Untitled

Fjallabaksleiðinni barst dularfullt bréf frá óánægðum lesanda. Umræddur lesandi er mikill rithöfundur, frægur fyrir bækur sínar en ekki síður fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum. Viðkomandi umræddur lesandi og frægur rithöfundur er ósáttur við forsíðumynd Fjallabaksleiðarinnar, sem tekin er út um rúðu á veitingastað á flugvelli í Lundúnaborg, finnst hún of stór og vill að hún verði fjarlægð, hið fyrsta, eða (sennilega, ég get mér til þess að það myndi duga) til vara að hún verði minnkuð. En ég er stór maður, ég veit ekki hvernig ég ætti að geta orðið minni úr þessu, og auk þess finnst mér bara gott á lesendur mína að þurfa að skrolla aðeins niður, ég sem þarf alltaf annars að beygja mig í baki til þess að eiga í samræðum við þá. Það ætti að lækna þá af forréttindablindunni.

***

Þetta bréf var kannski ekkert mjög dularfullt.

***

Annar frægur rithöfundur skrifar Fjallabaksleiðinni reglulega – sá ryður sér í gegnum bækur „ungu höfundanna“ og líst ekkert á, segir að þetta sé allt uppsuða úr Braga Ólafssyni, einsog fjórða skolvatn (hann var með einhverja aðra líkingu, ekki ljósrit, man ekki í svipinn hvað það var) og bla bla bla.

***

Einu sinni ætlaði ég bara að lesa höfunda sem væru yngri en ég en það varð ekkert úr því. Sennilega varð ég bara gamall skarfur. Það var ekki jafn eftirsóknarvert þegar ég var tvítugur og mér finnst það nú.

***

Ekki að ég lesi ekki líka höfunda sem eru yngri en ég. Kannski eru þeir m.a.s. í meirihluta. Núna er ég að lesa Kristínu Eiríksdóttur, Elínu hennar, Kristín er yngri en ég (ekkert mjög samt). Ég er búinn að þekkja Stínu mjög lengi. Sennilega lengur en yngstu höfundarnir eru gamlir. Við kynntumst á ircinu. Skiptumst á ljóðum.

***

Það er samt ekki Kristín sem hatar ungu höfundana eða vill láta minnka myndina.

***

Mig langar að lesa alla ungu höfundana, sérílagi þarna Abbabókina, sem ég leit inní í bókaverslun, og Flórída, sem ég á eftir að kaupa en er alltaf að fara að gera (strax og þær verða ódýrari, ha?), og Jónasinn og Halldórana og Friðgeirinn.

***

Búinn að lesa Cat Person, sem allir eru búnir að lesa, vissi ekki alveg hvað mér fannst fyrst en nú þegar hún er búin að fá að setjast svolítið finnst mér hún óeftirminnileg og frekar lítið listfengi í henni, lítil fagurfræði, mikið slúður, mikill zeitgeist en litlar bókmenntir, og samt er hún alltílagi, engin ástæða til að æsa sig yfir henni – nema einsog maður æsir sig yfir hæpi almennt, ekki yfir sögunni heldur hysterískum samtímanum sem þarf endalaust að finna nýja IT augnabliksins.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png