Vetrargulrætur; Okfruman; Agnes Joy; Between Mountains; Hótel Transylvanía; Sermon; Motherless Brook

Ég hef verið duglegur að viða að mér bókum upp á síðkastið. Keypti nokkrar fyrir mánaðamót, þegar ég kom að utan, og er einhvern veginn bara búinn á því núna. Fjárhagslega, meina ég. Þetta eru einar sjö bækur sem ég hef keypt og það er bara nóg til að buga mann. Meðalverðið er kannski 5.500 – dýrasta 7.000 og ódýrasta um 4.000. Ég hef líka farið á bókasafnið núna og fengið tvær gefins frá forlagi (enda áhrifavaldur!) en ég þarf annað hvort að bíða með að kaupa fleiri eða reyna að gera einhverja skiptidíla með gömlu bækurnar mínar. Mig langar að lesa eins mikið úr flóðinu og ég kemst yfir en það stýrist sennilega héðan af mikið af því hvað er inni á bókasafninu.

Nema hvað.

***

Ef ég ætti að mæla með einni bók fyrir jólin, af þeim sem ég hef lesið, myndi það vera Vetrargulrætur eftir Rögnu Sigurðardóttur. Þetta er smásagnasafn – með sögum í lengra laginu held ég, um 50 síður hver. Þrjár þeirra fjalla um myndlistarkonur (og myndlistarsamfélagið, fagurfræði) á 20. öld, ein um leikskólastarfsmann í samtímanum og ein um blindan sveitarómaga á 18. öld. Þetta er kannski ekki frumlegasti eða mest brútal textinn – þeir sem hafa bara lesið Borg eftir Rögnu myndu sennilega verða hissa, en það er svo sem langt síðan hún skipti um stíl (einsog konan í smásögunni sem yfirgefur abstraktlistina fyrir hið figuratífa) – en hann er einhvern veginn gegnumlýsandi í viðkvæmni sinni, kraftmikill í tipli sínu. Ég er ekki viss um að það sé höfundur á Íslandi í dag sem „leynir jafn mikið á sér“ og Ragna – maður veit einhvern veginn varla hvar það gerist að sögurnar ná taki á manni, þetta er svo látlaust og í raun gerist svo fátt fréttnæmt, en svo alltíeinu er maður allur kominn í hnút. Kona sem vinnur á leikskóla missir sjónar á einu leikskólabarni og alltíeinu er það orðið að hálfgerðum gotneskum hryllingi – sveitarómagi fær perutré á heilann og einhvern veginn kjarnar það alla fátækt og utangarðsmennsku.

***

Þetta var góð bókavika. Okfruman er fyrsta ljóðabók Brynju Hjálmsdóttur, gefin út af Unu Útgáfuhúsi sem hóf feril sinn bara í fyrra, held ég, með endurútgáfu á endurminningum byltingarmannsins Hallgríms Hallgrímssonar. Kannski var það meira að segja bara í vor?

Allavega. Brynja er nú samt ekki ljóðelskum ókunnug. Hún hefur birt hér og þar í tímaritum, lesið upp úti um hvippinn og hvappinn og stýrt, ásamt Fríðu Ísberg, vinsælu ljóðapoddkasti.

Okfruman er óstýrilát bók – hefði hugsanlega mátt vera óstýrilátari en mér finnst það nú reyndar næstum alltaf, þegar ég á annað borð er kominn á bragðið. Ég er almennt á því að stærsti löstur ljóðskálda sé að pússa alla matta fleti og agnúa af ljóðum sínum svo stemningin verður meira einsog á marmaragólfinu í nýskúruðum banka en á vinalegri stöðum, þetta er krafan, hugmyndin um ljóðið sem þessa glansandi fullkomnun frekar en hina lífrænni og (aðmérfinnst) eðlilegri heild. Okfruman er blessunarlega laus við þetta – hún heldur utan um kaosið sitt, nostrar við það, beislar subbuskapinn án þess að ýkja hann. Æðisleg bók, æðisleg ljóð, æðislega uppsett (ég veit það er erfitt fyrir suma að lesa smátt letur, en mikið er það fallegt), æðislegar myndir og myndljóð.

