top of page

Viltu ekki bara sjá brjóstin á mér líka?


Það er hægt að hætta á Facebook en það hefur lítið að segja þegar þeir sem þar mæla tala svo hátt að það heyrist í DV, Morgunblaðinu og Fréttablaðinu samtímis. Ég ætla ekki að munnhöggvast við vinkonu mína, Auði Jónsdóttur, sem ég hef þekkt í átján ár og hefur fram til þessa aldrei gert mér neitt. Ég vil frekar beina fólki að hlusta bara á viðtalið þar sem við mættum bæði – hjá Lóu Björk í Lestinni, sem sá um yfirheyrsluna – og skora á fólk að finna þar nokkurn fót fyrir því að ég hafi sagt nema brotabrot af því sem Auður virðist halda að ég hafi sagt, ef hún lýgur ekki upp á mig vísvitandi. Ég tel mig hafa reynt að halda því spjalli málefnalegu og ég held að það tali alveg fyrir sig sjálft. Ég get alveg haldið þeirri umræðu áfram en það væri þá gjarnan á öðrum forsendum en þeim að ég sé að bídra til hins viðvarandi lífsharms Auðar Jónsdóttur, sem hefur aldrei notið sannmælis í þessu þjóðfélagi fyrir okkur hælbítunum.


***


Smá viðvörun. Þetta er mjög löng bloggfærsla. Ég hef skrifað bækur sem voru styttri. Sennilega er meðalþriðjudagsmogginn styttri en þessi bloggfærsla. Ég veit ekki fyrir hvern ég skrifaði hana en mér fannst ég þurfa að halda þessu til haga. Ég svaf ekkert í nótt fyrir einhverjum áráttuhugsunum. Þetta er bara einsog það er.


***


Ég man eftir augnablikinu sem það hvarflaði fyrst að mér að ég gæti orðið rithöfundur. Ég var 18 ára, það var í Kaupfélaginu á Ísafirði og ég stóð við núðlusúpurekkann. Ég tók eftir því að pakkinn kostaði 39 krónur og ég hugsaði: „Ef að máltíð kostar ekki meira en þetta er allt mögulegt. Ég verð aldrei svo illa staddur að ég geti ekki slegið einhvern um 39 krónu lán.“ Ég þekkti engan sem hafði lifibrauð sitt af listum – hafði aldrei hitt þannig manneskju og aldrei séð þær nema á sviði eða í sjónvarpinu. Ég þekkti engan sem vann við að gefa út bækur eða halda tónleika – eða einu sinni prófarkarlesa. Þegar ég var unglingur með rokkstjörnudrauma botnuðu þeir alltaf í því að ég gæti kannski rekið hljóðfæraverslun þegar ég yrði stór. Foreldrar mínir mættu öllu tali um bókmenntalíf með raunsæinu – listir væru áhugamál og maður þyrfti að fara í skóla og „ná sér í menntun“ eða að minnsta kosti „hafa eitthvað í bakhöndinni“ og stundum varð talið pirraðra og meira í ætt við „hættu þessum draumórum“. Það var ekki af neinni fúlmennsku – þau þekktu ekki frekar en ég neitt fólk sem hafði lifibrauð sitt af listum. Fólk vann – það hafði fyrir því – og það var ekki alltaf gaman. Þau vissu líka af eigin reynslu að lífið gat verið barningur – pabbi hafði verið að miklu leyti á eigin fótum frá því fyrir landspróf og mamma varð ólétt átján ára. Þau voru raunsæ vegna þess að þau þurftu að vera það. En svo stóðu þau vel að merkja með mér hvað sem leið úrtölum – og oft ískyggilegu ástandinu á mér – einsog þau hafa alltaf gert. En það var enginn í mínu lífi sem hafði „óbilandi trú“ á mér eða bara hvatti mig áfram formálalaust.


Ég man líka eftir augnablikinu sem ég ákvað að sama hvað það kostaði ætlaði ég að skrifa. Það var þremur árum síðar. Ég hafði verið á puttaferðalagi með fjölkærri kærustu um Evrópu, sofið í runnum fyrir utan bensínstöðvar og étið ógrynni af núðlusúpu og bagettum, þegar kærastan dömpaði mér í Genf. Ég var á síðustu aurunum mínum og vissi ekkert hvað ég ætti að gera. Í tíu daga bjó ég undir Cornavin lestarstöðinni með öðrum heimilisleysingjum borgarinnar – í horninu mínu var pönkari með hund og eldri kona sem gaf alltaf hundinum að borða áður en pönkarinn vaknaði.


Á daginn ráfaði ég um borgina í ástarsorg, fullkomlega stefnulaus í lífinu. Mánuðina á undan hafði ég upplifað nóg til þess að fylla nokkra doðranta af hálfsjálfsævisögulegu rugli og þegar ég fann loks stefnu var það þessi, að skrifa um það. Sem ég gerði reyndar aldrei nema að litlu leyti – ætli ég hafi ekki ætlað að spara það í eitthvað einlægt opnuviðtal, sem svo aldrei kom.


Síðustu aurana notaði ég til þess að kaupa lestarmiða til Berlínar þar sem norsk vinkona mín bjó í stórri kommúnu. Hún leyfði mér að búa á gólfinu í herberginu sínu. Ég fékk mömmu til að selja rafmagnsgítarinn minn svo ég ætti fyrir mat og senda mér ritvél sem var til heima – þetta er nógu langt síðan til þess að það var í alvöru bara skynsamlegasti kosturinn – og hófst handa.


