Untitled

Ég er ennþá veðurtepptur. Þetta er rosa mikið limbó, að vera in transit, mér finnst ekki vit að gera nokkurn skapaðan hlut af viti. Helst vildi ég bara stara á vegg þar til verður flogið.

***

Ég tek mig til á svona tveggja-þriggja mánaða fresti og skoða lesturinn á Starafugli. Smellina, réttara sagt, þótt ég reikni reyndar með að þar sé bærilegt hlutfall á milli – bærilegra en í ýmsum dólgafréttum sem fjalla ekki um það sem þær virðast í fyrstu, til dæmis. Mig langar að fólk lesi hann meira. Finnst efnið eiga það skilið – líka greinarnar sem gera fólk reitt (og fá mestan lestur, reyndar). Venjulegur lestur á grein eða ljóði er á bilinu 100 til 400 lesendur. Stakar færslur geta svo rokið upp. Týpísk „viral“ færsla tífaldar þennan lestur og mest lesna færslan – sem fylgdi frítt niðurhal af nýju lagi Prins Póló – náði um sjö þúsund lesendum.

***

Að rýna í þetta er einmitt svolítið einsog að stara á vegg.

***

Nær allir lesendur koma af Facebook. Það eru örfáir sem detta inn á Starafuglsforsíðuna og velja sér efni þar. Ef efni er ekki deilt, þá er það ekki lesið – svo einfalt er það. Ef maður vill styðja við Starafugl þá deilir maður, hlekkjar, lækar o.s.frv. Starafuglssíðan á Facebook er einsog aðrar síður þannig að hún birtist ekki jafn gjarna í fréttaveitu annarra og einstaklingssíður. Það munar t.d. nokkuð um lesturinn bara við að ég fari í FB-frí, einsog ég er í núna. Ég deili þá engu á meðan.

***

Það munar líka miklu hvort textinn fjallar um íslenska bók eða erlenda. Og hvort höfundarnir – bókar og texta – séu vinsælir og vinsælir á félagsmiðlum. Neikvæður dómur um íslenska bók fær alltaf lestur – honum er deilt því um hann er tekist, það er mjög sjaldan sem neikvæðum dómum er ekkert svarað. Jákvæðir dómar fá læk frá vinum skáldsins en raunar virðast fáir smella á þá og það verður sjaldan nein umræða í kringum þá. Kannski er ástæðan fyrir misræminu milli læka og lesturs fólgin í því að fólk sé búið að lesa „hnotskurnina“ sem menn hnýta við deilinguna – „frábær bók, sannkallað meistaraverk“ – og finnist það ekki þurfa að vita annað en að vini þeirra gengur vel í lífinu. Jákvæðir dómar eru auðvitað átakalausari og ekki jafn forvitnilegir – líka vegna þess að þeir eru miklu, miklu fleiri. Fólk nýtur þess að lesa bækur og nýtur þess að hæla hvert öðru. Fyrr mætti nú vera.

***

Þá skilst mér að einhverjir af þeim neikvæðu dómum sem birst hafa á Starafugli hafi valdið sölukippi í bókunum. Neikvæður dómur sem 3.000 manns lesa vekur kannski meiri jákvæða athygli á bók en jákvæður dómur sem 120 manns lesa. Forsendan fyrir þessum sölukipp hlýtur þó að vera sú að lesendur séu almennt ósammála gagnrýnandanum eða fagurfræðilegri afstöðu hans – a.m.k. að nógu margir séu það. Og þeir stökkva þá til og kaupa bókina til að verja sína fagurfræðilegu afstöðu, með grjóthörðu reiðufé og nístandi athyglisgáfu. Einhverjir kaupa sennilega líka af forvitni, einfaldlega til að leggja mat á átökin.

***

Rýnin mín, sem birtist í gær, er af versta tagi. Hún fjallar um ljóðskáld sem er útlendingur, gamall asíubúi (frekar en t.d. ungur ameríkani, sem ég ímynda mér að fái meiri athygli). Hún er löng. Hvorki þýðandi né forlag eru með Facebooksíðu og því ekki hægt að tagga neinn þegar Starafugl deilir – en hvorutveggja er búst á lestur – og hvorki við því að búast að þýðandi eða forlag deili sjálft til síns fólks, af sömu sökum. Ég skrifaði hana og ég er í Facebookfríi og deili henni því ekki.

***

Annars er það ekki sérstakur mínus að ég skrifi greinar. Ég er mjög ánægður með textann, vandaði mig mjög mikið. En þetta er líka jákvæður dómur, það er aldrei gott. Kannski þetta hefði farið betur ef mér þættu þessi ljóð vera algert helvítis drasl og hefði sakað þýðandann um að hafa gert þetta allt í einhverju fylleríismóki o.s.frv.