***

Mér fannst Agnes Joy ekki jafn rosalega stórkostleg og öllum hinum sem voru með mér í bíó – en það er nú samt rými þar til þess að hafa fundist hún ansi góð enda áttu sumir hreinlega erfitt með andardrátt af hrifningu. Ég er reyndar farinn að venjast því að það komi varla út ný íslensk bíómynd án þess að helmingurinn af fólkinu í kringum mig – yfirleitt sama fólkið, aftur og aftur – lýsi því yfir að NÚNA sé íslensk kvikmyndagerð búin að slíta barnsskónum og NÚNA hafi verið búin til bíómynd sem slái öll met í fagurfræðilegum gæðum. Að því sögðu er Agnes Joy skemmtileg mynd og stemningin í henni skemmtilega öðruvísi – þótt ekki væri nema bara fyrir sögusviðið, Akranes, sem er alveg ofan í borginni án þess að vera í borginni. Að vísu er enn þarna klisjan um sollinn í borginni versus hreinlífið í sveitinni, sem íslensk kvikmyndagerð (og raunar útlensk líka) virðist seint ætla að hrista af sér. Söguþráðurinn er dásamlega mikið kaos (altso, hún fjallar um kaos, sagan er frekar línulega sögð og án mikilla hiksta) og leikur og tónlist eru góð. Mér fannst kvikmyndatakan kannski ekki endilega neitt frábær en kannski hef ég heldur ekkert vit á því og kannski geldur hún fyrir að síðasta íslenska mynd sem ég sá – Hvítur, hvítur dagur – er svo brjálæðislega vel tekin, það er hennar stærsti styrkur. Agnes og mamma hennar eru rosalega vel skrifaðir karakterar og Katla Margrét og Donna Cruz eiga frábæran leik. Þorsteinn Bachmann sem pabbinn var líka frábær – kannski ekki jafn frábær heilt yfir en svo gersamlega rústaði hann nokkrum senum (ég meina rústa jákvætt), til dæmis þegar hann er hress á fylleríi. Björn Hlynur var sannfærandi án þess að fara mikið umfram það og Króli skilaði sínu vel og hafði sína þægilegu nærveru og sjarma.

Eitt truflaði mig við söguþráðinn. Það er svolítið mikið reynt að pakka þessu saman í lokin og af og til eru útúrdúrar sem virka einsog pólitísk köll frekar en eitthvað sem eigi heima þarna. Það er ekki endilega alltaf galli – mér fannst til dæmis alltílagi að mamman lýsti sig andvíga því að fá til leiks starfsmannaleigur á vinnustað sínum. En það var fullmikið af því góða þegar hún hafði í endann búið svo um hnútana að það yrðu aldrei notaðar starfsmannaleigur – ég átta mig ekki einu sinni á því hvernig hægt er að búa svo um hnútana í kapitalísku þjóðfélagi og svo var augljóst á öllum senum af þessum vinnustað og fundum að mamman réði ekki neinu þarna. Svo bara alltíeinu réð hún öllu þegar hún var að hætta.

Eitt nittpikk: í byrjun myndarinnar er keyrt framhjá frystihúsi. Þar stendur lítill hópur kvenna í vinnslugöllum. Maður sér fyrir sér að þær eigi að vera úti í smók eða eitthvað álíka – kannski bara að fá sér frískt loft. En ég held það séu áreiðanlega 20 ár frá því það var tekið fyrir það að starfsfólk í matvælavinnslu færi út í göllum, með svuntur og hárnet og allesammen.