Við þessa ritvél sat ég í þrjá mánuði þar til rafmagnsgítarspeningarnir kláruðust og svo yfirdrátturinn og ég hraktist heim í unglingaherbergið mitt til að borga skuldirnar áður en þær féllu á foreldra mína. Ég fór aftur að vinna í rækjunni og á sambýli og sá til þess að þau – sem voru ábyrgðarmenn – hættu að fá gula miða í mínu nafni. Og skrifaði meðfram.


Snemma um vorið flutti ég til Færeyja þar sem ég var atvinnulaus við skriftir í tvo mánuði og vann síðan í skipasmíðastöð og skrifaði meðfram í þrjá mánuði til viðbótar. Um haustið skráði ég mig í íslensku í HÍ en mætti sama og ekkert – nema í ritlistina hjá Nirði – og var annars heima eða á Þjóðarbókhlöðunni að skrifa. Þann vetur bjó ég í litlu risherbergi við Hringbrautina sem var allt undir súð. Það var klósett fram á gangi en ekkert baðherbergi – ég fékk af og til að fara í sturtu hjá vinum og kunningjum en var annars mest bara illa lyktandi. Og skrifandi. Ég var ekki með ísskáp og ef égát ti mat hengdi ég hann út um gluggann – oft fraus hann og þá setti ég hann inn í fataskáp þar sem hann morknaði. Mér hafði tekist að drekka út öll námslánin mín á fyrstu vikunum og lifði mest á hrísgrjónum með sojasósu og bakkelsi sem Orri vinur minn færði mér eftir vaktir í bakaríi. Leigan var tíu þúsund á mánuði og ég þurfti oft að fara og selja eitthvað – allt geisladiskasafnið mitt fór til Valda – til þess að eiga fyrir henni. Fyrir jólin gaf ég út þrjú smásagnahefti sem ég prentaði sjálfur um nætur í fjölritunarvél á skrifstofu sem vinur minn hafði aðgang að og seldi síðan á Laugaveginum til þess að eiga fyrir tóbaki og hrísgrjónum.


Þegar jólaprófin komu átti ég ekkert erindi í nein próf, fékk engar einingar og yfirdrátturinn gjaldféll – náminu var sjálfhætt. Ég fór að vinna á sambýli í Garðabæ og skrifaði meðfram. Það var um þetta leyti sem ég hitti fyrst Kristján B. Jónasson. Vinur minn, prófessorasonur úr vesturbænum, vann við umbrot hjá Máli og menningu og við höfðum einhvern tíma hitt hann saman. Þegar ég mætti á fyrirlestur um verk Michels Houellebecq hjá Alliance Francaise og var Kristján þar. Áður en fyrirlesturinn byrjaði spurði Kristján hvort ég væri ekki ungskáldið sem hann hefði hitt og hvað ég væri að fást við. Ég sagðist vera byrjaður að þýða Allen Ginsberg og bætti því svo hratt við að eitthvað yrði maður að fást við. Það vantaði bara að ég henti í eitt „ef mig skyldi kalla“. Þegar fyrirlesturinn svo hófst kom í ljós að hann var allur á frönsku, en ég hafði sest þannig að ég komst ekki með góðu móti út – a.m.k. ekki án þess að vekja athygli á sjálfum mér – og því sat ég bara allan tímann og þóttist skilja hvað fram fór.


Um þetta leyti komst ég aftur í fjölritunarvélina góðu og prentaði fyrstu ljóðabókina mína, Heilagt stríð, sem ég seldi mest á börum fyrir bjór og tóbaki og hrísgrjónum. Þá var heitið „Nýhil“ sennilega þegar orðið til en bókin var ekki merkt neinu útgáfufélagi enda Nýhil enn sem komið er ekkert nema þetta heiti og kjaftagangur milli mín, Hauks Más Helgasonar, Gríms Hákonarsonar og Hallvarðs Ásgeirssonar.


Um sumarið var yfirdrátturinn greiddur og tími til kominn að safna nýjum skuldum. Ég fór til Þrándheims þar sem ég leigði herbergi í kommúnu og hélt áfram að þýða Ginsberg – mest atvinnulaus en tók nokkra daga í garðvinnu, man ég. Þegar ég var kominn á vonarvöl sótti ég um bætur og notaði þær svo til þess að komast til Helsinki þar sem mér hafði verið lofað hálfu starfi sem kokkur á leikskóla í Helsinki og búsetu á eldhúsgólfinu hjá vini mínum – sem bjó í nemendaíbúð með tveimur öðrum (sem voru eitthvað minna hrifnir af manninum sem bjó alltíeinu á eldhúsgólfinu þeirra). Seinna fékk ég vinnu líka við að þrífa káeturnar hjá Viking Line – og var þar eini hvíti maðurinn í 80 manna starfsliði, sem segir sennilega sitt um kjörin.


Ég kláraði Ginsberg þýðingarnar, fékk synjun á þær frá Kristjáni – sem sagði þær þó vel gerðar – þýddi þá Sagði Mamma eftir Hal Sirowitz, sem ég taldi miklu markaðsvænni bók, var boðið heim um jólin í boði foreldra minna og það fyrsta sem ég sá í bókabúðinni var Sagði Mamma eftir Hal Sirowitz í þýðingu Aðalsteins Ásbergs. Ég hafði ekki einu sinni náð að senda mínar þýðingar inn. Þegar ég kom til Ísafjarðar var mér gert ljóst að gulu miðarnir í póstkassa foreldra minna væru orðnir fullmargir og mér því eiginlega ekki fært að fara aftur út til Helsinki eftir jól – enda hvorug vinnan lengur í boði, ég hefði farið upp á von og óvon. Mamma gat hins vegar útvegað mér vinnu sem afleysingakennari í Grunnskólanum, sem ég þáði. Þar vann ég líka sjaldan fram yfir tvö á daginn og gat þá farið á Sjallann þar sem ég sat við skriftir og keðjureykingar fram á kvöldmat og kom svo aftur eftir kvöldmat og skrifaði og reykti fram að lokun. Á þessum tíma er ég að klára aðra ljóðabók og langt kominn með Hugsjónadrusluna.


