Vetur, veira og Leadbelly

Hið daglega

Veturinn hefur smám saman verið að smokra sér aftur inn í líf okkar. Í Västerås var komið vor. Ekki þar fyrir að snjófölin sem þekur göturnar þætti ekki merkileg á Ísafirði – klukkan er orðin níu að morgni og hún er varla sjáanleg lengur. En það er skítakuldi og hefur verið í nokkra daga. Þetta er allt öðruvísi kuldi líka, svona sléttukuldi – og þurr. Hér er varla nema 20% raki í húsum, hef ég séð á rakamælinum í gítartöskunni minni. Ég geri varla annað en að klóra af mér skorpna húðina.

Við erum með gest næstu vikurnar. Besti vinur Arams, Halli Golli Hála Halla Goll (Ingólfur gat Hálfdán sem gat Hálfdán sem gat Hálfdán Ingólf) er kominn í heimsókn frá Íslandi. Þeir tala viðstöðulaust. Mikið af því er á ensku, af því að tíðin er þannig, og vegna þess að Halli Golli átti heima í Bandaríkjunum í eitt og hálft ár – og þangað heimsótti Aram hann rétt áður en kórónaveiran brast á. En stærstur hluti af því sem þeim fer á milli er samt sérnöfn á pokémonum.

* * *

Hálfdán: „Siri – how do you pronounce “seismic toss”?“

Siri: „Here’s what I found.“

Aram: „Pabbi – hvernig pronánsar maður “seismic toss”?“

Pabbi: „Maður pronánsar það „hvernig ber maður fram““

Aram: „Ha?“

* * *

Fréttir frá Svíþjóð

Kórónaveiran geisar bara og geisar í Svíþjóð. Annarri bylgju var varla lokið þegar þriðju var lýst yfir. Eða þannig – ég veit ekki hvort það er búið að lýsa neinu yfir formlega, en það er búið að segja að hún sé í startholunum. Og Tegnell hefur sagt að hún verði hugsanlega verri en fyrstu tvær.

Ríkisstjórnin var að lýsa yfir vilja til að tvöfalda það fjármagn sem lagt er í kaup á bóluefni – dýrt, segja þau, en ekki jafn dýrt og veiran er fyrir þjóðfélagið. Stundum er ég bara hissa á fréttunum og finnst einsog forsendurnar sem var búið að gefa upp séu bara kjaftæði. Ég hélt til dæmis að það væru bara allir að kaupa jafn mikið af bóluefni og þeir fengju afgreitt – verksmiðjurnar væru allar á fullu. Og svo væru einstaka djúspokar að yfirbjóða til að fá meira fyrr. En Evrópusambandsþjóðirnar væru saman í sínu yfirboði. Kannski eru Svíar þá að hugsa um að fara að yfirbjóða sjálfir.

Það var í fréttum líka á dögunum – og gagnrýnt – að Svíar hafa staðið gegn því að patent verði gefin frjáls svo þriðja heims þjóðir eigi hægara með að útvega sér bóluefni.

Frá áramótum hafa gilt harðari reglur í Svíþjóð en fyrr. Fyrst mátti ekki afgreiða áfengi eftir klukkan átta á kvöldin og svo urðu allir veitingastaðir að loka hálfníu. Það eru líka takmarkanir á fjölda fólks inni í verslunum. Ég átta mig illa á hlutföllunum í því – sérstaklega í minni búðum, sem mega sumar vera með 15 viðskiptavini og aðrar bara 2, án þess að ég sjái mikinn stærðarmun. En þetta er einhver hlutfallsreikningur – þannig getur ein matvöruverslun leyft 97 kúnna en önnur 94 kúnna. Ekki þar fyrir að ég hef bara einu sinni séð einhvern telja inn í búð – fyrir utan Systembolaget, þar er alltaf einhver að telja (nema þegar það er bókstaflega ekkert að gera).

