top of page

Vitleysukórónan og veröld blíðunnar



Ég er enn eina ferðina ekki með covid. Sem er miður vegna þess að Nadja er með covid og ég er lasinn, sennilega lasnari en Nadja, þótt ég sé reyndar að koma til. Aram er líka lasinn en hann er ekki heldur með covid. Aino er hress og covidlaus. Ég reikna fastlega með því að strax og ég er búinn að hrista af mér þennan vírus sem ég er með skapist rými fyrir covid-19 vírusinn. Þetta er einsog að láta flengja sig meðan maður bíður þess að vera hýddur.


Ég hef verið að lesa sveitasögur. Alveg óviljandi, reyndar, þær bara duttu svona í fangið á mér. Meðal annars Svaninn eftir Guðberg og Blítt lætur veröldin eftir Hagalín. Hagalín náði meiri tökum á mér – kannski fannst mér Svanurinn bara full „ljóðrænn“ (þótt hann væri nú aldrei neitt nálægt því að vera kalmanskur), sérstaklega beint í kjölfarið á Það rís úr djúpinu eftir sama mann, sem ég las á undan (og greip reyndar vegna þess að ég fann ekki Svaninn þá stundina). Sú bók er kraftmeiri, fannst mér – en veigra mér eiginlega við að segja það vegna þess að ég veit hve margir halda upp á Svaninn.


Blítt lætur veröldin fannst mér eiginlega mögnuð. Hún segir sögu ungs drengs að vestan sem fer í sveit og kynnist þar ungri stúlku – Jonni er barn en Fía eiginlega kona. Hann saknar móður sinnar og byrjar á að sækja í kúna á bænum, Stórhyrnu, og hefur ímugust á Fíu í fyrstu og það líður heillangur tími áður en þau ná saman í vináttu. Í aðra röndina, og á yfirborðinu, er þetta því saga saklauss drengs sem finnur kærleikann hjá ungri stúlku sem tekur hann að nokkru leyti að sér – en það sem glittir í alla leið í gegnum bókina og er svo undirstrikað í endann er hversu hrottalegu lífi aumingjans Fía lifir, hvernig hún er alltaf undir hælnum á einhverjum (líka þegar hún er sem best og blíðust í sveitinni). Kraftmesti kaflinn – svo mann svimar – er þegar vinnumaðurinn Jói Daníels kemur til Jonna og vill að hann hjálpi sér að fá Fíu til að giftast sér, af því hún geri allt sem Jonni biður. Jonni ákveður að spila með Jóa og fer í samningaviðræður við hann um hvað hann eigi að fá í staðinn – hversu mikið saltað ket og hvaða kindur og hvaða hest og munnhörpu eða harmonikku og hvort Jói haldi að Jonni muni láta Fíu í hendurnar á einhverri nískunös. Ekkert verður úr samningum og Jonni segir Fíu frá þessu skellihlæjandi – en hún tekur frásögninni ekki vel. Þessar samræður eru allar mjög átakanlegar – hysterískar og grátlegar og sprenghlægilegar allt í senn.


Mér sýnist ritdómarar mest hafa einblínt á fagra vináttu Jonna og Fíu – sem er reyndar mikið lýst sem fallinni konu – og ýmislegt annað göfugt í fari þeirra (einn talar um að hún hafi fengið að „láta meðfædda móðurblíðu sína njóta sín hluta úr sumri“ – frekar en að hún hafi eiginlega gerst sjálfviljug ambátt smástráks, sem henni er jafn mikið í mun að gleðja og marga aðra karlmenn, sérílagi þá sem hafa hafnað henni einsog Jonni gerir í upphafi bókar). Í sjálfu sér er kannski ekkert af því rangt – þau eru líka göfug og fögur og saklaus og syndug og einhvers staðar nýtur maður sín líka við að gera öðrum gagn, sérstaklega þeim sem manni finnst að megi sín minna. Blíðan er tvíbent eða margræð en hún er sennilega mest góð. En það er ekki bara að Hagalín hafi hér innsæi í slíkar mannlegar hvatir heldur hefur hann líka innsæi í strúktúrana sem stýra hvötum okkar. Þá er hann – einsog Guðbergur – snillingur í að láta náttúruna og húsdýrin spegla manninn.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page