Untitled

Ég var of lúinn til að færa dagbók síðasta mánudag. Of önnum kafinn. Og á ferðalagi frá Umeå. Og of mikil læti í kringum leikritið. En mér tókst að klára skáldsöguna og senda hana frá mér í fyrradag. Nema það hafi verið í hittifyrradag. Vikan og helgin hafa verið svo sturluð að ég er hreint ekki alveg viss. En ég ætla að fagna verklokum í kvöld. Það er að vísu ýmislegt eftir og sennilega margar breytingar í áframhaldandi ritstjórn – en þetta er samt einhvers konar endir, verkið hefur tekið á sig mynd.

***

Leikritið var frumsýnt fyrir tæpum tveimur vikum. Það hafði þegar vakið einhverja athygli – Ugla Stefanía var ósátt við forsendur þess og tjáði sig um það, fyrst á Facebook og svo í viðtali við Gay Iceland vefinn. Fyrirsögnina þar mátti svo skilja að gervallt hinsegin samfélagið væri „furious“ (tryllt, hamslaust, ofsareitt) vegna leikritsins. Sem var sannarlega ónákvæmt. Ósáttin hafði meira að gera með viðtal sem við Vignir leikstjóri fórum í hjá RÚV þar sem ég komst að einhverju leyti óheppilega að orði – og svo afstöðu gagnvart leikritinu, sem ég get ekki skilið og get ekki skilið að neinn sem ekki hefur séð það geti leyft sér. Auk þess hef ég heyrt í nógu mörgum vinum og kunningjum í hinsegin og kynsegin samfélaginu til þess að vita að „samfélagið“ er langt í frá búið að afskrifa mig sem bandamann, þótt Ugla hafi gert það.

***

Ég svaraði Uglu líka á sama vettvangi og baðst afsökunar á óheppilegu orðavali og reyndi að útskýra afstöðu mína til skáldskaparins. Ég hafði ákveðið að gefa mér alltaf að minnsta kosti viku til þess að svara nokkrum mögulegum uppákomum vegna verksins – og þá helst alltaf skriflega. Ég sveik þetta með tímann strax í fyrsta skrefi og réttlæti það með því að kynseginsamfélagið ætti annars konar tilkall til þess að ég stæði fyrir máli mínu en t.d. bara Vísir eða DV. Ég hef hins vegar talsvert velt því fyrir mér þessa síðustu daga hvort ég eigi ekki bara að leyfa leikritinu og skáldsögunni að tala eigin máli. Mig langar að bera hönd fyrir höfuð mér vegna þess að ég kæri mig ekki um að vera útmálaður sem óvinur trans fólks – en ég vil ekki að verkið verði smættað niður í sósíalrealískt verk um trans, vil ekki taka þátt í að setja allan fókus á þessa einu hlið þess. Nú hljómar það einsog mótsögn, og sennilega er það mótsögn þótt ég geti ekki alveg útskýrt hvers vegna hún truflar mig ekki, en þótt ég haldi þessa dagbók langar mig í raun ekki nema takmarkað að tjá mig um verkið. Mér finnst einsog ef ég ráði ekki alveg ferðinni sjálfur, þá stígi ég svo auðveldlega í veg fyrir það. Þetta er hugsanlega vitleysa og hugsanlega ber ég ábyrgð á því að fylgja verkinu úr hlaði, reyna að tryggja að viðtökur þess séu í samræmi við vilja minn og metnað. Og gagnvart sjálfum mér – mínum eigin heilindum. Að ég láti ekki troða mér í einhvern kassa.

***

En það voru fleiri ósáttir við innslagið í Kastljósi. Nettröllið Lord Pepe hélt um þetta lítinn fyrirlestur á YouTube-rás sinni – kallaði mig „uppstrílaða listaspíru“ og hvaðeina. Hann var sem sagt einna helst óánægður með að ég skyldi kalla Milo Yiannopoulus diet-fasista og segja að það væri þægilegt fyrir íslamófóbana að eiga Ayan Hirsi Ali að, til þess að úthúða múslimunum. Þetta hefst þegar sirka 1 mínúta og 45 sekúndur eru liðnar af myndbandinu.