Það er búið að sprauta milljón sprautum í landinu. Miðað við að hver þurfi tvær sprautur og það séu tíu milljón manns í landinu þarf þá að sprauta 19 milljón sinnum í viðbót. Mínus börn og unglingar reyndar, sem er ábyggilega slatti.

Meghan og Harry hafa verið mikið í fréttum hér einsog annars staðar. Mér sýnist Svíar heldur skeptískari á parið en Íslendingar. Ekki að þeir taki afstöðu með krúnunni – sem royalistarnir í landinu gera þó áreiðanlega, en ég er meira að hugsa um krítíska vinstrimenn – heldur virðast þeir einfaldlega sínískari gagnvart ameríska sensasjónalismanum en Íslendingar. Mér finnst þetta allt áhugavert einsog manni getur bara gert þegar manni stendur eiginlega alveg á sama. Það er eitthvað í þessari baráttu hinna grátklökku ameríkana og hinna samanbitnu breta sem kjarnar og undirstrikar (stórveldis)eðli beggja. Oprah er auðvitað drottning í Bandaríkjunum, Meghan afkvæmi hennar samkvæmt einhverri frægðarlógík, og Archie er þá erfinginn sem mun með tíð og tíma sameina konungsveldin tvö.

En ég ætlaði ekki að segja fréttir frá Bretlandi. Afsakið.

Næstkomandi laugardag velja Svíar framlag sitt í Eurovision eftir ótal undanúrslitakvöld. Það er reyndar mjög fyndið að í hverjum þætti voru sjö lög – af þeim komust tvö beint áfram og tvö fóru á „andra chans“. Sem þýðir að minna en helmingur var dæmdur úr leik í hverri umferð. Það voru fjögur þannig kvöld þar sem hópurinn var skorinn niður úr 28 í 16 lög. Þá var komið að „andra chansen“ – sem var síðasta laugardag – og það er einvígiskvöld þar sem þessi átta lög sem komust á séns eru pöruð saman og látin mætast. Fjögur eru úr leik og fjögur fara áfram.

Eftir fimm kvöld er þá búið að fækka lögunum úr 28 í 12 – en á laugardag er bara einn sigurvegari. Þetta er mikil pródúksjón og margt skemmtilegra í dagskránni en lögin sjálf – mér skilst líka að forkeppnin hérna sé umtalsvert vinsælli en keppnin úti.

Ég get ekki sagt að ég sé yfir mig heillaður af neinu framlagi. Aram hélt grjótharður með þungarokkssveitinni Lilla syster sem var send heim úr andra chansen – hann trylltist fyrir framan sjónvarpið. Og raunar skiljanlega því sá sem vann einvígið var alveg framúrskarandi glataður – þótt textinn væri svolítið skemmtilega lélegur („Viva la forever / you and me together / when the sun goes down we keep on bailá bailá“).

Það er helst að Dotter heilli mig. Sá sem er sigurstranglegastur er samt maður sem heitir því óheppilega nafni „Tusse“ – ég reikna með að það verði 20 sekúndna töf á Gísla Marteini ef hann þarf að kynna hann í aðalkeppninni.

***

Blúsplata vikunnar

Blúsplata vikunnar er safnplatan Black Betty með Leadbelly.


Huddie Ledbetter – þekktur sem Leadbelly – fæddist 1888 og er sennilega sá fyrsti af köntríblúsurunum til þess að slá í gegn þegar sú stefna var að öðlast uppreisn æru á árunum í kringum seinna stríð. Hann hafði leikið með Blind Lemon á þriðja áratugnum en ekki náð áheyrn svo heitið gæti – sérstaklega ekki í samanburði við Blind Lemon – en svo döluðu vinsældir þessarar tónlistar og það hallaði heldur undan fæti hjá okkar manni, sem leiddist á glapstigu og drap á endanum mann.

