Uppgjöfin eða bloggið sem át sig sjálft

Það hellist reglulega yfir mig einhvers konar vantrú á tilgang tjáningar og yrðinga – þegar allt sem maður gæti haft um nokkuð að segja virðist falla í tvo flokka (sem skarast og skarast): 1) Einfaldanir. 2) Of almennar yrðingar.

Þannig gæti ég til dæmis haldið því fram að atriði Reykjavíkurdætra í Vikunni og útganga Ágústu Evu (svo gripið sé í handhægt málefni úr deiglunni) væri einhvers konar feminó-marxískur valdgjörningur – ég meina, að troða dildóinu á sér upp í lærling Hannesar Hólmsteins og fyrrum vonarpóst Sjálfstæðisflokksins og skipa honum að sjúga á sér snípinn – halló?! – og horft þá fram hjá því sem séra Hildur Eir benti á, að atriðið er í sjálfu sér ekki róttækara en hvert annað þorrablótsflipp. Þá myndi ég enn fremur horfa fram hjá því að í atriðinu fólst gróf kynferðisleg áreitni – ekkert djók ekki frekar en nýlegar ásakanir á hendur fyrrum ritstjóra Reykjavík Grapevine og gítarleikara í Reykjavík! (hverra dætur dæturnar væntanlega eru) heldur grafalvarlegur glæpur sem ætti helst að fara fyrir dómstóla. Ég meina, að troða dildóinu á sér óboðin og ber að neðan upp á fólk og garga á það að sjúga á sér snípinn? Halló bátar, halló skip. Ef það er ekki kynferðisleg áreitni veit ég ekki hvernig hún lítur út.

Þetta væru sem sagt einfaldanirnar. Nokkrar af mörgum sem hver um sig er í mótsögn við að minnsta kosti eina aðra. Á hina höndina gæti ég t.d. sagt að Reykjavíkurdætur væru feit pæling sem gengur eða gengur ekki upp, frábær músík en ömurlegt rapp, ömurlegt rapp en frábær músík, geðveik myndlist en glötuð tónlist, geðveik tónlist en glötuð myndlist, hópeflismeðalmennskan uppmáluð og fullkomið og algert uppbrot í íslenska menningu, stelpur að brjóta sér leið gegnum strákamúr eða stelpur að beygja sig fyrir heimsmynd drengja og svo framvegis og svo framvegis. Flest er svolítið satt og svolítið rangt.

Ég gæti einbeitt mér að Ágústu Evu. Kannski var hún bara með í ráðum til að auglýsa dæturnar, kannski er hún bara bitur að vera ekki lengur sjálf vaxtarbroddur gegnumbrotsins, sú sem afhjúpar borgarastéttina, heldur Lína Langsokkur og dómari í einhverjum Idolsirkus, kannski er hún síðasti varnarmaður íslenskrar siðmenningar sem hefði annars leyst upp í eina allsherjar orgíu og allir endað með fjölónæman lekanda og heilt leikskólaband af lausaleikskrógum, ef hún hefði ekki sagt nei, hingað og ekki lengra, það verður ekkert strappon í þessum fjölskylduþætti. Og kannski er hún bara geðveikt töff að standa með sjálfri sér eða alveg glötuð að fatta ekki #byltinguna.

Einhvern veginn er vandamálið við allar yrðingar um málefni deiglunnar meðal annars krafan um skýra og algera afstöðu. Í heimi þar sem hin opinbera samræða á sér stað með leifturhraða og allir byrja á að grafa sér skotgröf, ýmist til að skýla sér því þeir nenna ekki eða þora að taka afstöðu, eða til að búa sig undir áhlaup og loftárásir, er sá fyrstur til að tapa sem gefur á sér einhvern höggstað og gengst við því að líklega sé veröldin fyrst og fremst margslungin. Því í margslunginni veröld grípur okkur athafna- og afstöðuótti – hvernig á maður að þora að segja neitt nema hið allra almennasta ef veröldin er full af mótsögnum? Það væri ófyrirgefanlegur dólgsháttur. Við gætum þá ekkert fordæmt og engu fagnað nema vera tilbúin til þess að gera það hreint og skýrt – án þess að gefa mótsögnunum, sem við vitum að eru til staðar í öllu mati, allri skoðun, nokkurt pláss til að vaxa.

Einsog það sem er frábært þurfi að vera bara frábært og það sem er glatað sé bara glatað.

Stundum gæti líka verið ágætt að gangast við því að sumir gallar séu óaðskiljanlegir einhverju sem er frábært – þannig er t.d. óhjákvæmilegt að í samfélagi þar sem frjálsræði ríkir í kynferðismálum að þar verði einhverjir fyrir áreiti, þá stendur valið (í einfölduðum skilningi) milli bælingar og öryggis á aðra höndina og frjálsræðis og óöryggis á hina. Eða að okkur sem einstaklingum sé sálfræðilega illmögulegt að vera í senn siðferðislega réttlát og hvatvís og kraftmikil, í senn auðmjúk og grjóthörð. Og að það geti fylgt því bæði kostir og gallar að vera eitt frekar en hitt.

Ég veit ekki hvort þetta hefur með félagsmiðlana að gera – þennan starfsmáta hugsunar sem skilur ekki eftir neitt rými fyrir íhugun, þar sem eru bara afköst og ekkert tómarúm, ekkert olnbogarými. En mér sem sagt dettur það oft í hug.

En nú er ég auðvitað farinn að láta einsog það sé til nokkurs að tjá sig. Kannski er það bara úreldur lífsmáti. Ég þarf eiginlega að fara að lesa meiri Wittgenstein.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png