***

Sigríður Jónsdóttir á Fréttablaðinu er eina manneskjan, so far, sem hefur séð verkið og verið ósátt við það. Henni fannst Illska líka hundleiðinleg – þótt hún hefði fengið heilli stjörnu meira á sínum tíma – en sennilega nær fagurfræði okkar Óskabarnanna og hennar ekki vel saman. Hvað um það. Hún skrifaði frekar reiðilegan og – leyfist mér að segja – hneykslaðan pistil um forsendur verksins og hvað hún hefði hneykslast lítið (af langri reynslu er það jafnan bara fólkið sem hneykslast mest sem þarf að hafa orð á því hvað það hafi hneykslast lítið). Eða, svo það sé leyst úr flækjunni, þá hneykslaðist hún ekki á persónunni Hans Blævi en hún hneykslaðist mjög á forsendum leikritsins. Ég er henni augljóslega ósammála um forsendurnar og finnst hún harðbrjósta að svitna ekki smá yfir ólátunum í Hans – en það er aukaatriði.

***

Það sem truflaði mig mest (og nú er ég að fara að stíga í veg fyrir eigið verk) var sú hugmynd hennar að sögupersónur væru „ósnertar af feðraveldinu“. Hans Blær er intersex manneskja hvers kyn var bælt af samfélaginu í kringum hána; hán er bæði fórnarlamb og gerandi í nauðgunarmálum (og rekur meðferðarheimili fyrir fórnarlömb nauðgana); móðir hánar er gift skipstjóra sem í krafti tekna sinna kemur fram við hana einsog hún sé ekki til o.s.frv. o.s.frv. Ég gæti haldið áfram að telja þetta upp í allan dag. Það er bókstaflega varla einn einasti punktur í öllu leikritinu, handriti, dansi, bendingum, grettum o.s.frv. sem er ekki í beinni snertingu við feðraveldið – og mörg blæðandi sár á eftir. Það liggur við að ég haldi að hún hafi verið á einhverju öðru verki.

***

Önnur gagnrýni var jákvæðari. María Kristjáns í Víðsjá, Snæbjörn og Bryndís í Kastljósinu og Silja á TMM voru öll í skýjunum. Sérstaklega fannst mér Maríu takast vel að hugsa með verkinu, frekar en gegn því (þótt slíkur lestur geti stundum líka verið frjór) – en hún hafði líka mestan tíma (gagnrýni í Kastljósi var 3 mínútur – Vignir trompaðist – og Silja birti sína strax daginn eftir). En ég vil þó koma því að – í tengslum við gagnrýni Maríu – að orðið gálkn, sem Hans Blær notar yfir kynfæri sín, er ekki sama og trans píka. Gálkn er í fyrsta lagi uppnefni komið frá móður hánar – ekki ósvipað og sumum konum hefur verið kennt að kalla píkuna á sér „skömm“ eða „ónefna“ eða „tuðra“ – og í öðru lagi alls ekki píka, hvorki trans né sís, heldur millibilskynfæri intersex manneskju. Þetta er ekki útskýrt í þaula í leikritinu þótt það komi fram. Svona hlutir verða samt alltaf skýrari í bók en á sviði, einfaldlega vegna þess að það er hægt að fara dýpra í þá og lesandi getur endurlesið þá.

***

Þá hefur eitthvað borið á misskilningi á því hvað Hans Blær er – og skal engan undra – því hán er í senn kynsegin, trans og intersex. Hán er kynsegin vegna þess að hán upplifir sig á rófinu – mismikið karl, kona og allt þar á milli – trans vegna þess að hán upplifir kyngervi sitt (mismikið) á skjön við líkama sinn og intersex vegna þess að hán er með klitoromegali (ofvaxinn sníp) af óþekktum ástæðum (hán er s.s. ekki greint með neitt annað ástand og klitoromegali getur átt sér margar mismunandi orsakir).

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png