Með fyrsta eintakið af Heimsendapestum í húsasundinu við hlið H-Prent.

Í ágúst komu Heimsendapestir út. Enn og aftur prentaði ég hana sjálfur en nú í alvöru prentsmiðju – H-Prent á Ísafirði – og það að degi til. Kápuna, sem var heil ljósmynd, framkallaði Dóri vinur minn á verkstæði Listaháskólans í Helsinki – ég borgaði efniskostnað og batt bókina inn. Þetta var fyrsta bókin mín sem ég sendi fjölmiðlum og sú fyrsta sem fékk umfjöllun. Þetta var líka fyrsta bókin sem kom út undir merkjum Nýhils.


Um haustið fékk ég aftur námslánayfirdrátt og flutti til Berlínar til að læra amerískar bókmenntir við Freie Universität. Ég náði aldrei svo langt að koma inn í þann skóla en mætti í nokkra þýskukúrsa og tórði á þriggja mánaða námslánum í níu mánuði.


Þennan vetur blómstraði Nýhil – það bættust við margir félagar og við héldum mánaðarleg listakvöld á stað sem hét Versuchstation. Við leigðum staðinn og greiddum leiguna með því að reka barinn – en við fengum ágóðan af hverjum seldum bjór. Við reyndum að fá styrk frá sendiráðinu – þetta voru íslenskir menningarviðburðir – til þess að kovera leiguna svo við gætum átt bjórpeningana en fengum synjun.


Það var líka þennan vetur sem ég fékk fyrstu dómana mína sem voru í ökkla eða eyra – fimm stjörnur og hauskúpur og ekkert annað. Í janúar fékk ég svo synjun um listamannalaun.


Síðustu mánuðina áttum við Haukur Már – sem bjuggum saman – ekki fyrir leigunni og vorum búnir að fá nokkrar útburðartilkynningar þegar ég flutti út og fékk inni hjá vinkonu minni síðustu vikuna.


Grímur Hákonarson, einn af stofnmeðlimum Nýhils, bjó í Prag á þessum tíma en kom nokkrum sinnum að heimsækja okkur í Berlín. Hann fékk þá hugmynd að Nýhilkvöldin væru styrkvæn og spurði hvort hann ætti ekki að sækja um styrk til þess að gera eitthvað með þetta – sem hann svo gerði. Um vorið fékkst þessi styrkur og alltíeinu vorum við komin með pening til þess að ferðast um landið og halda „ljóðapartí“. Sem við vissum enn ekkert hvernig við ættum að útfæra.


Eina færa leiðin heim – fjárhagslega – reyndist vera að taka rútu til London og fljúga þaðan. Sem við og gerðum. Þegar heim var komið byrjuðum við að safna saman öllu fólki á okkar reki sem við höfðum áhuga á og þá fjölgaði enn meira í Nýhil svo skyndilega vorum við orðin ansi stór hópur. Á túrinn fóru auk okkar fjórmenninganna, Örvar Smárason, Kristín Eiríksdóttir, Steinar Bragi, Ófeigur Sigurðsson, Valur Brynjar Antonsson, Þórdís Björnsdóttir, sænska skáldið Sara Hallström, Pétur Már Guðmundsson, Böðvar Yngvi Jakobsson, Inga Björk Ingadóttir, Haukur Ingvarsson, Bjarni Klemenz Vesterdal. Og ég er ábyggilega að gleyma einhverjum. Ég gaf líka út þriðju ljóðabókina mína, Nihil Obstat, sem var prentuð á eigin kostnað hjá Letri, sem þá var til húsa í lítilli geymslu í fjölbýlishúsi.


Við töluðum gjarnan um Nýhil sem möguleikaverksmiðju. Mörg okkar kunnu eitt og annað fyrir sér í útgáfu – höfðu vit á pappír eða umbroti eða hönnun eða myndlist eða yfirlestri eða prófarkarlestri eða dreifingu eða voru bara dugleg að halda á kössum. Svo skiptum við með okkur verkum og dreifðum þunganum svo enginn þyrfti að sligast. Fyrstu árin – og lengst af – þurftu samt allir að borga sína eigin prentun. Nýhil hafði engin fjárráð og flestir komu út í mínus. Þetta gerðum við ýmist af því okkur langaði ekki inn á stóru forlögin eða að vera undir þá mafíu komin eða af því við fengum ekki inni í þeirri sömu hlýju – og stundum var bara dagamunur á því hver ástæðan var.


Ég bjó í Reykjavík um haustið og vann á Grund meðfram skrifum. Leigði kjallaraíbúð í Hlíðunum með Varða. Ég hafði fengið synjun á Ginsberg þýðingarnar hjá öllum helstu forlögum en eftir ítrekun hafði Kristján B. fallist á að ráða mig frekar til þess að þýða Heimska hvíta karla eftir Michael Moore, sem var á þessum tíma langstærsta verkefni sem ég hafði fengið frá nokkurri menningarstofnun, og það best launaða. Í kjölfarið fékk ég líka smá aukapening fyrir að skrifa greinar í Mannlíf fyrir eiginkonu Kristjáns, Gerði Kristnýju, og fyrir að skrifa klámsögur í Bleikt & Blátt, sem ég hafði komist í í gegnum Hauk Ingvarsson, en vinur þess prúða manns var ritstjóri þar. Bleikt & Blátt var vel að merkja á þessum tíma eina tímaritið á Íslandi sem borgaði fyrir frumsamdan skáldskap – TMM var í stuttu fríi.