***

Önnur Katla. Between Mountains var að gefa út sína fyrstu breiðskífu – samnefnda sveitinni, sem ég held reyndar að sé bara Katla Vigdís, núorðið, Vernharðsdóttir, milli næstu fjalla í Súgandafirði. Eitthvað held ég reyndar að hún sé með af fólki sér til halds og trausts og þarf ekki alltaf að sækja það langt – bræður hennar eru báðir tónlistarmenn og pabbi hennar er bassa- og gítarleikari til hundrað ára úr hundrað hljómsveitum, hljóðmaður, eigandi Stuð ehf. og ég veit ekki hvað og hvað. Mér finnst einsog ég hafi séð það einhvers staðar á samfélagsmiðlum að þeir hafi eitthvað sessjónspilað á plötunni.

Lögin eru flest drifin áfram af annað hvort lyklum eða gítar – útsetningarnar eru ísmeygilegar, marglaga og stundum óvæntar án þess að hljóðfærin þvælist neitt hvert fyrir öðru. Mér er meinilla við að segja að þær séu „smekklegar“ af því „smekklegt“ er svo æðislega mikil klisja í tónlist (og ég er líka hrifinn af því sem er svolítið ósmekklegt) en sennilega eru þær einmitt smekklegar. Frábærir textar, frábærar melódíur. Það er líka klisja að nefna það en það er auðvitað algert rugl að Katla sé – ég held hún sé sautján ára. Og löngu búin að vinna Músíktilraunir, auðvitað.

Uppáhaldslögin mín eru fyrsta og síðasta – Open Grounds og What Breaks Me.

***

Kvikmyndaklúbbur unga fólksins horfði á Hótel Transylvaníu. Aino valdi og Aram var fjarverandi í hrekkjavökuveislu. Við höfum séð hana áður einhvern tíma. Í grunninn fjallar sagan um hinn ofverndandi föður – mann sem byggir mikinn kastala til að vernda dóttur sína fyrir hinu ókunna. Sem er auðvitað útlendur maður – afmeyjarinn, ástin eina. Pabbinn lærir svo að það er ekkert að óttast þótt litla stelpan hans verði fullorðin og vingast við útlenda manninn, tekur hann inn í fjölskylduna. Missir ekki dóttur heldur eignast son. Nema með vampírum og frankensteinum og þannig. Fínir sprettir en söguþráðurinn kannski doldið mikil klisja.

***

Une Misère sendu frá sér nýja plötu – Sermon. Sú á undan, 010717, hét 39 ára afmælisdeginum mínum. Sennilega er það útgáfudagurinn.

Ég sá sveitina spila á Aldrei fyrir nokkrum árum – þetta er eitthvert rosalegasta live-band sem ég hef séð. Krafturinn – sem er auðvitað undirstaðan í öllum metal – er engu líkur. Hann skilar sér að miklu, en ekki öllu leyti, á þessari plötu. Sennilega gæti maður komist nálægt því með því að stilla svo hátt að veggir fari að hristast en það er kannski ekki forsvaranlegt þegar maður á nágranna og svona. Ég er ekki viss um að Gylfi og Tinna tækju því neitt æðislega vel.

En þetta er klassametall af hörðustu tegund. Eftir því sem harkan í metal eykst verður samt alltaf erfiðara að halda hinu melódíska og/eða athygli hlustandans sem sækist eftir fleiru en bara orkunni (á tónleikum heddbangar maður og lendir í trans – heima hjá sér er maður yfirleitt að sinna öðru samtímis, einsog að blogga). Une Misère er ekki mjög melódísk sveit en þeim mun rytmískari – það er í taktinum, taktskiptum, keyrslu og slökun, sem maður fær kikkið sitt svona heima með heddfónana. Ég sá á samfélagsmiðlum að margir féllu fyrir henni alveg strax í fyrstu hlustun en ég var ekki almennilega kátur fyrren í annarri og þriðju hlustun – kannski vegna þess að ég hafði eiginlega ekkert hlustað á fyrri plötuna og hafði miklar væntingar eftir þessa tónleika um árið.

