Untitled

Næstu 30-40 mánudaga ætla ég að helga vinnudagbók Hans Blævar. Bókin er auðvitað næstum búin og það sama gildir um leikritið, en það er líka fífldirfska að ræða bækur (eða leikrit) mikið áður en þau eru fokheld. Því maður veit ekkert hvert þær ætla (og veit það raunar aldrei).

***

Í september 2014 dvaldist ég mánaðarlangt einn á litlum herragarði skammt utan við þorpið Jonsered, sem sjálft er skammt utan við Gautaborg. Ég hafði hlotið Villa Martinson styrkinn og bjó í samnefndu húsi, á æskuslóðum nóbelsskáldsins Harry Martinson. Þar skokkaði ég um holt og hæðir, gerði jóga í dagrenningu á tíu metra háu stökkbretti við stöðuvatnið og fylgdist með kuldanum læsa fingrum sínum í villuna, eftir því sem leið á mánuðinn, heita vatninu bresta, húsinu kólna, netinu deyja og músunum naga sér leið gegnum bitana í innveggjunum. Síðustu dögunum eyddi ég á hóteli inni í Gautaborg enda orðið ólíft í húsinu, og nýlega var mér tjáð að ég hefði verið síðasti styrkþeginn þarna – því húsið hefði ekki þótt duga. Það var samt fínt að vera þarna þar til fór að kólna. Friður og ró.

***

Lengst af þótti mér sem ég hefði engu komið í verk þarna. Að vísu skrifaði ég heila bók – 150-200 síður, sennilega – en bókin reyndist, þegar á hólminn var komið, alls ekki mönnum bjóðandi. Þannig er því yfirleitt farið um það sem er fljótskrifað. Þetta var reyfari, stefnulaus (viljandi) og alveg án nokkurrar fullnægju – morðið sem bókin hófst á var öllu óviðkomandi. Og raunar var það helsti galli bókarinnar að hún var eiginlega ekki um neitt annað heldur. Og hennar helsti kostur, svona þegar ég hugsa út í það.

***

Ég veit aldrei hvað mér finnst um að skrifa fyrir ruslafötuna. Það þarf augljóslega líka. En það er þungt að þurfa að henda heilu og hálfu bókunum.

***

Morðið var klassískt. Það var framið á herragarði (ekki Villa Martinson) í miðju matarboði. Enginn var viðstaddur og þegar viðkomandi lést sátu allir aðrir gestir í borðstofunni. Einn af gestunum hét Hans Blær og var transkynja strætóbílstjóri. Aðalsöguhetjan í þessari ómögulegu skáldsögu var hins vegar leynilögreglumaður og samskipti hans við Hans Blævi eru fram úr hófi asnaleg og hann kemst eiginlega aldrei að kjarna málsins (frekar en bókin sjálf), getur ekki yfirheyrt Hans Blævi fyrir vandræðagangi.

***

Hans Blær var ljóshærð(ur) með hálfsítt hár hægra megin, rétt niður fyrir eyra, en sléttrakað vinstra megin. Hán var hávaxin(n), líklega rétt undir 190 cm, klædd(ur) í litríka og snyrtilega (dýra) mussu sem náði rétt niður fyrir rass, hvítar terlínbuxur og brúna leðursandala. Hán var með gleraugu með svörtum, þykkum, kassalaga ramma, stutta og tilklippta barta – góða skeggrót – og barmmerki sem á stóð „Yoga kills“. […] „Ég vil byrja á því að forvitnast – þú fyrirgefur, þér mun sjálfsagt finnast þessar spurningar heimskulegar …“ „Það eru engar heimskulegar spurningar, einungis heimskuleg svör“ sagði Hans Blær og krosslagði fæturna í sófanum. Hippi hugsaði ég en meinti krútt eða póstkrútt, knúskrútt, og fann hvernig fordómarnir blossuðu upp. Hann hugsar um Coelho til að fá það, hugsaði ég. „Í fyrsta lagi: hvernig viltu að ég ávarpi þig?“ „Meinarðu í hvaða kyni?“ „Já.“ „Ef þú vilt virða mig heldurðu þig við hvorugkyn. Annars er þetta víst frjálst land.“ „Og nafnið? Hvernig beygi ég það?“ „Hans í karlkyni – Hans um Hans frá Hans til Hans – og Blær í kvenkyni. Blær um Blæ frá Blævi til Blævar.“ Mig langaði að segja eitthvað um blæbrigði en náði að stoppa mig á síðustu stundu. „Hvaðan ertu?“ „Frá stelpu í strák.“ „Ha?“ „Var það ekki það sem þú varst að spyrja?“ „Ég átti við, hvaðan á landinu.“ „Bíldudal, upprunalega.“ „Upprunalega?“ „Ég flutti þegar ég var tvítugt.“ „Hvað ertu … gamalt … núna?“ „Tuttuguogþriggja.“ „Og þú keyrir strætó?“ „Frá því í febrúar. Ég vann í þörungaverksmiðjunni fyrir vestan og þau borguðu fyrir mig meiraprófið. Betur borgað en að vera á sambýli. Þessar aðgerðir eru ekki ókeypis.“ „Heitirðu Hans Blær í þjóðskrá?“ „Nei.“ „Hvað heitirðu í þjóðskrá?“ „Skiptir það máli?“ „Já.“ „Er ekki nóg að þú fáir kennitöluna mína? Þú getur svo flett þessari lygi upp sjálfur.“ „Nei, þú verður líka að segja mér hvað þú heitir. Þetta styður allt hvert annað. Ég ber saman nafn og kennitölu til að vita við hvern ég hef verið að tala. Ef nafnið passar ekki við kennitöluna eða öfugt hef ég augljóslega tekið annað hvort ranglega niður.“

***

Og svo framvegis og svo framvegis. Ég kláraði bókina og Hans Blær kom í sjálfu sér ekkert mikið meira við sögu – ég ákvað að skrifa hana ekki heldur henda henni í ruslið og snúa mér aftur að Heimsku sem ég hafði verið að vandræðast með misserin á undan (og þessi bók var í raun hugsuð sem einhvers konar útgáfa af Heimsku, en það er pínu langsótt samt).

***

Ég kláraði Heimsku hálfu ári síðar og byrjaði fljótlega upp úr því að vinna í Hans Blævi. Síðan þá hefur mikið blóð runnið til sjávar. Sviti, tár og aðrir líkamsvessar. Hans Blær er ekki lengur strætóbílstjóri heldur fjölmiðlastjarna. Hán er eldra (f. 1984) og hán er ekki PC-vinstrimanneskja – raunar því síður, hán er tröll, ekki minna transgressíft en transgender. Ég veit ekki hvort hægrisinnað er hugtak sem á við – það er hálfgerður anakrónismi þegar hán er annars vegar, enda er hán bæði eitthvað miklu eldra og eitthvað alveg nýtt. En að því sögðu er hán allavega ekki vinstrisinnað. Þá er kyngervi hánar ansi miklu flóknara núorðið en að hán sé bara „frá stelpu í strák“.

***

En það er víst best að ég verði ekki of langorður. Þótt það sé margt að segja. Meira síðar.

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png