Þrátt fyrir allt þetta og vinnuna á Grund náði ég illa endum saman og var almennt bara sorgmæddur og leiður og kom litlu í verk. Um áramót flutti ég aftur vestur þar sem ég fékk vinnu sem næturvörður á Hótel Ísafirði. Það var áður óþekktur lúxus að geta skrifað í vinnunni. Í þetta sinn fór ég ekki aftur í unglingaherbergið mitt heldur leigði nær gluggalausa kjallaraíbúð við Fjarðarstræti – með sístífluðu klósetti og gólfum sem voru veggfóðruð (gólffóðruð?) með gömlum Andrésar Andar blöðum.


Árið 2004 byrjaði svo á annarri synjun um listamannalaun. Um vorið fékk ég hins vegar þau skilaboð frá Kristjáni B. að Mál og menning geti hugsað sér að gefa út skáldsöguna mína. Ég var líka í mjög góðri aðstöðu á hótelinu til þess að klára hana og þegar hún kom út – bók hjá „alvöru“ forlagi – var ótrúlega margt sem breyttist nánast á einni nóttu. Ég man t.d. eftir því að mamma eins vinar míns í Reykjavík, sem hafði aldrei litið við mér og raunar þótt ég frekar lúseralegur, vildi alltíeinu fara að bjóða mér í mat með fjölskyldunni. Einar Már nikkaði til mín á götu. Einar Kárason kom að máli við mig á bar (reyndar aðallega til að segja mér að ég væri óttalegur asni, en það er önnur saga). Auður Jónsdóttir hringdi í mig til að segja mér að hún hefði ekki skemmt sér svona vel yfir bók síðan hún las Aulabandalagið. Ég fór í viðtöl og það voru teknar af mér myndir. Og svo framvegis.


Ég man líka að mér var í fyrsta sinn boðið í partí þar sem meirihluti gestanna hafði verið í fjölmiðlum. Það var tíu ára útgáfuafmæli Gerðar Kristnýjar. Þar lenti ég í samræðum við tvo meiriháttar menningarpostula sem voru að hrósa skáldsögunni minni á sama tíma og þeir útskýrðu fyrir mér að ég væri vonlaust ljóðskáld þegar Sjón bjargaði mér með því að vinda sér upp að mér til að spyrja hvar hann gæti komist yfir Nihil Obstat og lýsti yfir hrifningu sinni á Heimsendapestum. Ég endaði samt á að drekka mig pöddufullan og fara svo að verja rétt vændiskvenna til að selja sig við einhverjar miðaldra konur (sem voru sennilega alls ekki jafn gamlar og mér fannst þær þá). Við fremur lítinn orðstír, einsog gengur.


Hvað um það. Mér fannst ég fara með himinskautum – þótt dómar væru enn sem fyrr allir í ökkla eða eyra. Svo kom 2005 og árlega listamannalaunasynjunin kippti mér aftur niður á jörðina. Salan á Hugsjónadruslunni hafði líka verið talsvert undir væntingum (allt undir þúsund, sagði Kristján, að væru vonbrigði – hún seldist í 700 eintökum – og ég reyndist í skuld við forlagið). Um vorið var mér hins vegar í fyrsta sinn boðið að lesa upp í útlöndum. Auður Jónsdóttir – þá nýbakaður handhafi Íslensku bókmenntaverðlaunanna – bauð mér á HC Islandus hátíðina í Kaupmannahöfn og bjó ég hjá henni og manni hennar í nokkra daga og las upp ásamt fleiri Íslendingum og nokkrum Dönum á einhverri krá. Ferðin er eftirminnileg þótt uppákoman hafi ekki endilega verið það og mér þótti gaman að kynnast Auju og Tóta.


Sumarið áður hafði ég hóað í nokkur ungskáld, kunningja mína, til þess að fá ábendingar um erlend ljóðskáld sem væru á lífi – samtímafólk – á þessum tíma var þetta ekkert sem maður gat gúglað og svo sannarlega voru þau ekki til í bókabúðum. Einn þeirra benti mér á Christian Bök sem ég fékk strax mikla dellu fyrir og fannst hreinlega lífsspursmál að ég myndi hitta. Í einhverju bríaríi skrifaði ég svo styrkumsókn til þess að halda „alþjóðlega ljóðahátíð“ í Reykjavík í nafni Nýhils og um jólin þegar ég fékk lítinn styrk sótti ég um annan og fékk hann líka.


Hátíðin var haldin sumarið 2005 en peningarnir dugðu bara rétt svo fyrir fimm flugmiðum og tveimur herbergjum á gistiheimili. Hin skáldin gistu hjá vinum – Billy Childish, sem var kostaður af Sjóklæðagerðinni Ægi upp í peninga sem þeir skulduðu víst Offa (gegn því skilyrði að farið yrði leynt með styrkinn, en leyndin hefur fyrnst!), bjó heima hjá Offa, sem flutti út til að rýma fyrir honum. Christian Bök bjó heima hjá einhverri vinkonu Vals Brynjars minnir mig. Og hvort Anna Hallberg fékk ekki inni í Norræna húsinu. Christian þurfti að fá greiðslu sem hann fékk í beinhörðum peningum beint af ólöglega barnum sem við rákum í Klink og bank. Aðrir fengu ekki greitt, það fékk enginn að fara út að borða eða neitt annað – og ég tók mér ekki krónu í laun, enda var hún ekki til. En það var ógeðslega gaman.


