Venjuleg bloggfærsla af gamla skólanum

Í janúar í fyrra settist ég niður til að skrifa bók. Ég ákvað að skrifa bók án þess að velta  mikið fyrir mér hvert hún ætti að fara eða um hvað hún ætti að vera. Í stað þess að leggjast í ítarlega heimildarvinnu – einsog t.d. þegar ég skrifaði Hans Blæ eða Illsku – byrjaði ég bara að skrifa nánast í þeim sporum sem ég var. Karlmaður á mínum aldri – en ekki ég – sat við morgunverðarborðið á heimili mínu. Hann borðaði ekki morgunmatinn minn (ég fæ mér alltaf seríos) og það var ekki janúar. Hann var eirðarlaus og hafði lítið að gera og var dálítið skringilega þenkjandi, uppburðarlítill en með hugmyndir um veruleikann sem voru svolítið á reiki. Smám saman áttaði ég mig á því að ég hafði hitt þennan mann áður, skrifað hann áður, einu sinni var hann í bók sem heitir Eitur fyrir byrjendur. Svo fór ég í vinnuna dag eftir dag einsog maður gerir og sennilega kláraði ég fyrsta uppkast í mars. Annað uppkast í Hondúras í sumar. Sendi frá mér lokagerð einhvern tíma í lok nóvember. Í desember valdi ég kápu. Á föstudag las ég lokapróförk – lét breyta einu „í-i“ í „á“, það voru allar breytingarnar – og nú geri ég ekkert fyrren bókin kemur til landsins með skipi. Sennilega um miðjan febrúar. Líklega held ég ekki einu sinni útgáfuhóf fyrren um miðjan mars og ég er að hugsa um að halda jafnvel bara matarboð heima hjá mér í staðinn fyrir að standa í einhverju kokteilveseni. Á einhverjum tímapunkti hvarflaði reyndar að mér að stofna bara blúsband og halda tónleika í staðinn fyrir útgáfuhóf en það er að verða fullseint.

Planið var síðan að byrja strax á næstu skáldsögu núna í janúar. Ég á fyrstu síðurnar að vísu tilbúnar. Ég skulda líka grein í Skírni. Er búinn með þriðjung úr strætóljóðabók. Á teikniborðinu er sömuleiðis safn ljóðaþýðinga – aðalvinnan þar væri að fara í gegnum lagerinn og velja – og þýðingar á völdum ljóðum eftir Gertrude Stein og Alfabet eftir Inger Christensen. Sem er meiri vinna – sérstaklega Inger, enda danskan mín bara rétt svo alltílagi (en ég er með alls konar þýðingar á önnur mál til samanburðar og hjálpar).

Svo sit ég bara við tölvuna og gúgla gítarpikköppum, nestisboxum fyrir börnin og einhverju hollu til að hafa í kvöldmatinn. Ég hef áhyggjur af stríðinu í Írak og Íran. Kvótakerfinu. Yfirvofandi búferlaflutningum til Svíþjóðar næsta haust (tímabundið, í ár). Byggðamálum. Stari út í loftið. Ég hef lesið lítið og hægt síðustu vikur. Kláraði síðast bók um blúsinn. Byrjaði á þremur skáldsögum og leist og líst mjög vel á þær allar – en einni þurfti ég að skila á bókasafnið áður en ég komst langt í henni, annarri týndi ég innanhús um hríð og þriðju hef ég bara ekki haft eirð í mér til að lesa – af því söguheimurinn er svo sterkur. Ég bara sit hérna í mínum heimi, ídeósynkratískum heilanum á mér, og þoli illa að vera annars staðar, ekki beinlínis leiður en mjög, mjög hægur.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png