Untitled

Ég stóð mig að því hvern einasta dag í síðustu viku að hefja daginn á því að drekka morgunkaffið mitt og lesa nauðgunarlýsingar dagsins í fréttamiðlum. Þetta var svona morgunhefðin mín, ritúalið, og hún kom til alveg óvart – ég hafði ekki séð það út að þetta væri besta leiðin til þess að starta deginum, það bara gerðist.

***

Í morgun var ég byrjaður á þessu þegar ég bakkaði skyndilega – og hugsaði nei, Eiríkur, hvað ertu að gera? Ég lagði frá mér símann – í miðri shellsjokkaðri núvitund – og dró til mín kindilinn. Og þar mætti mér eiginlega alveg … nei, ekki sami harmurinn, en ofbeldisharmur, í The Unwomanly Face of War eftir Aleksevitsj. Ég las 20 síður og fór svo á fætur. Trámatíseraður í klessu.

***

Mér var sagt í Frakklandi á dögunum að hún hefði verið áberandi á bókamessunni í Frankfurt nú í haust löngun útgefenda til þess að gefa út „sannar“ harmsögur. Útgefandinn sem sagði mér þetta gat varla á sér heilum tekið, hann (hún) hrækti út undan sér á meðan hann (hún) talaði – einsog hann (hún) væri að boða heimsendi. Það sló mig líka um árið að Frakkar virtust ekki sérlega hrifnir af Aleksevitsj og mörgum fannst alger skandall að hún fengi Nóbelinn og þeir hafa ekkert náð að tromma upp hjá sér áhuga á Knausgaard, sem einhver sagði við mig að virkaði einsog „200 ára gamall uppvakningur“ á Frakka, sem væru löngu búnir með þessi epísku, endalausu sjálfsævisöguleg skrif.

***

Ég hugsa oft til bókarinnar Reality Hunger eftir David Shields. Þar sagði hann – fyrir sjö árum – að tími hins skáldaða væri einfaldlega liðinn og nú tæki við sannsaga. Ein af afleiðingum félagsmiðla er auðvitað sú að við erum í viðstöðulausri tengingu við einhvers konar sýndarsálarlíf hvers annars – og það er allt performans, frá kökubakstri til nauðgunarlýsinga til landsleikjaselfía – og ég meina það ekki sínískt ég meina það bara bókstaflega (öll frásögn er performans). En það er líka leit að einhverju sönnu. Og hinu sanna virðist fylgja einhvers konar ölvun – sem veldur samfélagsmiðlafíkninni sem veldur sennilega þránni eftir sannsögunni.

***

En á sama tíma liggur fólk auðvitað í skáldskap – t.d. Netflix seríum (sem er alger óþarfi að gera lítið úr, þar eru margar góðar sögur sagðar, Netflix seríur eru ekki sjálfkrafa verri en íslenskar ljóðabækur, einsog mér fannst „ónefnt skáld“ („Dagur ljóðsins II – the revenge of Dagur ljóðsins“) gefa í skyn í viðtali á dögunum, það fer bara eftir seríunni og ljóðabókinni). Og ég las líka viðtal við lækni á BUGL sem sagði að á meðan stúlkur yrðu háðar lækinu og félagsmiðlum yrðu strákar háðir online-leikjum – sem er auðvitað meiri „veruleikaflótti“, meiri „skáldskapur“ og í andstöðu við þá klisju að stelpur vilji skáldskap en strákar non-fiction, stelpur lesi Harry Potter en strákar Útkallsbækur.

***

Og hvað þýðir þetta allt saman? Ég veit það ekki. Þarna á milli einhvers staðar er auðvitað „raunsæisskáldskapur“ – sá sem keppir að sannferðugheitum frekar en sannlíkindum, að þetta gæti gerst frekar en þetta hafi gerst. Mér finnst einsog raunsæið sé meira og minna allsráðandi í fagurbókmenntum og við höfum látið geirahöfundum eftir fantastískari hluti. Kannski er það ekki nákvæm tilfinning.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png