Sennilega var það um vorið sem ég gafst upp á Andrésar Andar íbúðinni og keypti mér íbúðina í Öldunni – á 100% húsnæðislánum í boði Framsóknarflokksins, enda átti ég ekki fyrir neinni útborgun. Ég gafst líka upp á næturvarðarstarfinu eftir miklar svefntruflanir og tilboð um vinnu sem blaðamaður á Bæjarins besta. Þar vann ég 8-17 alla virka daga en skrifaði fram á nótt. Núðlupakkinn hafði sennilega tvöfaldast í verði þegar hér er komið sögu en ég var staðráðinn í að láta það ekki buga mig. Um haustið gaf Nýhil út ljóðabókaseríuna Norrænar bókmenntir – níu bækur eftir jafn mörg skáld – sem var styrkt af Landsbankanum, sem keypti einn pakka fyrir hvert bókasafn á landinu og koveraði þannig kostnaðinn. Á þessum tíma var kominn upp sá draumur að Nýhil gæti orðið alvöru forlag og jafnvel greitt höfundum fyrir verk sín frekar en að þeir þyrftu að borga fyrir að koma þeim út.


Loks bar til þetta ár að forlagið Bjartur réð mig til þess að reka fyrir sig undirforlag sem fékk nafnið Traktor. Díllinn var að ég fengi 500 þúsund krónur sem áttu að kovera allt – hvað gæti ég gert með þetta? Ég leysti það með því að borga sjálfum mér engin laun, en ráða sjálfan mig á tæplega hálfum taxta til þess að þýða Móðurlausa Brooklyn eftir Jonathan Lethem (sem ég, bláeygur, hélt að yrði hittari) og eyða restinni í að gefa út fyrstu skáldsögu Ófeigs Sigurðssonar, Áferð. Í sem stystu máli seldist Áferð lítið sem ekkert, Móðurlaus Brooklyn var stoppuð á leið til útgáfu og forlagið var lagt niður um áramót.


Árið 2006 byrjaði kunnuglega – á synjun um listamannalaun. Um sumarið styrktu foreldrar mínir mig um tveggja vikna dvöl í íbúð á Laugavatni svo ég gæti lokið við Eitur fyrir byrjendur. Kristján var búinn að lesa uppkast og gefa athugasemdir en það vantaði eitthvað uppá. Ég var í góðu yfirlæti á Laugavatni – ef frá er talið að varla var hægt að fara úr húsi fyrir flugum – fannst ég mjög „alvöru“ og kláraði bókina vandræðalaust. Á leiðinni til baka kom ég við í borginni og skilaði lokahandritinu á USB-lykli – og skildi Kristján þannig að bókin kæmi út um haustið. Tæpum tveimur mánuðum síðar las ég samantekt um jólabókaflóðið í Fréttablaðinu þar sem bókar minnar var ekki getið. Ég skrifaði Kristjáni og spurði hverju sætti og hann sagðist þá ekki telja bókina hæfa til útgáfu og best væri að bíða. Ég held enn í dag að ég hafi hreinlega gleymst – fallið milli skips og bryggju í einhverju Eddu-miðlunar kaosi – í öllu falli hafði enginn þá haft samband við mig vegna bókarinnar í heila tvo mánuði og athugasemdirnar sem ég hafði fengið á fyrsta handritið voru alls ekki mjög róttækar og úr þeim hafði verið unnið. Ég var bara að bíða eftir að fá próförk.


Svo örugg var sem sagt staða mín „inni í hlýjunni“. Ég tók þessu mjög illa og varð upp úr því forlagslaus á ný. Eða – „forlagslaus“ – því Nýhil var að gefa út skáldsögur í fyrsta sinn þessi jól, eftir Bjarna Klemenz og Hauk Má, og ég náði – með fádæma klíkuskap – að troða mér þar inn og fá bókina útgefna. Ég fékk meira að segja 50 þúsund króna fyrirframgreiðslu. En mestu skipti að bókin kom út. Hún seldist aðeins verr en Hugsjónadruslan en fékk betri dóma – og var fjórum árum síðar fyrsta bókin mín sem kom út í þýðingu. Löngu seinna keypti svo Mál og menning aftur réttinn af bókinni og restina af lagernum.


Þetta haust var líka önnur ljóðahátíð Nýhils haldin á svipuðum forsendum og sú fyrsta – með heimagistingum og skítareddingum – en í þetta sinn hafði Landsbankinn aftur látið okkur fá einhverja smápeninga í gjörninginn. Auk þess fékk ég mitt annað þýðingagigg – að þýða ævisögu Eminems eftir Anthony Bozza.


2007 byrjaði einsog svo oft á synjun um listamannalaun. Við Nadja vorum hins vegar byrjuð að slá okkur upp svo það kannski fékk minna á mig – mér fannst ég ósigrandi og var farinn að venjast þessum synjunum hvort eð er. Nadja hafði komið og heimsótt mig um jólin – ég fór til Helsinki að hitta hana í febrúar, við trúlofuðum okkur, ég flutti út í apríl og við giftum okkur í ágúst. Við höfðum vel að merkja þekkst síðan við vorum fimmtán ára – þótt við hefðum aldrei verið par.


Þegar ég flutti út gerði ég enga tilraun til að sækja um verkamannavinnu heldur sendi pósta á alla sem ég þekki í von um „verkefni“. Nú var að duga eða drepast. Ég átti enn peningana sem ég hafði fengið fyrir Eminemþýðinguna og svo var alltaf yfirdrátturinn – krónan var sterk og íbúðin okkar lítil og ódýr. Og ég var heldur ekki einn, heldur vorum við nú í liði (þótt Nadja væri bara á námslánum). Ég fékk líka um þetta leyti fyrstu viðurkenninguna á ferlinum – þarna á níunda starfsári. Það var Rauðu fjöðrin – stílverðlaun lestrarfélagsins Krumma – og svo skömmu síðar aukaverðlaun í Ljóðstafi Jóns úr Vör.


