Untitled

Ein af bókunum sem ég las í síðustu viku, og tengist þessum bókaskrifum – sem og leikritinu (sem er – plöggviðvörun – frumsýnt á laugardag í Tjarnarbíó) – heitir Free Speech on Campus og er rituð af tveimur amerískum lögfræðingum. Einsog titillinn gefur til kynna fjallar bókin um málfrelsi og mörk þess í háskólasamfélaginu. Grundvallarkenning bókarinnar er sú að málfrelsi verði að vera rýmra í háskólum en annars staðar því því annars geti þeir ekki sinnt hlutverki sínu (sem er meðal annars að takast á við ögrandi hugmyndir, en líka að fella vitlausar hugmyndir úr gildi – til þess þarf að vera hægt að ræða þær, á eigin forsendum en líka að skoða þær forsendur.

Þá flytja höfundar ýmis rök gegn því að málfrelsi séu settar hömlur – eða réttara sagt, þá benda þeir á hvernig margar aðferðir (svo sem safe space-sköpun í kennslustofum eða skyldubundnar triggerviðvaranir) geti annars vegar haft neikvæð áhrif – t.d. þannig að hamlanirnar valdi nemendum sem heild alls kyns kvíðavandamálum, enda vaki þar nemendur hver yfir öðrum og refsi og skammi hver annan, samfélagið verður púrítanískt – og hins vegar sé ekki hægt að banna A (sem er skaðlegt) án þess að banna líka B (sem er nauðsynlegt frjálsri samræðu). Afleiðingar hertra reglna um tjáningu séu einfaldlega of neikvæðar, þótt hvatinn til þess að herða reglurnar sé skiljanlegur.

Ekki er þar með sagt að allt mál sé einfaldlega varið og öll tjáning lögmæt. Þeir gera t.d. greinarmun á tjáningu sem er beinlínis hótandi í garð tiltekins fólks. Þannig væri innan marka að brenna kross en ekki innan mark að brenna hann á lóð svartrar fjölskyldu; innan marka að segja konur heimskari en karlmenn (enda standist það enga skoðun og falli strax dautt í samfélagi sem leyfir sér að vera krítískt) en ekki innan marka að hóta að nauðga konu (enda sé það ekki „hugmynd“ sem hægt er að takast á um heldur einfaldlega hótun).

Þegar ég segi „innan marka“ á ég líka fyrst og fremst við „löglegt“ – og „ætti ekki að banna“, þótt það sé vissulega glatað. Ekki að manni eigi að finnast það frábært.

Lögfræðingarnir, sem hafa kennt málfrelsislög, eru báðir á því að triggerviðvaranir geti þjónað alls konar tilgangi og hafa báðir notað þær frá því löngu áður en hugtakið var til. Þannig hafi þeir oft fjallað um mónólóg Georges Carlin Seven Dirty Words og alltaf varað nemendur sína við að þeim gæti þótt þetta ljótt. Það þýðir vel að merkja ekki endilega að það sé afleiðingalaust að ganga út – en það gefur manni tækifæri til að búa sig undir það. Ég stóð mig að því sjálfur á laugardagskvöldið, þegar vinkona mín spurði mig hvort ég væri „viðkvæmur fyrir myndum“ að svara „ekki ef þú varar mig við“ – sem er einmitt málið. Það er ágætt að láta vara sig við. (Það er svo viðeigandi að nefna í þessu vinnudagbókarbloggi að vinkonan, sem er trans, sýndi mér svo mynd af transpíku – ekki sinni, vel að merkja, heldur bara af netinu – og ég trámatíseraðist sama og ekki neitt).

Hins vegar geti verið alls konar ástæður fyrir því að kennarar vilji og þurfi að sýna nemendum sínum efni án þess að vara þá fyrst við – það sé einfaldlega ákvörðun sem kennarinn verði að taka sjálfur, miðað við efni og aðstæður, en ekki eitthvað sem eigi að gerast á skrifstofu skólastjóra og miðast við öll efni og allar aðstæður.

Þá sé líka í fínu lagi að búa til safe spaces – en það megi ekki nota hugtakið sem skjöld gegn öllum óþægindum. Kennslustofan geti verið staður til þess að ögra og það sé einfaldlega margt sem ómögulegt sé að læra án þess að verða fyrir óþægindum. Maður verður ekki læknir án þess að þola að sjá blóð. En það þýðir kannski ekki að það megi sturta yfir mann blóði óforvarendis inni á klósetti bara af því maður er í læknanámi.

