Untitled

Ég þreytist ekki á að fullyrða, minna á, hrútskýra, hvað sem maður vill kalla það að merking orða verður ekki til hjá þeim sem talar eða þeim sem hlustar heldur í samkomulagi beggja. Stundum rofnar það samkomulag og þá þarf að ræða hlutina betur – og þá ættu allir að hafa í huga að þeir hafa ekki sjálfdæmi um merkingu orða. Ef ég segi eitthvað ruddalegt en meina það ekki ruddalega verð ég að taka tillit til þess að þú firrtist við en þú að taka tillit til þess að ég meinti ekkert illt. (Svo geta verið aðstæður þar sem maður ætlar að vera dónalegur – það er alltílagi líka, það er bara önnur ella). Reki maður sig á og móðgar einhvern ætti að vera sjálfsagt að biðjast afsökunar – bara rétt einsog ef maður rekst utan í einhvern í búðinni af því maður var að stara á innkaupalistann, en að sama marki ætti að vera óeðlilegt að trompast eða erfa það við mann nema fleira komi til.

***

Mest skitsó bókasafnið mitt. Hans Blævar lesturinn. Á myndina vantar að vísu nokkrar bækur – t.d. Born Both, sem var á hljóðbók, og Middlesex sem er á náttborðinu heima, og slatta af rafbókum. Efst má sjá útprent af The Transsexual Empire eftir femínistann Janice Raymond, sem kemur fyrir í bókinni og leikritinu.


Mánudagur. Annar í páskum. Ég er lasinn í rúminu (nei, ekki bara þunnur).

***

Ég er enn að fiffa í bókinni, eðli málsins samkvæmt, fikta og dútla, og lesa mikið. Á dögunum las ég – eða hlustaði, þetta var í bílferð fram og til baka til Keflavíkur – á bókina Born Both eftir Hidu Viloria, sem er intersex aktífisti í Bandaríkjunum. Hida er í áhugaverðri orðaklemmu vegna þess að hún er nógu gömul (fimmtug í ár) til þess að hafa tengt jákvætt við orðið hermafródíta og séð það síðan missa flugið og verða flokkað sem hatursorðræða. Í bókinni talar hún lengi um þetta – að intersex sé lýsingarorð en hana langi í nafnorð sem nái utan um tilveru hennar, og helst eitthvað sem sé ekki nýjung (og gefi þar með til kynna að ástandið sé nýjung, frekar en að það hafi verið bælt og falið). Hún notar að vísu hugtakið „intersex fólk“ um aðra en það er augljóst á orðum hennar að hún vildi að orðið hermafródíta – eða styttingin „herm“ eða jafnvel, nánar tiltekið, í hennar tilviki „hermafrodyke“, hermafrólessa – væri hið sameiginlega og sjálfsagða hugtak frekar en óþægilegur anakrónismi.

***

Svo birtist alltíeinu hugtakið DSD – disorders of sexual development (síðar differences of sexual development) – og fær, merkilegt nokk, stuðning frá Intersexsamtökum Norður Ameríku, ISNA. Hida tryllist og skrifar greinar og reynir að stoppa þetta – að intersex verði skilgreint sem kvilli eða truflun í kynferði manneskju. Um þetta er svo tekist á í samfélaginu, vegna þess að þar er líka að finna fólk sem vill alls ekki skilgreina kyn sitt sem intersex heldur lítur á sig sem karla eða konur með ákveðið „ástand“ – bara svona einsog maður er með valbrá eða héravör. En líka fólk einsog Hida sem vill ekki skilgreina líkama sína sem sjúka eða afbrigðilega á nokkurn hátt og samþykkir þar með alls ekki að kyn þeirra sé skilgreint með tilvísan til þess (ég verð að viðurkenna að ég þoli ekki valdgreiningu sem smættar sjúka hegðun eða kapítalismann eða yfirgang í kyn mitt; ekki „eitraða karlmennsku“ eða „hrútskýringar“ eða einu sinni „feðraveldi“ – orð hafa merkingu og það er eðlilegt að vera viðkvæmur þegar kyn manns er notað sem neikvæð einkunn).

***

DSD er vel að merkja minna og minna notað – en ef eitthvað er að marka Hidu (sem það er) þá var það að taka yfir á tímabili. Og hermafródíta heyrist nær aldrei.