Harkið leysti ég með því að þýða Heljarþröm eftir Anthony Horowitz og Súkkulaði eftir Joanne Harris. Bjartur ákvað auk þess að gefa út Móðurlausa Brooklyn (eftir að skipt hafði verið um yfirstjórn í því fyfirtæki) – en því fylgdu eðlilega ekki neinir meiri peningar. Hins vegar tókst mér að selja fyrirfram talsvert af eintökum af fimmtu ljóðabókinni minni, Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum mínum! (sjöttu ef Handsprengjan er talin með – en hún var samstarfsverkefni og svolítið spes). Ég seldi hana á þúsundkall stykkið og sendi út milljón tölvupósta – spammaði sama fólkið margsinnis, alla póstlista sem ég fann – og þótt það væri lítil framlegð af hverju seldu eintaki þá kom ég í fyrsta sinn ekki út í mínus eftir útgáfu og þurfti ekki að leggja út fyrir prentkostnaði fyrirfram. Þá var þetta fyrsta ljóðabókin mín sem fékk frekar jákvæða dóma en neikvæða.


Við þetta bættist að fékk ég líka að lesa aðeins upp í Helsinki – sem var þá oft greitt – og kynnti Ísland í skólum og skrifaði aðeins í útlensk blöð í krafti þess að ég væri „íslenskur rithöfundur“ – sem var nokkuð sem ég gerði alls ekki mikið á Íslandi. Þá fékk ég líka upplestra í Danmörku og Noregi.


Það var á sólardaginn – og fullt hús af sólarpönnukökugestum frá öllum heimshornum í íbúðinni okkar í Helsinki – að mér bárust þau boð að ég hefði fengið sex mánaða listamannalaun. Á þessum tíma var þetta ekki á netinu heldur var sent bréf á lögheimili mitt hjá foreldrum mínum á Íslandi og mamma hringdi í mig til að spyrja hvort hún ætti að opna umslagið. Eftir níu ára þjark við ritstörf ofan á launavinnu – frá sambýlum og rækjuverksmiðjum yfir í hótel, elliheimili og héraðsfréttablaðið – hafði mér mér tekist að koma frá mér tveimur skáldsögum og sex ljóðabókum og nú var loks farið að rofa svolítið til. Ofan í sex mánaða listamannalaun fékk ég síðan Íslensku þýðingarverðlaunin fyrir Móðurlausa Brooklyn. Þá höfðu ráðamenn á forlaginu Uppheimum haft samband og spurt hvort ég gæti hugsað mér forlag þeirra til framtíðar. Mér leist ágætlega á það og við gerðum samkomulag um að ég myndi þýða fyrir þá framhald Súkkulaðis, og þeir myndu gefa út sjöundu ljóðabókina mína og Ginsberg þýðingarnar þá um haustið – og svo yrði ég áreiðanlega tilbúinn með skáldsögu ári síðar.


Þá brá svo við að Silja Aðalsteinsdóttir var ráðin til Máls og menningar – ég hafði aðeins skrifað fyrir Tímaritið (eina grein og tvo ritdóma minnir mig) og hún hafði fylgst með bókunum mínum og spurði hvort ég myndi ekki „fylgja sér“ yfir á forlag. Ég sagði henni einsog var að ég hefði verið með munnlegt samkomulag við Uppheima en mér hugnaðist betur að fylgja henni, enda hafði ég kynnst henni – og hún oft klappað mig upp og staðið með mér þegar aðrir gerðu það ekki. Ég samþykkti því að fara með skáldsöguna til hennar – og fannst satt að segja talsverð upphefð að. Bæði að það væri haft samband við mig svona – og að það væri Silja sem gerði það.


Ég hafði samband við Uppheima og lét vita að ég myndi fylgja Silju að ári. Uppheima slaufuðu þá Ginsberg, Súkkulaðiframhaldinu og ljóðabókinni. Þetta kom mér kannski ekki alveg í opna skjöldu en ég hafði þó vonað að ég myndi a.m.k. halda þýðingarverkefnunum. Ég sagði Silju þetta í panikki og hún kom því til leiðar – dásamlegi skriðdrekinn sem hún er – að forlagið tók upp slakann, gaf út Ginsberg (sem það hafði hafnað 2002, 2003 og 2005), ljóðabókina Ú á fasismann og réðu mig til að þýða barnabók eftir hinn þá lítt þekkta norska höfund, Jo Nesbø, Doktor Proktor og prumpuduftið. Silja bætti svo um betur persónulega og keypti fyrir mig flugmiða til Íslands svo ég gæti komið og lesið úr bókinni.

Eftir mjög magurt fyrsta ár í Helsinki var útlit fyrir að nú væri að birta til. En þá kom krónufallið – sem byrjaði eiginlega akkúrat um sama leyti og ég fékk listamannalaunabréfið og náði svo sínum trylltustu hæðum um haustið – og íslenski gjaldeyririnn minn fuðraði bara upp, svo sennilega vorum við enn verr stödd fjárhagslega, þótt innkoman ætti að heita meiri og ferillinn í meiri blóma, a.m.k. á pappírunum.


