid strax við, fyrst það var komið í húsið. En alveg burtséð frá því hvað ég verð lasinn (ég er með hita og hor) þá er þessi andskotans einvera farin að taka á. Ég hitti fólk lítið þarna rétt í kringum Frakklandsferðina, af öryggisástæðum, og fór svo beint inn í þetta – hef t.d. ekki hitt foreldra mína, sem búa í næstu götu, í sennilega meira en mánuð núna.


Og einhvern veginn hefur þetta verið ástandið miklu lengur, þegar maður hugsar út í það. Þessi einvera. Ég hef tönnlast á því síðustu misserin að ég vilji fara að bjóða fólki í mat og hitta einhvern en ef frá er talið útgáfuhóf Einlægs Andar og áramótin hefur varla komið (fullorðinn) vinur inn í þetta hús frá því við komum heim. Jú og það var hérna einn skáldabröns eftir Opna bók í nóvember. Annars er einvera – eða fjölskyldubúbblan – orðin regla.


Það snýst um að einhvern veginn hentar það aldrei. Það kemur alltaf eitthvað uppá. Það er ekki bara manns eigið covid sem getur verið vandamál heldur annarra líka og þess á milli langar mann ekkert nema liggja á bakinu og stara upp í loft.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page