Upp úr kófinu

Á mínu heimili er ekki alltaf ljóst hvað við er átt þegar talað er um að treysta eða hlýða yfirvöldum. Það er ekki víst að sóttvarnarlæknir í Svíþjóð sé alltaf samhljóða sóttvarnarlækni Íslands. Og einsog við vitum eru Svíar 30 sinnum fleiri og þar með tölfræðilega líklegri til að hafa meira framúrskarandi sóttvarnarlækni. Ég ver samt alltaf íslenska staðla. Það er minnimáttarkenndin.   Ég hef 30 sinnum minna vægi og verð að gera mig stóran með öllum ráðum.

En í sjálfu sér er þetta auðvitað hollt. Og raunar eru sænski og íslenski sóttvarnarlæknirinn frekar samhljóma núna – og á annarri línu en en danski og norski. En þetta sem sagt þvingar mann til að muna að sérfræðingar eru ekki endilega alltaf sammála. Fólk getur verið með allar tölur á hreinu og alla menntunina og samt komist að ólíkum niðurstöðum og oft munar kannski mjög litlu á því hvort maður bannar samkomur eða ekki. Ég veit ekki hvar maður staðsetur það á Dunning-Kruger skalanum.

Ég held – besservisserinn sem ég er – að ákvarðanir séu sjaldan bara réttar og rangar. Flestar þeirra eru svolítið rangar og svolítið réttar.  Og aldrei jafn mikið réttar og rangar í senn og við aðstæður einsog þessar.

Aðspurður um hvers vegna Svíar lokuðu ekki öllu einsog Norðmenn og Danir sagði sænski sóttvarnarlæknirinn að hann hefði ekki séð tölurnar einsog þær litu út hjá þeim, en það mætti ekki heldur gleyma því að svona ákvarðanir væru bæði vísindalegar og pólitískar. Og ég held hann hafi ekki meint það neikvætt – einsog Helgi Hrafn gerir í pósti sem ég sá vitnað í áðan – þetta er líka pólitík. Það er til einskis að draga úr skaðanum sem kórónavírusinn getur valdið með því að valda öðrum eins skaða af einhverju öðru. Mér finnst lélegt af fólki að tala niður efnahagsaðgerðir – mín vegna má sannarlega rífast um hvernig þær eru gerðar og hverjum þær þjóna en það er fáránlegt að láta einsog efnahagurinn eigi sér stað í einhverju tómarúmi og það sé bara í lagi að láta hann gossa. Fátækt er eitt alvarlegasta viðfangsefni samtímans – hún varðar líf og dauða, ekki síður en vírusar – og hrun í ferðaþjónustu getur til dæmis bara þýtt mjög mikið atvinnuleysi hjá alls konar láglaunafólki – ekki síst pólsku verkafólki í ferðaþjónustu.

En svo er pólitíkin í þessu líka fleira. Í gær sagði ég við Nödju að það yrði áreiðanlega enginn skóli í næstu viku. Og með þeim rökum að þótt það gerði kannski ekkert gagn þá yrði á endanum að „gera eitthvað“ bara til að róa allt fólkið sem segir að það sé ekki verið að „gera neitt“. Því óróleikinn fæðir panikkið og panikkið getur drepið.

Það rættist þannig að það er enginn skóli hjá Nödju í næstu viku – hún kennir í menntaskólanum. En krakkarnir okkar verða væntanlega áfram í skóla, enda fullyrða sóttvarnarlæknarnir okkar Nödju báðir að grunnskólar séu bara ekki smitbæli svo neinu nemi og það valdi of mikilli röskun að loka þeim – og röskunin, að við brjótum upp rútínur og mynstur, geti einmitt valdið miklu meira og alvarlegra smiti.

Sjálfur hef ég verið mjög mikið heima hjá mér í ár. Einhvern veginn æxlaðist það bara þannig í janúar – ég var heimakær eftir jólin. Og ábyggilega í desember líka. Svo lagðist ég í mánaðarlanga flensu. Skrifstofan stóð meira og minna auð þar til á mánudaginn í þessari viku. Og svo er verið að mælast til þess að maður sé samt heima. Ég deili ekki skrifstofu með mörgum en samt nokkrum. Svo er spurning hvernig verður hjá Nödju – ekki endilega mjög pródúktíft að vera bæði heima. Alltaf bara eitthvað að metast um gæði sóttvarnalækna.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png