2009 fékk ég aftur 6 mánaða ritlaun og var kampakátur. Nadja var líka ólétt og ég var farinn að koma talsvert fram á ljóðahátíðum hér og þar í Evrópu og N-Ameríku og þótt tekjurnar af því væru æði mismiklar þá naut ég samt ákveðinnar velgengni, að mér fannst í fyrsta sinn á þessum þá tíu ára ferli. Allar tekjur í erlendum gjaldeyri voru líka enn vel þegnar.


Ég þýddi tvær skáldsögur eftir Lee Child, þær fyrstu á íslensku og um sumarið fluttum við til Svíþjóðar þar sem Nadja ætlaði að taka mæðraorlofið og skömmu síðar fór ég að þýða reyfarann Spádómar Nostradamusar eftir Mario Reading. Það var að mörgu leyti hræðileg reynsla. Í fyrsta lagi fannst mér bókin skelfileg – ég hefði aldrei átt að taka verkefnið að mér – og í öðru lagi þá var Aram Nói nýfæddur og ég svaf mjög lítið og vorkenndi sjálfum mér mjög mikið að vera í þessu eilífa harki – alltaf blankur, alltaf í panikki, fannst einsog ég gæti aldrei eirt mér augnabliks hvíldar án þess að sökkva til botns einsog steinn. Að ef ég drægi andann myndi ég vakna aftur í rækjuverksmiðjunni. Sennilega er líka ekkert einsog barneignir í því að kveikja á panikkinu í manni – ég get alveg verið svangur, ég get alveg étið núðlusúpur og neitað mér um ýmislegt, en ég legg það ekki jafn glatt á börnin mín.


Mér hafði tekist að klára Gæsku áður en við fluttum og hún kom út um haustið en fékk sannkallaða útreið í Kiljunni. Kolbrún og Páll Baldvin voru í essinu sínu, tóku okkur Óttar Martin saman í kippu – við fengum ekki sitthvorn dóminn, heldur var báðum stillt upp saman og sagt: þessar bækur, þær eru drasl. Og hlegið ofan í það. Og þá hataði ég bókmenntalífið næstum jafn mikið og ég elskaði nýfæddan son minn (samt bara næstum).


Afleiðingin var sú að ég kreisti úr mér þessari reyfaraþýðingu – mjög hægt, af því mér bókstaflega sortnaði fyrir augum við vinnuna, hataði hvert orð sem ég las og þýddi, fansnt bókin niðurlæging við sjálfan mig og bókmenntirnar og allt sem var fagurt, en ég kreisti samt, þetta var einsog að vera með svæsið andlegt harðlífi – og ýtti svo á send um leið og ég var búinn án þess einu sinni að lesa það yfir. Ég bara megnaði það ekki. Silja– sem þá hafði verið ötull bandamaður minn í þessu stríði í nokkur ár, og komið því til leiðar að ég fengi aðeins hærri taxta meira að segja – húðskammaði mig fyrir þetta. Sennilega ekki jafn mikið og ég átti skilið en úr varð samt að ég myndi taka mér langt hlé frá þýðingum, sem höfðu þó verið bróðurparturinn af tekjum mínum í tvö og hálft ár. Ég hef enga skáldsögu þýtt síðan.


2010 hófst svo á því að ég fékk synjun um listamannalaun. Nýbúinn að semja um að ég væri hættur að þýða. Nýorðinn faðir. Nýbúinn að gefa út skáldsögu sem seldist í 600 eintökum, sem dugði ekki til að ég fengi krónu umfram fyrirframgreiðsluna frá árinu áður (og skildi mig raunar eftir í mínus gagnvart forlaginu, enn eina ferðina). Bara þrjár af bókum mínum – sem voru tíu talsins – höfðu komið út annars staðar en hjá Nýhil, forlaginu sem ég stofnaði sjálfur og rak ásamt fleirum, og sem kostuðu mig í nær öllum tilvikum meiri pening en ég fékk fyrir þær.


Út árið lifðum við á mæðraorlofspeningunum hennar Nödju. Í ágúst fékk ég að skrifa pistla í Smuguna fyrir einhverja smápeninga og svo bókadóma í Spássíuna – sem kom út kannski fjórum sinnum. Enn hafði ég líka smáplokk af greinaskrifum og upplestrum erlendis. Á þessum tíma var ég óútgefin utan Íslands en kominn með nokkuð orðspor í ljóðakreðsum erlendis fyrir greinaskrif og upplestra á hljóðaljóðum. Ég skrifaði líka pistla í Reykjavík Grapevine um ljóðlist – sem ritstjórinn viðurkenndi að væri sennilega verst launaða giggið í bænum. Og svo fékk ég óvæntan styrk frá Fjölís. En mestmegnis vorum við bara mjög fátæk. Töldum hvern einasta eyri. Um vorið fluttum við til Oulu þar sem Nadja skipti úr mæðraorlofi yfir í námslán og þann vetur var stærsta rifrildið okkar út af Scanpan pönnu sem ég hafði keypt án þess að hafa samráð við Nödju. Og var áreiðanlega misráðið en ég man líka hvað mér fannst mikið til mín koma þegar ég gekk út úr búðinni með þessa helvítis pönnu. Mér fannst ég vera maður. Maður sem getur keypt pönnu, það er ekki svo ónýtt. Síðan mætti ég Nödju á strætóstoppistöð og hún spurði hvað þetta væri og ég skammaðist sín svo mikið að ég fór næstum að grenja. Og varði mig svo með kjafti og klóm.


Í október kom ég inn ljóðmyndinni Höpohöpö Böks á Zebra Poetry Film Festival í Berlín. Hún vann til verðlauna – Special Mention – sem voru því miður einu verðlaunin sem fylgdu engir peningar.