Sermon og Between Mountains komu út sama dag – 1. nóvember. Og þann sama dag kom líka ný plata frá Grísalappalísu, sem ég er bara rétt byrjaður að hlusta á en virkar ekki minna frábær (sennilega meira um það í næstu viku). Rosalegur dagur fyrir íslenska tónlist.

Besta lagið á Sermon – hingað til – finnst mér vera Burdened-Suffering.

***

Ég fór í bíó á Motherless Brooklyn. Ísafjarðarbíó bauð mér og Nödju frítt og gaf okkur meira að segja popp og kók með því. Ekki vegna þess að ég sé áhrifavaldur, sem ég er samt, heldur vegna þess að ég þýddi bókina sem myndin er byggð á. Það var að eigin frumkvæði og hún átti upphaflega að koma út hjá forlaginu Traktor, sem Snæbjörn Arngrímsson hafði ráðið mig til að sjá um – sennilega í leit að einhverjum Nýhilljóma (þetta var 2005, Nýhil var sjóðheitt). En samskiptin á milli okkar Snæbjörns voru alls ekki góð, allt fór í rugl og bókin kom aldrei út hjá Traktor – sem gaf bara út eina bók, Áferð, fyrstu skáldsögu Ófeigs Sigurðssonar, ekki síður frábæra bók, sem seldist ábyggilega í 60-70 eintökum. Salan hjá Ófeigi hefur svo bara aukist, held ég. En þó salan hafi verið svona góð dugði það ekki til – kostnaðurinn við þýðinguna á Motherless Brooklyn var of mikill og það jafnt þótt ég hafi hlunnfarið sjálfan mig til þess að geta komið þessu í verk og borgað mér langt undir taxta. Og þar sem bókin kom ekki út var auðvitað engin innkoma af henni. Peningarnir voru búnir og Traktornum var lagt.

Bókin kom svo út tveimur árum seinna, 2007, þegar við Snæbjörn vorum báðir fluttir til Skandinavíu og Agla, sem nú er með Angústúru, og Guðrún, sem nú er með Benedikt forlag, höfðu tekið við Bjarti. Long story short þá var henni svona bærilega tekið af kaupendum – fór held ég út í einhvern bókaklúbb – og var svo til uppseld þegar ég fékk Íslensku þýðingarverðlaunin fyrir hana 2008. Hún var ekki endurprentuð þeirra vegna, enda held ég að þau verðlaun skipti litlu fyrir sölu, og ekki heldur núna í tilefni myndarinnar (sem fær ekki nema hlandvolga dóma) og ég hef ekki séð hana nema örfáum sinnum í Góða hirðinum – þar sem ég „hirði“ (ho ho) alltaf eintak ef ég sé. Og gef einhverjum.

Ég var ekki á landinu og ekki í Skandinavíu þegar verðlaunin voru afhent, heldur í Bandaríkjunum á ljóðahátíð. Mamma fór til forsetans til að taka við skjalinu en ég mælti mér mót við höfund bókarinnar, Jonathan Lethem, á kaffihúsi í Brooklyn. Ég man aðallega að ég var mjög vandræðalegur og afar þunnur eftir mikið gill kvöldið áður – eftirpartí eftir múm-tónleika þar sem ég sá FM Belfast spila í fyrsta sinn og við Valur Brynjar enduðum á trúnó með einhverjum desert storm hermanni. En Lethem var hress og skemmtilegur, sem og konan hans og ungabarn þeirra, og sagði mér að nú færi að styttast í boðaða kvikmynd Edwards Norton, þetta væri bara allt að gerast. Svo leið og beið og leið og beið og ég gúglaði þessu alltaf annað veifið en var steinhættur því þegar treilerinn bara birtist á kvikmyndatjaldinu einhvern tíma í vor.

