top of page

Vinnumaur


Þriðjudagsmorgun. Ég sit og geispa. Mér finnst þetta oft undarlegt líf. Að eiga að stýra tíma sínum svona sjálfur. Sinna þessari oft frekar abstrakt vinnu. Í gær svaf ég til dæmis yfir mig. Vaknaði ekki fyrren eftir tíu. Og það var enginn sem skammaði mig. Varla einu sinni neinn sem tók eftir því. Ég þyrfti líklega að sofa mjög rækilega yfir mig alla daga í svona 4-5 ár áður en nokkur tæki eftir því. Nokkur annar en ég, sem sagt. Eftir 4-5 ár færi einhver að spyrja að afköstunum. Þá yrði ég sviptur listamannalaunum og hýddur í kommentakerfunum. En þangað til gæti ég bara setið hér og geispað.


Stundum bregð ég mér frá tölvunni og spila tónlist í klukkutíma. Gutla á gítar. Bara í leit að einhverjum innblæstri eða til að drepa tímann – kannski er ég þá bara að bíða eftir því að eirðarleysið verði nóg til að ég skrifi. Að eitthvað kalli á mig. Stundum fer ég í göngutúr. Eða út að hlaupa. Stundum baka ég brauð. Ég er samt ekki bakari. Tek þetta aldrei fram í ritlaunaumsókninni.


Þegar ég var enn að stimpla mig inn og fá borgað tímakaup – sem var síðast á Bæjarins besta 2007 – skrifaði ég yfirleitt á kvöldin. Sumar vikur skrifaði ég meira en ég geri núna. En ég vann þá líka átta tíma á héraðsfréttablaðinu og svo átta tíma í viðbót þegar ég kom heim. Átti ekki börn, ekki maka, eldaði sjaldan og umgekkst fólk lítið á virkum dögum. Og hafði meira þrek svona almennt. Sennilega var ég líka gáfaðri. Núna þarf ég að minnsta kosti að hugsa lengur áður en ég kemst að niðurstöðu. Og hún er ekki alltaf mjög gáfuleg.


Ég laumaðist líka stundum til þess að skrifa í vinnunni. En aðallega vann ég bara í vinnunni og vann svo þegar ég kom heim og fór svo að sofa. Og svaf reyndar mjög oft yfir mig líka þá. Og var sjaldan skammaður ef það bitnaði ekki mikið á afköstunum.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page