Um haustið fór ég í feðraorlof – verandi sjálfstætt starfandi og fátækur fékk ég lágmarksgreiðsluna. Mig minnir að upphæðin hafi verið 79 þúsund krónur á mánuði (nóg fyrir 8 Scanpan pönnum). Ég var heima með Aram fram til 17 á daginn og skrifaði meðan Aram svaf. Svo kom Nadja heim úr skólanum og ég fór á bókasafnið og skrifaði ótruflaður til 19 og fór þá heim – yfirleitt var ég búinn að elda kvöldmatinn áður en ég fór. Ég ætlaði að vera í sex mánuði en gafst upp eftir þrjá.


Sama haust kom líka fyrsta bókin mín út erlendis. Þýska forlagið Kozempel & Timm gaf út Eitur fyrir byrjendur. Hún og IWF! IWF! OMG! OMG! sem er safn af ljóðum úr ólíkum bókum og kom út árið eftir eru einu bækurnar sem það forlag gaf út.


Ég fékk 9 mánaða ritlaun 2011. Á tólf árum – hafandi skrifað þrjár skáldsögur, sjö ljóðabækur, þýtt tólf bækur og tvö leikrit, skrifað óteljandi greinar, og ritdóma stofnað smáforlag og ljóðahátíð, og performerað hljóðaljóð um allan heim – hafði ég fengið samanlagt heilt ár af listamannalaunum. Að fá nú níu mánuði á launum var eiginlega engu líkt. Ég var búinn að vera svo reiður og vonsvikinn svo lengi – fannst í alvöru að ég væri ekki að þessu fyrir neinn nema sjálfan mig og þetta væri farið að kosta mig og fjölskyldu mína alltof mikið. Með einu pennastriki breyttist þetta. Að minnsta kosti út árið (því þegar maður er vanur að eiga ekkert duga 9 mánaða laun manni auðveldlega í 12 mánuði).

Peningana notaði ég meðal annars til þess að fara til Jurbarkas um haustið í rannsóknarferð vegna Illsku (en þangað hafði ég fyrst farið til að flytja fyrirlestur og lesa hljóðaljóð 2008) og svo til þess að fara í tveggja vikna residensíu í Visby á Gotlandi jólin eftir (en ég komst ekki frá á neinum öðrum tíma – fór annan í jólum). Svo notaði ég þá líka til að gefa út á eigin kostnað lítið kver um höfundarrétt sem kom út á vegum SLIS (Sumarbúða Listhneigðra Sósíalista) um vorið. Um svipað leyti gaf svo finnskt forlag út safn ritgerða minna um ljóðlist – á ensku – undir nafninu Booby, Be Quiet!


Ég fékk svo aftur 9 mánuði árið eftir. Ég var farinn að ferðast enn meira en áður til að lesa upp og farinn að skrifa fyrir merkilegri rit – meðal annars Klassekampen í Noregi, sem borgaði almennilega – og þótt mér liði af ýmsum ástæðum ekki vel þá hafði það ekki með efnahag minn að gera.


Um vorið lauk ég við Illsku og sendi á forlag. Hún var, einsog einhver kannski man, mjög löng og Gæska hafði fengið óblíðar viðtökur í Kiljunni og lítið selst. Illska var líka undarleg að forminu til og á forlaginu var fólk hikandi um hvort það væri hægt að gefa hana svona út og þótt hún þætti held ég almennt góð – jafnvel „geggjuð“ – gekk mér illa að fá staðfest að hún kæmi út um haustið, sem mér þótti á þessum tímapunkti bókstaflega lífsspursmál að hún gerði. Þá keypti ég mér flugmiða til Íslands til að fara á fund – sem er enn sem komið er í lífi mínu það mest grand sem ég hef gert. Ég settist niður með Silju og Jóhanni Páli á Bræðraborgarstígnum, við ræddum málin – ég sagðist vilja fá þetta skriflegt, eða ég neyddist til að þreifa fyrir mér annars staðar líka – og við sættumst á að bókin kæmi út, en í svokallaðri royal-kilju – sem eru þessar stærri kiljur með aðeins betri pappír en sumarkiljurnar – af því hinu fylgdi óforsvaranlegur kostnaður (mér sárnaði svo dálítið að sjá að Ófeigur vinur minn kom út sama haust með álíka stóra bók í harðkápu, þótt ég gleddist auðvitað fyrir hans hönd). Þegar fyrsta upplagið svo seldist upp var hún endurprentuð í harðkápu (enn í dag hafa flestar skáldsögur mínar hjá MM/Forlaginu komið fyrst út í kilju – bara Gæska, Einlægur Önd og Hans Blær hafa komið fyrst í harðkápu).

Í ágúst þetta ár rak svo hval á fjörur mínar þegar ég fékk þriggja mánaða residensíu á Stykkishólmi með launum í dollurum – sem voru upprunalega miðuð við listamannalaun, en einsog gengið stóð fyrir hrun, svo í raun voru þau tvöföld, þrír mánuðir á verði sex. Þar var ég þegar Illska kom út og síðan hef ég ekki staðið í viðlíka harki og fyrstu 13 árin á ferlinum, og hvað þá fátækt einsog ríflega helminginn af þessum árum – þótt ég þurfi stundum að nurla til að ná saman fyrir reikningunum og lifi af og til um efni fram og hafi aldrei átt afgang. Það er bara normalt. Lífinu lauk auðvitað ekki heldur þarna – haustið 2012 – það heldur áfram að vera barningur bæði prívat og opinberlega, ég hef skilið og veikst og floppað, en líka tekið saman aftur, batnað og unnið fleiri sigra en ég á skilið. Það er alltílagi og kemur ekki málinu við.

1 comment
natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page