***

Ég rak mig á það nýlega, sem ég hafði ekki tekið eftir, að á Íslandi er – skv. ágætum orðalista Trans Ísland – ekki talið við hæfi að skrifa trans- sem forskeyti, vegna þess að það sé lýsingarorð. Altso, maður á að skrifa „trans kona“ bara einsog maður skrifar „falleg kona“, en ekki „fallegkona“ eða „transkona“. Fyrir þessari afstöðu til orðsins – að það sé lýsingarorð og geti ekki verið forskeyti – er fyrst og fremst hefð í enskumælandi löndum sýnist mér. Á öllum norðurlandamálunum er talað um transkvinnor og transmænd og transpersoner og sömuleiðis á þýsku – ég held það sé óumdeilt að þau mál séu skyldust íslensku, en sennilega er hugmyndaheimur okkar núorðið meira í ætt við þann enskumælandi. Íslenskan er þess utan óvenju góð í skella saman orðum – maður getur t.d. skrifað hérumbil, þótt það séu þrjú orð. Bil milli orða eru þess utan sértækt vandamál skriftar – þau heyrast ekki nærri, nærri alltaf.

***

Þessi þumalputtaregla s.s. truflar máltilfinningu mína. Ef það skyldi ekki hafa komið berlega fram. Hins vegar er mér það alveg að meinalausu að skrifa þetta einsog fólkið í samfélaginu vill. En að því sögðu þá held ég að eltist maður of hart við smáatriðin sé það ekki til þess að efla samræðuna eða auka skilning á einu eða neinu. Ég þekki fólk sem einfaldlega óttast samræðuna – kasúal eða annars lags, bara þú veist, ræða um daginn og veginn eða fara á harðkjarna ráðstefnu um trans kynfæri, hvað sem er – vegna þess að það óttast afleiðingar þess að mismæla sig. Sem er alveg áreiðanlega ekki gott fyrir samræðuna.

***

Þetta er auðvitað ekkert sem hefur sérstaklega að gera með trans samfélagið heldur er þetta almennt stemningin – og ein af afleiðingum þesss að við erum öll í viðstöðulausu samtali hvert við annað með aðstoð félagsmiðla, og enn fremur öll viðstöðulaust að hlusta og dæma (læka, reiðilæka, rantkommenta og það sem verst er: læka ekki) hvert annað. Við vinstra megin við miðjuna, eða sem köllum okkur frjálslynd, erum þess utan líka afar dugleg að sanna gæsku okkar með því að hneykslast, fárast og fordæma fólk fyrir minnstu yfirsjónir. Það, í sjálfu sér, er ekki hluti af nýju stemningunni eða internetinu – er sennilega mjög gamalt og þekktasta birtingarmynd þess á Vesturlöndum er sennilega meðal síðhippískra kommúnista á áttunda áratugnum sem voru á endanum svo réttlátir í kenningunni og ástríðufullir í baráttu sinni fyrir betri heimi að þeir gátu ekki unnið saman í hópum sem töldu fleiri en svona fimm (því annars var hætt við að einhver færi að ráfa frá hjörðinni).

***

Í tengslum við Hans Blævi, leikrit og skáldsögu, er svo ágætt að hafa í huga að þótt verkið temji sér ekki neina slíka kurteisi er það ekki heldur skrifað með það í huga að hneyksla, en það er ekki heldur skrifað til þess að hneyksla ekki – enda hefðu slíkar tilslakanir verið svik við sögupersónuna (og höfundur má svíkja allt – samfélagið, móður sína*, börnin sín, hina þjáðu og kúguðu – en aldrei sögupersónur sínar). Verkið Hans Blær hlýðir sínum eigin lögum og fylgist með tilteknum aðstæðum verða til og springa út – hneykslan kemur því ekki við – persónan Hans Blær hins vegar lifir fyrir að hneyksla (ekki síst vegna þess að hánum er fremur illa við heiminn, stundum af góðum og gildum ástæðum, og stundum ekki). Ef það væri ekki fyrir viðbrögð heimsins, ef það væri ekki fyrir fólkið sem deilir bókstaflega öllu því heimskulegasta og hatursfyllsta sem það finnur á internetinu, til þess að benda öðrum á hvað einhver moggabloggari er vondur og heimskur og dreifir þar með illskunni víðar og málar mynd af heiminum sem illri en hann er, með því að afla heimskunni athygli, þá gæti hán Hans Blær sem nú er á fjölum Tjarnarbíós eða hán sem birtist í skáldsögu með haustinu alls ekki þrifist. Ég veit ekki hver hán hefði orðið, en eitthvert annað.

***

Ég hef nú alveg skrifað skýrari bloggfærslur. Jæja.

***

* Einu sinni spurði mig fullorðin kona á fylleríi hvernig ég gæti skrifað svona „með móður á lífi“. Það var sennilega eftir Hugsjónadrusluna. Móður minni þótti það mjög fyndið.

2 views0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png