Þjóðlagasafnarinn John Lomax fann hann í fangelsi þegar hann var að safna vinnusöngvum í byrjun fjórða áratugarins – fangelsin voru víst langbesti staðurinn til að taka upp vinnusöngva blökkumanna vegna þess að yfirmenn á plantekrum voru ekki par hrifnir af því að það væri verið að trufla mennina við vinnu. Hann vakti strax nokkra athygli og þegar hann var laus úr grjótinu fór hann að spila fyrir fína fólkið í New York á vegum Lomax. Svo kom upp eitthvað ósætti milli þeirra vegna peningamála – Leadbelly kærði Lomax og vann – og þá var konan hans umboðsmaðurinn hans í einhvern tíma. Það er á þeim tíma, 1937, sem það birtist fræg grein í Life Magazine – sem vakti þannig athygli á honum að varla varð aftursnúið. „Bad Nigger Makes Good Minstrel“ var fyrirsögnin – þar birtist mynd af konunni hans og svo nærmynd af höndum Leadbelly að spila á tólf strengja gítar, með myndatextanum: „These hands have killed a man“.

Leadbelly átti nokkur lög sem gerðu það gott meðan hann var á lífi en var kannski oft meira „fyrirbærið“ – blökkumaðurinn og morðinginn sem syngur einsog engill – hann kom oft fram í fangabúning og gerði talsvert úr bakgrunni sínum. Hann átti ekki miklum vinsældum að fagna meðal almennra blökkumanna í Harlem en hins vegar talsverðum í kreðsum tónlistaráhugamanna – hvítra og svartra – og eftir að sonur Johns Lomax, Alan Lomax, tók við umboðsmennskunni lék hann mikið með Josh White, Sonny og Terry, Woody Guthrie og Pete Seeger og fleirum í þeirri kreðsu folk-tónlistarmanna og róttæklinga.

Skömmu eftir að hann lést árið 1949 tóku The Weavers upp lag hans Goodnight, Irene og áttu ofsa-smell sem vakti almennari athygli á honum og verkum hans. Á næstu áratugum voru svo ótal laga hans leikin af hvítum, vinsælum tónlistarmönnum – t.d. varð breska skiffle-tónlistin bókstaflega til upp úr útgáfu Lonnie Donegans af Rock Island Line. Black Betty varð þekkt með Ram Jam. Cotton Fields þekkja allir Íslendingar í útgáfu Árna Johnsen – Kartöflugarðarnir heima – og mín kynslóð táraðist yfir Where Did You Sleep Last Night sem Nirvana spiluðu á MTV-Unplugged tónleikum sínum (og raunar tárast dóttir mín yfir því líka – það er í miklu uppáhaldi). Mikið af lögum hans voru reyndar þjóðlög sem enginn veit hver samdi – og meðal þeirra laga sem hann átti þátt í að koma á kortið voru Pick a Bale of Cotton, House of the Rising Sun, Bottle Up and Go og Take This Hammer.

Plata vikunnar inniheldur öll þessi lög og fleiri til á tveimur 180 gramma vinylskífum. Ég keypti hana á dögunum og hún kom í póstinum í gær frá Stokkhólmi. Ég átti fyrir eina gamla Leadbelly plötu – Leadbelly Sings Ballads of Beautiful Women and Bad Men / With the Satin Strings – þar sem er að finna eitt eða tvö lög sem eru líka hér, en er talsvert lúnari plata sem ég fann á einhverjum skranmarkaði. Það er unun að hlusta á þessa – þótt plötuspilarinn minn hérna sé reyndar óttalegt drasl (sérstaklega er hann lélegur ef tónlistin er mjög dýnamísk – kannski er eitthvað að honum, en ég veit ekki hvað það er, og ég keypti hann bara til að hafa eitthvað – ég er með mjög hógværar græjur heima reyndar, en þær eru ekki svona, ég geri engar sturlaðar hi-fi kröfur).

Lagið sem ég vel til sýnis af þessari plötu er samt ekki eitt af þeim frægari heldur lag sem ég hafði ekki heyrt áður og heillaði mig mjög þegar ég heyrði það nú.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png