Þeir skilgreina síðan stórt svæði utan kennslustofunnar – sjálfan kampusinn – sem málfrelsissvæði. Þar eigi að gilda rúmari reglur um tjáningu en annars staðar í samfélaginu og raunar líka rúmari reglur um truflun – en truflunartjáningu er eðli málsins samkvæmt sniðinn þröngur stakkur í kennslustofu, þar sem fólk á að bera virðingu fyrir hugmyndunum sem verið er að ræða. Sé maður ósammála fyrirlesara er ekki nóg að segja honum bara að fokka sér – þótt það sé nóg á kampusnum annars – í kennslustofunni ber manni skylda til þess að kljást við hugmyndir fyrirlesarans. Ég hef séð alveg fáránleg myndbönd af fólki að garga niður fyrirlesara – t.d. karlréttindasinna – bæði inni í kennslustofu og svo í stórum hópum fyrir utan þær, með þeim afleiðingum að ekki heyrðist orð innandyra. Höfundar eru alveg klárir á að það sé utan marka.

Þeir leggja líka áherslu á það lögfræðingarnir að skólarnir geti gert ýmislegt til þess að vinna gegn hatri í skólanum án þess að grípa til þess að banna illyrmislegar hugmyndir.

En þeir eru líka alveg harðir á því að tilvikum þar sem kennurum og nemendum sé refsað að ósekju – eða réttara sagt fyrir tittlingaskít eða „réttmætan hugmyndaflutning“ eða hvað maður vill kalla það – fari mjög fjölgandi og það sé full ástæða til þess að hafa áhyggjur, bæði af andrúmsloftinu í kennslustofunni en líka í kringum háskólann – einn kennari var sem dæmi rekinn fyrir að fara með blackface málningu á grímuball, ótengt háskólanum, þótt sannað þætti að hún hefði fyrst og fremst ætlað að „ögra til umræðu“. Þótt manni finnist slík hegðun ósæmileg sé hún engan veginn réttlætanleg brottrekstrarsök.

***

Hans Blær – verandi tröll – starfar við hið transgressífa, að ganga yfir þessa línu, helst þannig að hán komist upp með það. Þar er ekki endilega spurt hvort hán brjóti lögin, sem hán gerir stundum lítillega (og stundum meira), heldur hvort og hvernig hán brýtur á siðferðislögmálum. Hán þarf að brjóta nóg á þeim til þess að þjóðfélagið taki andköf en ekki svo mikið að fólk hætti að horfa eða hlusta – þetta er línudans þess sem vill hámarka athyglina. Og verandi fjölmiðlastjarna lýtur hán augljóslega öðrum reglum en t.d. háskólaprófessorar.

Í kampussamhenginu er hér hægast að vísa enn eina ferðina til Milo Yiannapoulus sem túraði milli kampusa í Bandaríkjunum í fyrra og baðaði sig í athyglinni, bæði jákvæðri og neikvæðri. Sums staðar fór hann á svið og gerði óskunda og sums staðar – t.d. í Berkeley, en þar eru báðir höfundar Free Speech on Campus starfandi – var honum ekki hleypt á svið af reiðum múg og gerði þannig enn meiri óskunda og vakti enn meiri athygli.

Það eru til þrjú stig af þessari transgressjón. Í fyrsta lagi transgressjón sem gengur ekki nógu langt – sjokkerar engan (eða sjokkerar nógu lítið að fólk eigi auðvelt með að hafna því að það hafi sjokkerast). Síðan transgressjón sem fúnkerar – þar sem hinir þórðarglöðu hlæja og hinir viðkvæmu reiðast. Tröllið – ekki ósvipað og transgressífi listamaðurinn – þrífst á átökum þessara tveggja hópa, þetta er kraftaverkaaugnablikið. Loks er það transgressjón sem einfaldlega gengur of langt – þegar það slær þögn á hópinn og þetta „er ekki fyndið lengur“. Það getur verið tímabundið – einsog gerðist fyrir Milo þegar hann gerði lítið úr samböndum unglingsbarna (13-14 ára) við fullorðna karlmenn – eða stærra, verra og ófyrirgefanlegra.

Í síðara tilvikinu nær þá transgressjónin yfirleitt út fyrir heim orðanna – þá eru það gjörðir. Hitler – svo ég taki nærtækt dæmi! – var húsum hæfur þrátt fyrir Mein Kampf. Það þurfti helförina til þess að Morgunblaðið hætti að verja hann.

3 views0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png