Untitled

Hver er heimspekilegur, fagurfræðilegur og pólitískur munur þess að vilja uppræta klámfengna brandara úr umhverfi sínu – og/eða skilgreina þá sem kynferðislega áreitni, jafnvel ólöglega (er ekki öll kynferðisleg áreitni ólögleg?) – og þess að vilja uppræta klámfengna texta úr t.d. fagurbókmenntum, sjónvarpsþáttum, tónlist o.s.frv.? Hvað ef við skiptum einfaldlega út orðinu „klámfengið“ fyrir „óþægilegt“ – eitthvað sem triggerar?

***

Bjarni Randver ber sig illa að hafa verið kallaður „kaunfúll barmabrundull“ – Bragi Valdimar yrkir um tíu litla kynvillinga og fær bágt fyrir – iðnaðarmenn segjast ekki vilja fara niður á það plan að „sætta sig við kynferðislega brandara“ – Hannes Hólmsteinn tekur dæmi um nauðgun og nytjahyggju (ef nauðgunin er X góð fyrir nauðgarann en bara Y vond fyrir þann sem er nauðgað, og X er meira en Y, er þá nauðgunin réttlætanleg því hún auki „heildarhamingju“ samfélagsins). Und so weiter.

***

Augljósasti munurinn er að bókin er rými sem maður velur að ganga inn í. Brandari sem manni er sagður í vinnunni krefur mann ekki um þátttöku – með segir ekki „Heyrðu, Gvendur, þú ert alltaf svo fyndinn, segðu mér brandara“, Gvendur bara segir manni brandarann. Kúrs Hannesar er skyldukúrs. Maður þarf að ýta á play á Braga Valdimar. Að vísu veit maður aldrei hvað stendur í bókinni, hún getur alveg komið manni í opna skjöldu, og margir gera raunar þær kröfur til bóka að þær geri það. Og stundum les maður hluti af fúsum og frjálsum vilja sem ofbjóða manni samt – einsog Bjarni Randver virðist hafa tekið skrifum Þórðar Ingvarssonar illa, en bloggið las hann samt sjálfviljugur, hann fór inn í þetta rými og vissi sennilega hvers væri að vænta.

***

Ég svitna alveg svolítið á efri vörinni yfir öllum svona kröfum. Ég skal alveg viðurkenna það. Mér finnst þær fýsískt óþægilegar. Ekki bara fyrir mína hönd – en líka mína hönd – heldur fyrir hönd óþægileikans, fyrir hönd þess sem finnst tilhugsunin um sótthreinsað samfélag þar sem maður rekur sig aldrei utan í óþægileg.

***

Sem þýðir augljóslega ekki að manni eigi ekki að finnast hlutir óþægilegir og þaðan af síður að maður eigi ekki að æmta. Æmtið er frumforsenda hins próblematíska og dýnamíska samfélags. Frumæmtið.

***

En bannið er bannað. Brottreksturinn er lúseramúv. Stigmu eru glötuð.

***

Og rýmið já, svo ég klári þá pælingu. Listrýmið, rýmið þar sem eitthvað vafasamt MÁ gerast, þar sem við erum undir það búin, er auðvitað einhvers konar gelding á hinu vafasama. Ögrun í rými sem er hannað fyrir ögrun og þangað sem fólk kemur bara til að leika ögrunarleiki er auðvitað ekki rými fyrir raunverulega list – það er sín eigin tegund af safe space-i, köntríklúbbur fyrir fólk í dúkkulísuleik, eins konar listlíkisverksmiðja. List sem ætlar að ögra verður að eiga sér stað annars staðar. Í mötuneyti Reykjavíkurborgar. Í kaffistofum iðnaðarmanna. Í upplestri frekar en í bók. Maður býður ekki sjálfum sér í ögrunina, hún verður að sækja mann heim óboðin og trufla. Ef maður er ekki að minnsta kosti pínulítið ofsóttur fyrir hana var maður ekki að ögra neinum.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png