Untitled

Ég fékk sennilega flestar jólagjafir í minni fjölskyldu. Og stærstar. Ég taldi reyndar hvorki né vigtaði, en þess þurfti ekkert, þetta leyndi sér ekki. Ég held að ég hafi líka borðað mest og ég eldaði alveg áreiðanlega mest – allt frá grunni – og ég drakk mest og ég knúsaði mest og ég pirraðist mest yfir tilgangslausum hlutum (fann ekki pakka, brenndi mig á puttanum og sjitt hvað er mikil sturlun alltaf að taka 20 hluti úr ofninum eða af hellunum í einu svo allt verði heitt við matarborðið). Nanna átti flestar uppskriftirnar, ég þyrfti eiginlega að fara að borga henni einhvers konar licensing gjald – það eru margir kokkar góðir en fáir eiga jafn mikið af skotheldum uppskriftum. Á borðinu voru andalæri, hasselback kartöflur, brúnaðar kartöflur, lauksíld, sinnepssíld, grafinn lax, hofmeistarasósa, sinnepssósa, andarsoðsósa, rækjukokteill, rúgbrauð, sænskt jóla hrökkbrauð, fransbrauð, bakað rótargrænmeti, appelsínu og möndlusalat, saltfiskur, finnskt lanttu, rósakálssalat, og súkkulaðibúðingur með jarðarberjacoulis. Með þessu var jólaboli, Askasleikir (sem ég hef kallað „asnasleiki“ alveg frá því ég byrjaði að staupa mig á eggjapúnsinu í möndlugrautnum hjá Vali bróður í hádeginu), eitthvað voða fínt Rioja, 2008 árgangur, spariflaska, ódýrt hvítvín (sem enginn snerti), jólaöl, hvítöl og engiferöl. Síðar um kvöldið gerði ég svo bæði Pisco Sour og Hlæjandi Búdda, þegar fólki hafði fjölgað, í nýju kokteilblöndunartækjunum mínum – sem ég fékk frá Nödju – en auk þess fékk ég nýjan frakka, ljóðabók, framandi kryddjurtir, bindi, leikhúsmiða, inniskó og svo ótal margt fleira að mér entist sennilega ekki ævin í að segja ykkur frá þessu öllu, né heldur myndi upptalning rýma þá gleði sem ég finn til að hafa fengið þetta allt saman. Ég vildi bara að ég hefði getað gefið annað eins; gaf aðallega bækur, sem eru reyndar heill heimur út af fyrir sig, gaf tvær af mínum eigin, Kött Grá Pje, Bergþóru Snæbjörns, David Nicholls, Lewis Carroll, Andre Breton (mjög gamla og fína útgáfu af Nödju, fyrir frönskukennarann Nödju, bien sûr), JK Rowling, Adolf Smára, Handbók fyrir ofurhetjur, Han Kang, já og myndir af börnunum mínum (narsissískari verður maður sennilega ekki, en það vill til að þessi börn eru fram úr hófi gott myndefni). Ég gaf líka Nödju ný gönguskíði, ég gaf henni hin fyrir tveimur árum, en það borgar sig að eiga fleiri en eina tegund ef maður vill vera viðbúinn ólíkum veðurtegundum. Með skíðunum fékk hún illa orta rímu, að sænskri hefð – svokallað julklappsrim – sem á að vera vísbending um innihald pakkans (pakkinn var falinn bakvið bókahilluna og hún sá hann ekki, þótt hann blasti raunar við):

Þótt spræk hún á grýluöldum ríði, meðal gaddsins freðnu sveina, má meyna hreina heyra veina „ég á ekki nema ein andskotans …“

Ég hugsa að mér þætti talsvert áhugaverðara að yrkja rímur ef það væru færri reglur. Ég hefði kannski átt að gerast rappari. Nú segir kannski einhver: „En Eiríkur, það er aldrei um seinan“ en það myndi fólk ekki segja ef það væri nógu gamalt til að muna eftir því þegar Hallgrímur, kollegi minn, gerði sömu mistök og hélt það væri aldrei um seinan, fyrir hartnær tveimur áratugum. Rithöfundar eru ekki rapparar. Rapparar geta hugsanlega orðið rithöfundar, en ég held að rithöfundar ættu helst ekki að verða neitt.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png