Myndin einsog bókin fjallar um munaðarlausa einkaspæjarann Lionel Essrog, sem þjáist af tourettes. Lærifaðir hans, Frank Minna, er skotinn í upphafi myndarinnar og deyr og Lionel fer á stúfana til að komast að því hvað hafi gerst – einsog við er að búast kemur ýmislegt upp úr krafsinu. Ég man ekki til þess að bókin sé nákvæmlega tímasett en sennilega gerist hún í nýlegri fortíð – og kemur út 1999 – nokkurn veginn í samtímanum. Hins vegar er frásögnin í harðsoðna reyfarastílnum – noir – ofan í tourettíska kæki Essrogs sem setja mark sitt á bæði stíl, uppbyggingu, framþróun sögunnar og auðvitað persónuleika Essrogs. Norton færir söguna aftur til sjötta áratugarins, sem er þá rétt períóða fyrir noirið, en missir þar með þessa skemmtilegu spennu sem er á milli sagnamátans og sögutímans. Þá blandar Norton líka mikið inn alls kyns non-fiction um verktakaspillingu í New York. Í stað þess að hvíla á tourettinu sem myndlíkingu fyrir mannshugann og samfélagið – þessu hvernig rafstraumarnir sem þeytast um hausinn á okkur hjálpa okkur bæði að skipuleggja okkur og sjá skýrt og þvælast fyrir okkur og trufla okkur í senn – lætur Norton söguna hvíla á frekar beisik pólitískri allegoríu. Maður sér það vel ef maður kíkir á dóma um myndina annars vegar – sem rekja samsærisglæpaplottin skilmerkilega – og um bókina hins vegar, sem nefna þau ekki einu orði og tala bara um persónu Lionels.

Það er margt vel gert þarna. Norton fer sjálfur mjög varlega í túlkun sinni á Lionel – sem er í senn smekklegt og skemmtilegt og sennilega betra í woke-samfélagi sem horfir ströngum augum á ófatlaðan mann í fötluðu hlutverki, og bókstaflega rangt (ef maður gengur út frá bókinni). Lionel bókarinnar líður miklu, miklu meira af sínum sjúkdómi en Lionel myndarinnar. Lionel myndarinnar hefur auðvitað ekki sama aðgengi að innri mónólóg og Lionel bókarinnar og þarf þess vegna stöðugt að vera að útskýra hugsanir sínar, sem er eitthvað sem Lionel bókarinnar ræður nánast ekki við – allt sem hann gerir út á við markast af sjúkdómnum, en við sem sjáum inn í höfuðið á honum vitum að þar virkar sjúkdómurinn allt öðruvísi, þar ræður Lionel sjálfur ríkjum og hugsanir hans þjóna honum, þar gerir sjúkdómurinn hann að ofurhetju, ofurgreinanda. Í myndinni er tourettið miklu veikara en að sama skapi kannski eðlilegra – ég veit það ekki (tourette birtist á ólíkan hátt, hjá mörgum verður maður varla var við það nema maður viti af því).

En þetta er vel leikið. Tónlistin er skemmtileg. Myndatakan truflaði mig oft – oft fannst mér hún of nálægt leikurunum. Og ég hafði auðvitað æðislega gaman að fá að rifja upp Lionel Essrog, sem ég eyddi eitt sinn svo miklum tíma með – þótt mér hafi þótt bókin miklu betri.

***

Kokkáll eftir Halldór Erfð… nei djók, Dóra DNA, er frábær bók. Það vantar reyndar titilinn framan á hana, hefur ábyggilega bara gleymst. Sagan hnitar fimlega í kringum væntingar samfélagsins til karlmanna og væntingar margra karlmanna til sín sjálfra – hún afhjúpar marga hluta þessa brandarasamfélags sem við lifum í, innihaldsleysið og ruglið, minnir á einhverja svona Fight Club eða American Psycho stemningu, neysluhyggjan og greddan, þunglyndið yfir því að eiga allt og hafa aldrei neinar helvítis áhyggjur af neinu nema ruglinu sem maður býr til sjálfur. Já og svo er hún bullandi rasísk. Forsendan í henni – hugmyndin sem rammar hana inn og pönslænið sem hún endar á – er einsog í einhverjum cringe-brandara frá því anno 1993. Svona negri gengur inn á bar dæmi. Ég er rosa hissa að Dóri sé ekki hið minnsta canceled – ekki séð svo mikið sem píp einu sinni frá æstasta fólkinu á Twitter (og vel að merkja mótfallinn öllu svona canceli sjálfur, listaverk eru flóknari en þetta, þau eru staður til að hugsa á og hugsa um – en það er líka áhugavert þetta með frípassana).