***

Það var annars gaman á ljóðakvöldinu í gær. Við Lommi völdum lænöppið og því kannski ekki skrítið að við höfum skemmt okkur vel. Ég vona að aðrir hafi líka skemmt sér vel. Ég ákvað sjálfur – í einhverju bríaríi – að lesa upp úr Nihil Obstat og Heimsendapestum, frekar en jólabókinni minni, Óratorreki. 15 og 14 ára bókum. Unglingunum mínum. Það var rosa furðulegt ferðalag í tíma og ég veit ekki hvað mér finnst um það sjálfum. Eitt ljóðið leysist til dæmis upp – hættir að vera ljóð og verður í heila málsgrein eins konar röflkennd málsvörn fyrir eigin fagurfræði. Svo er þetta allt frekar klámfengið. Heimsendapestir er rómantískari, það er meiri ölvun í henni, en Nihil Obstat er svolítið þynnkan og tremminn, svo að segja.

***

Ef ég tek þetta einhvern tíma saman í selected works þegar ég er orðinn nógu grand old man (við verðum þannig allir, það eru einhverjir hormónar sem byrja að kikka inn um það leyti sem kyngetan fer að dala) þá ætla ég að skrifa sumt af þessu upp á nýtt. Krukka og skera. Ekki beinlínis til að draga úr kaosinu, heldur bara vegna þess að þetta eru textar sem bjóða upp á það að hreyfast – þeir eru kaos. Ég sé fyrir mér að það gæti líka verið gaman. Í gær las ég t.d. upp eitt ljóð sem ég hélt að væri í Heimsendapestum en ég hafði augljóslega hent. Ég tileinkaði það ónefndum grínista, en ég get sagt ykkur það hér, að hann er rauðhærður og sköllóttur og dálítið feitur og hefur verið í fréttum upp á síðkastið.

***

***

Síðast þegar ég las titilljóðið – eða það er bara titilljóð á ská, heitir Nýhil Obstat (Nýhil stendur í veginum vs. Ekkert stendur í veginum) – varð það næstum til þess að karlahópur femínistafélagsins afpantaði upplestur frá mér, á þeirri forsendu að ég væri karlremba (sem er einmitt rætt í ljóðinu, ljóðið fullyrðir að afstaða þess sé ekki kvenfjandsamleg, en ver sig kannski fullharkalega til að maður taki það 100% alvarlega). Þetta var eftir að ég hafði lesið ljóðið upp á Grand Rokk. Ég sagðist vera femínisti, þetta væri alltílagi, og fékk að lesa – upplesturinn var í Skífunni, hljómplötuversluninni, á menningarnótt. Og þá voru færri femínistar og fleiri hljómplötur til sölu, eða, þið vitið, geisladiskar. Hálftómt á upplestrinum, að mig minnir.

***

Svo vildi til að ég las svo aftur í svona rakarastofu í dag. Ég var rekinn á fætur fyrir allar aldir til þess að mæta á fund sem haldinn var af Kvennaathvarfinu fyrir karla, í tilefni af 35 ára afmæli stofnunarinnar. Ég vissi satt best að segja ekki hvað þetta þýddi. Fyrir karla. Hvort þetta væri stuðningshópur karla, hvort þetta væru karlar sem hefðu orðið fyrir ofbeldi sjálfir, hópur gerenda í bata – ekkert, opið öllum eða hvað, nema að þetta væru karlar á vegum Kvennaathvarfsins, og hinn ágæti Árni Matt væri að skipuleggja þetta. Þegar ég kom á staðinn skýrðist þetta allt fljótt.

***

Ég veit í sjálfu sér ekki hvernig mönnum var boðið eða hverjir voru valdir en þarna voru fyrst og fremst samankomnir einhvers konar menn með völd. Ráðherrar, þingmenn, háttsettir embættismenn o.s.frv. og fundurinn var haldinn til þess að ræða kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi út frá forsendum karla – hvernig mætti stuðla að því að karlar beittu minna ofbeldi (meðal annars með því að forða þeim sjálfum frá ofbeldi og hjálpa þeim að vinna úr því ofbeldi sem þeir verða fyrir, var á mönnum að heyra).

***

Þarna las ég ekki úr Nihil Obstat. Heldur Ljóð um dóttur mína – einsog Árni hafði beðið mig um – úr Óratorreki. Í því ljóði er reyndar líka einhver subbuskapur, ég skil hann víst aldrei alveg við mig, þetta er áreiðanlega einhver bölvun.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png