Untitled

Fyrsti vinnudagur eftir jólafrí. Ég kann vel við að vera í vinnunni en suma daga þegar ég les það sem ég hef verið að skrifa hata ég það. Ég er alltof sínískur og stundum röfla ég bara viðstöðulaust og stundum einkennast frásagnir mínar af þindarlausri deyfð. Það er nú eitthvað annað en hjá honum Jónasi Reyni, sem ég hef verið að lesa í kvöld og er næstum búinn með – dæmalaust fljótlesið og fínt og uppáfyndingarsamt, einsog fleiri hafa bent á. Ég held ég hafi verið þessi María árum saman. Allt mjög kunnuglegt. Fór í reglulegar sólarhringsferðir til Reykjavíkur á þrítugsaldrinum – að vísu meira frá Ísafirði en Brighton, hvert ég hef aldrei komið, og ég átti sjaldan pening til að vera að drekka á börum og svona, eða spila í spilakössum, en það er sama.

***

Ég kláraði ævisögu Önnu Kristjáns í gær og veit nú meira um skipsvélar en ég hélt að ég myndi nokkru sinni gera, og verð þó sennilega búinn að gleyma því öllu fyrir áramót. Hún segir frá ótrúlega mörgum samferðamönnum sínum en lítið frá fjölskyldu sinni – kannski er það sjómannstrámað, að kynnast skipsfélögum betur en börnunum sínum, og kannski eru persónulegar ástæður að baki – og það er furðu lítið líka um kynama hennar, sérstaklega framan af. Ég held að það hafi fáir gaman af vélasögunum, en það er kannski misskilningur. Skemmtilegust er bókin þegar húmor Önnu skín í gegn, en hún er bráðfyndin einsog allir vita sem hafa lesið bloggið hennar – en það er alltof mikill annálabragur á bókinni.

***

***

Sá hluti sem snýr að kynama Önnu og baráttunnar fyrir kynleiðréttingu er langáhugaverðasti hluti bókarinnar, fyrir þá sem hafa aldrei lært vélstjórn, og hann er vel úr garði gerður þótt hann mætti vera miklu lengri.

***

Ég er byrjaður að skipuleggja mikið meinlætisátak í janúar. Ætla að láta af öllum hobbíreykingum og áfengissulli, hætta að sofa fram eftir öllu og reyna að einbeita mér að vinnunni af meiri krafti. Mér gengur illa að ná utan um ákveðna hluta skáldsögunnar – leikritið (um sama efni) er auðvitað „nánast“ tilbúið, það er að fara í æfingar og þeim fylgir sennilega talsverð vinna við að stagbæta og kasta og endurskrifa.

***

Það er líka svolítið mikið myrkur og ég hef ekki verið nógu mikið utandyra.

***

Pantaði mér hægindastól á skrifstofuna og er að leggja á ráðin um að hækka skrifborðið um tíu sentimetra, svo það henti mér betur. Pantaði líka bækur aðallega í tveimur kategóríum: 1) Trönsur og 2) (Alt-right)-Tröll. Í einhverjum skilningi eru þetta ósamrýmanlegar kategóríur, sem koma þó saman í Hans Blævi, sem er transatröll, tröllatransa. Trönsur þola annars ekki tröll, og tröll þola ekki trönsur. En tröll elska kaos og trönsur valda kaosi í heimi sem frelsi þeirra og hugrekki ógnar. Í upphafi hélt ég að Hans Blær væri ekki transa „í alvörunni“ en nú þegar ég hef kynnst hánum betur veit ég að hán er jafn mikil transa og hán er tröll; hlutverkin bánsa hvort af öðru, blása hvort annað upp og tortíma hvort öðru, þetta er kjarninn í hvirfilbylnum, hlýja loftið sem mætir kalda loftinu og sendir strókinn af stað.

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png