Í miðri bók fór ég í mat hjá vinum mínum, bandaríkjamönnum, og ég fór eitthvað að tala um klisjuna að vestfirðingum þætti svo gaman að stuða og vinur minn hélt yfir mér langa ræðu um hvernig allir voru alltaf að segja n***ah við hann, hvað þetta væri með íslendinga og þurfa alltaf að segja n***ah í tíma og ótíma, og ég rifjaði upp álíka sögur frá Birni Kozempel, þýskum vini mínum, sem sagði að Íslendingum sem væru búnir að drekka meira en tvo bjóra þætti alltaf æðislega sniðugt að ögra honum með hitlerskveðjum, fingraskeggjum og helfararbröndurum. En allavega. Það rennur alveg nokkrum sinnum á ljóðmælanda Dóra svona n***ah æði.

Svo ég útskýri það aðeins þá er nöfin sem bókin snýst um kynferðislegar fantasíur um svartan mann – bæði hugsanir og gerðir – og hugmyndir aðalsöguhetjunnar um þennan mann (sem er mjög mikið stand-in fyrir „svarta manninn“ sem slíkan – hann fær einhverja persónulega eiginleika en stígur aldrei út úr fantasíuvíddinni) markerast af ópróblematíseraðri upphafningu, öfund, blæti, hatri o.s.frv. Að því sögðu er ekki beinlínis sanngjarnt að gera afstöðu aðalsöguhetjunnar að afstöðu bókarinnar (hvað þá afstöðu Dóra sjálfs) – en það er heldur ekki hægt skauta bara framhjá þessu grundvallaratriði í bókinni sem sniðugu plot-device, og ekki hægt að próblematísera eða skoða þetta án þess að nefna það. Og án þess að nefna það réttum nöfnum. Viðtökur einsog „ljómandi skemmtilegt að lesa þessa bók“ (Egill í Kiljunni) ná því einfaldlega ekki.

En að því sögðu er bókin samt frábær, einhvern veginn. Hún er miklu betur skrifuð, beittari, en mikið af þessum samfélagskrítísku djammsögum sem maður les – og það er samtímis í henni meiri mýkt og lífrænni bygging. Aðalsöguhetjur bókarinnar eru bæði ljóslifandi og í sjálfu sér ótýpískar, þótt staða þeirra í samfélaginu sé kunnugleg – séu þær klisjur þá sigrast Dóri á klisjueiginleikum þeirra, þær verða einstakar. Eins ósennilegur og söguþráðurinn er – ekki í einstökum atvikum, heldur að þetta raðist allt svona saman, tårta på tårta segir maður á sænsku – þá er hann samt aldrei þvingaður. Það er rosa gott múv í lokin þegar tvívíðasta persóna bókarinnar – Hrafnhildur – reynist loks alls ekki tvívíð, grunn eða nærri jafn mikið fífl og maður heldur fram að því, heldur er aðalsöguhetjan bara alltof upptekin af sjálfri sér til að fatta hvað er að gerast í sjálfskaparvítinu sínu. Snúningurinn á sannleikanum um Tyrone var ekki jafn góður – en sennilega merkingarbær upp á allt hitt og óþarfi að líta framhjá honum.

***

Gítarleikari vikunnar er Reverend Peyton úr Reverend Peyton’s Big Damn Band.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png