Viðskiptabann: Mánuður tvö

Fyrir tveimur mánuðum setti ég hálfs árs viðskiptabann á bækur eftir karlmenn – til að kanna eitthvað, ég er ekki alveg viss hvað, til að hafa lestrarstrategíu, til að rugla aðeins í þessum frjálsa rytma og til að bæta upp fyrir halla sem ég er eiginlega alveg viss um að hafi verið þarna (þótt ég hafi aldrei tekið saman hversu alvarlegur hann er; og sé raunar almennt á því að það séu til betri kríteríur til að velja sér bækur en af hvaða kyni höfundurinn er). Hvað um það. Hér má lesa skýrslu frá fyrsta mánuðinum og nú er það mánuður tvö.

Muminpappans memoarer – Tove Jansson, finnlandssænsk – 25. apríl

Sjálfsagt er þetta ein af heimsins bestu bókum um tilvistarkreppu karlmanna. Ef bækur eða bókmenntagreinar gætu almennt verið tæmandi hefði mátt spara heiminum marga áratugi af bókum um eirðarleysi manns sem hefur fjölgað sér (og þar með uppfyllt augljósasta tilgang sinn), hversdagshamslausa ævintýraþrá og geldingarótta. Ég fann mig í þessu öllusaman – ef ég tæki sjálfsprófið á Facebook væri ég áreiðanlega múmínpabbi – og svo er bókin náttúrulega mjög skemmtileg líka.

Norrut åker man för att dö – Ida Linde, sænsk – 26.apríl

Ég hef þýtt Idu Linde – Erfðaskrá vélstúlkunnar kom út hjá Meðgönguljóðum … í fyrra? Tíminn líður orðið svo hratt að það gæti þess vegna hafa verið í hittifyrra. Allavega. Norrut åker man för att dö (Norður fer maður til að deyja) fjallar um … hvað fjallar hún um, dauðann líklega. Fyrsti kaflinn í henni er eitthvað það tryllingslegasta sem ég hef lesið lengi – ókunnur maður bankar upp á hjá lögreglukonu, þau sofa saman og fara svo um nágrennið og stúta fólki à la Natural Born Killers, nást og játa allt. Þetta er bara fyrsti kaflinn. Svo er einsog Ida þysji sjónarhornið út frá þessum punkti þar til allt sænska Norrland liggur undir – hin deyjandi byggð sem étur sig sjálfa með eins konar skógarhöggsþjófnaði, landið er rænt, fólkið er rænt og lífið verður síbergmálandi harmur. Þarna eru líka mörg undirliggjandi þemu sem ég þekki að vestan – og einhver kunnugleg tilfinning fyrir því að tíminn ætli sér að valta yfir lífið einsog maður þekkir það.

What I loved – Siri Hustvedt, norsk-bandarísk – 2. maí

Mánuðurinn byrjaði vel. Ég hef aldrei lesið Hustvedt áður og What I loved „hitti beint í mark“ (ég er búinn að vera alla síðustu viku á ráðstefnu í Finnlandi og líður einsog heilinn á mér hafi verið að koma úr skilvindu – mér detta engin frumlegri eða betri orð í hug en þetta með beintið og markið). Ekki síst sagan af syninum og því hvernig hann verður (eða kemst ekki hjá því að verða) sósíópati. Ef bækur eiga að koma manni í uppnám og halda manni þar með andköfum þá er þessi mjög vel heppnuð – ekki síst þegar litið er til þess að hún er skrifuð í þessum ameríska yfirvegaða sögumannstóni (Hustvedt hefur alveg sína rödd innan þess rófs, vel að merkja). Þegar ég var búinn með hana velti ég því samt svolítið fyrir mér hvað þetta er lítill heimur – þessi Manhattan intelligentsía – og hvað hún er hryllileg sjálfhverf. Einu skiptin sem hún lítur upp úr naflanum til að hugsa um heiminn, þá er einsog hún geri það bara til að vorkenna sér fyrir að þurfa þess – ekki það er vont að fólk skuli vera hungrað í heiminum heldur það er vont að mér skuli líða svona illa yfir hungrinu í heiminum, er ekki hægt að seðja fólkið svo mér líði betur. En góð bók samt!

A summer without men – Siri Hustvedt, norsk-bandarísk – 5. maí

Ég er of lélegur í að eltast við sömu höfundana – klára höfundarverk. En ákvað sem sagt að taka a.m.k. eina aðra Hustvedt, fyrst hin var svona hittin. Ég segi ekki að mér hafi þótt A Summer Without Men beinlínis leiðinleg – en hún var voðalega kraftlaus. Fullorðin kona snýr aftur til heimabæjar síns þegar maðurinn hennar fer frá henni fyrir yngri konu. Þar hefur hún það að mestu leyti ágætt, kennir unglingum ritlist og spjallar við konur af ýmsum stærðum og gerðum. Og svo kemur maðurinn hennar aftur. Geisp geisp. Hún er til í íslenskri þýðingu – eina Hustvedt bókin, held ég, og það er áreiðanlega bara af því hún er styst, ekki vegna þess að hún sé best.

