Untitled

Ég hef sofið illa tvo daga í röð. Það er hálfgerður rigningarsuddi ofan í snjóinn í bænum og rok ofan í rigningarsuddann og dimmt auðvitað, þetta er sá árstími, umbúðirnar af sjoppufæðinu sem ég át í fyrradag eru farnar að lykta heldur mikið í ruslafötunni á skrifstofunni og ég hef ekki hreyft mig síðan á föstudag og þegar ég hreyfi mig ekki baða ég mig ekki heldur og ekkert af þessu er mjög gott. Verst þó að sofa illa.

***

Ég reif mig upp og fór á danssýningu hjá syni mínum – danssýning dótturinnar var í gær – keypti svo Treo (ég er með höfuðverk) og súkkulaðisnúð og hellti upp á kaffi (eiginlega hellti Halla Mia samt upp á kaffið, hún var einu skrefi á undan mér, ég var alveg að fara að gera það). Þetta er allt hið ágætasta.

***

Það hefur löngum loðað við bókmenntaheiminn að hann sé fullur af gröðu og siðspilltu fólki – einhvers konar afkomendum bóhemkynslóðanna sem allar eru auðvitað löngu dauðar – en nú þegar maður bíður eftir bókmennta-#metoo-inu á því herrans ári 2017 óttast maður ekki síst að rithöfundastéttin muni virðast hálf náttúrulaus í samanburði við lækna, lögfræðinga og leikara. Sennilega er það ágætt, til marks um gott siðferði, empatíu og þvíumlíkt, en hugsanlega er það líka bara firring í höfðinu á mér og þetta á allt eftir að verða stórfenglega ljótt, ekkert nema viðstöðulaus fólskuverk framin í lostans nafni. En það gæti alveg farið með orðsporið – ef við sem gefum okkur út fyrir að dansa á línunni og óttast ekki kraftmiklar langanir okkar og þrár reynumst svo bara … annað hvort kurteis og vel upp alin eða einfaldlega bæld.

***

Kurteisi er auðvitað einhvers konar bæling. Impúlsstjórn er bæling.

***

Að vísu kom einn rithöfundur með í fjölmiðla-#metoo-inu. Hafði áreitt blaðamann. Og fólk í bókmenntastéttinni hefur verið áberandi í sænska #metoo-inu.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png