Days of abandonment – Elena Ferrante – ítölsk – 9. maí

Forsendan í Days of Abandonment er eiginlega sú sama og í A Summer Without Men nema hvað konan sem er yfirgefin er aðeins yngri og í stað þess að fara nokkuð situr hún föst heima með tvö börn. En meiri eru líkindin ekki. Days of Abandonment er jafn mikil kraftreið og Summer Without Men er máttlaus – konan gersamlega sturlast. Þetta er svona sótthitaverk í raskolnikóvískum móð, einsog Fear and Loathing ef hún hefði fjallað um fertuga húsmóður – maður er aldrei alveg viss hvað er að gerast og hvað sé ímyndun og þegar öllu er lokið er maður gjörsamlega úrvinda af átökum. Útgefendum skal bent á að hún er eiginlega alveg nákvæmlega jafn löng og A Summer Without Men – Ferrante er gríðarleg vinsæl vestanhafs – og þetta á að koma út á íslensku.

Bedwetter – Sarah Silverman – bandarísk – gafst upp 10. maí

Þetta er ævisaga Söruh Silverman, sem er einn af mínum eftirlætis grínistum. En einhvern veginn er húmor í prósa eitthvað allt annað en húmor á sviði – það þarf allt aðra tilfinningu fyrir tímasetningu en á sviði. Ég er kannski óvenju viðkvæmur fyrir þessu, ég veit það ekki; mér finnst t.d. bækur Woody Allen líka handónýtar – Bedwetter er í öllu falli „bara brandarabók“, það er spilað á regluleg pönslæn en skortir allan skriðþunga, það tístir aldrei í manni vegna þess að það er verið að reyna að fá mann til að skelliskellihlæja (bækur virka ekki þannig – eða allavega mjög fáar). Flestir fyndnustu höfundar sem ég þekki halda manni alltaf hálfhlæjandi en gæta sín mjög vel á að byrja ekki bara að rúlla út bröndurum. Á þessu eru svo auðvitað undantekningar – Douglas Addams til dæmis. En Silverman – kannski vantar hana bara erindi (hún segir það reyndar sjálf, í sínum eigin formála, að þessi bók hafi bara verið skrifuð vegna þess að hún sé seleb og komist upp með svoleiðis – en einhvern veginn nær sú innsýn ekki að skapa neina spennu, þetta er bara alveg satt).

Story of O – Pauline Reage – frönsk – gafst upp

Ég las hana eitthvað ríflega hálfa. Forsendan pínu forvitnileg en voðalega er erótískur litteratúr almennt hryllilega langdreginn og leiðinlegur. Ég hef lesið ýmislegt skemmtilegt og áhugavert um erótískar bókmenntir, ekki síst einmitt þessa – og þetta er frjótt sem metafóra fyrir alls kyns valdaströggl, eigindlegt og megindlegt, en það þarf þolinmóðara fólk en mig til að lesa þetta. Ég get svo tekið við því bara í endursögn.

S. A novel about the balkans – Slavenka Drakulic – króatísk – 18. maí

Bosnísk kona fæðir barn í Stokkhólmi og rifjar upp mánuðina á undan, sem hún eyddi í fangabúðum kvenna í fyrrum Júgóslavíu – bæði sem venjulegur fangi, sem kynlífsþræll í hálfgerðu vændishúsi þar sem hermenn koma að vild, og sem nokkurs konar konkubína fyrir yfirmann fangabúðanna, sem svo barnar hana áður en henni er sleppt í fangaskiptum. Ég hef lesið gríðarlega mikið af alls kyns helfararlitteratúr og ég veit ekki hvort ég hef lesið neitt jafn skelfilegt og verstu kaflana í þessari bók. Einhvern veginn var líka hryllilega óþægilegt að fara úr S&M sársauka-sem-hobbí-leiðrar-yfirstéttar í Sögunni um O yfir í raunverulegra ofbeldi í Sögunni um S – þar sem kona er í næstum alveg eins aðstæðum, nema bara gegn vilja sínum. Það var næstum einsog manni þætti O vera að skopast að kynsystur sinni S.

Both Ways is the only way I want it – Maile Meloy – bandarísk – 22. maí

Ég keypti þetta smásagnasafn á rafbók og bætti svo við 4 dollara aukagjaldi til þess að fá hljóðbókina með. Mér fannst hún fín meðan ég var að hlusta og lesa, en einhvern veginn er hún samt óeftirminnileg. Ein af þessum bandarísku „gæðavörum“ sem bara rennur inn og út – ég veit ekki, kannski eru snertipunktar manns við bandarískan kúltúr færri en maður ímyndar sér. Kannski takmarkast áhugi manns við önnur svæði – ég man ekki einu sinni hvar þessar sögur gerðust, vel að merkja, í smábæjum mest minnir mig. Ég man eftir því að hafa hugsað að þetta væri gott þótt þetta væri dálítið ritlistarlegt – skrifað af of mikilli sjálfsstjórn, of stabílt, einsog lesandanum væri aldrei treyst nógu mikið til að höfundur leyfði sér smá útúrdúra, smá agnúa, eitthvað handfast, eitthvað klikkað, óvenjulegt, frumlegt. Og kannski er það einmitt þess vegna sem þetta er svona óeftirminnilegt, maður rann í gegnum safnið einsog hnífur í gegnum bráðið smjör og mætti aldrei neinni mótstöðu.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png