Untitled

Því er stundum haldið fram að sögur af kynsegin persónum séu ævinlega af sama slagi – þetta séu sögur af vondu fólki sem er fullt af perversjónum og sem hlýtur makleg málagjöld (les: það deyr) – einhvers konar hliðarpródúkt af veruleika sem er (og var enn meira) fordómafullur og óttasleginn.

Ég held það sé nokkuð til í þessu á meðan verið er að tala um litlar hliðarpersónur eða einhliða antagónista í eldri bókmenntum – sennilega mestmegnis fyrir sjöunda áratuginn – eða ódýrum sjoppureyfurum. Og raunar líka úr sannsögubókmenntum, til dæmis læknalitteratúr frá nítjándu öld, þar sem kynsegineinstaklingum er oft lýst sem pervertum eða fólki sem gæti orðið perversjónum að bráð verði kyn þeirra ekki sæmilega ákvarðað eða lagfært. Því ef maður gat bara verið kona eða karl, og það var viðurstyggð að stunda samkynhneigð, var mjög mikilvægt að komast að því hvort maður væri svo maður færi nú ekki óvart að ríða í óþökk drottins almáttugs – eða konur færu að kjósa eða gera eitthvað annað sturlað.

***

[Þetta er alger hliðarfrásögn og ekki í samhengi við restina, en áhugavert samt, eins konar neðanmálsgrein sem hangir í brotinu á undan: sagan af intersexmanneskjunni Levi Suydam sem ætlaði að kjósa árið 1843 í Connecticut, en var stoppað af og sakað um kvenmennsku. Læknir framkvæmdi skoðun á háni sem leiddi í ljós að hán var með lim svo hán fékk að kjósa. Þegar stóð svo á einu atkvæði milli Whigs og Tories var hán rannsakað betur og þá kom í ljós að hán fór á túr og hafði alls kyns „kvenlega“ eiginleika; og þá var atkvæði háns dæmt ógilt.]

***

Hins vegar held ég að aðalsöguhetjur geti aldrei verið þetta einfaldar – aðalsöguhetjur hljóta að vera margbrotnar (í margræðum skilningi þess orðs) og sumar þeirra sem eru kynsegin hljóta að leika sér með ótta annarra við kyngervi þeirra eða annarleika, og njóta þess að ógna þröngsýnum smáborgurum, af háði og heift – bæði í von um að fá einn daginn að vera með og í von um að fá einn daginn að mölva kerfið (eftir því hvern þú spyrð). Og stundum sennilega bæði og allt í senn. Meira að segja kynsegin aðalsöguhetjur í eldri bókum passa ekki endilega svo vel við klisjuna, þegar þær eru í forgrunni – a.m.k. ekki einsog klisjan hefur verið presenteruð fyrir mér.

***

Nema hvað. Ég fór eitthvað að skoða sagnasafnið mitt og reyna að flokka kynsegin/intersex/trans sögupersónur eftir því hvort þær legðu sig fram um að vera ógnandi á þennan máta eða hvort þær væru jafn vel frekar saklausar eða miðjusæknar í hegðun sinni og atferli. Og fann bara fjögur ógnandi „skrímsli“ í þremur bókum (Cock and Bull er tvær nóvellur í sömu bók). Fyrir utan þá auðvitað Hans Blævi.

„Skrímsli“: 

 1. Myra Breckinridge í samnefndri bók Gores Vidal (ég fjallaði um bíómyndina hérna)

 2. Frank-N-Furter í Rocky Horror Picture Show

 3. Hann og hún í Cock and Bull eftir Will Self.

Hlutlausir eða góðmenni: 

 1. Orlando í samnefndri bók Virginiu Woolfe

 2. Auður Ögn í Sögu af stúlku eftir Mikael Torfason

 3. Abel í Móðurhug eftir Kára Tulinius

 4. Cal Stephanides í Middlesex eftir Jeffrey Eugenides

 5. Brandon Teena í Boys Don’t Cry í leikstjórn Kimberly Peirce

 6. Glen/Glenda í Glen or Glenda í leikstjórn Eds Wood

 7. Dil í The Crying Game í leikstjórn Neils Jordan

 8. Roberta Muldoon í The World According to Garp eftir John Irving

 9. Barþjónninn / móðirin í All You Zombies eftir Philip K. Dick (eða bíómyndinni

 10. Predestination í leikstjórn Michaels og Peter Spierig)

 11. Bree í Transamerica í leikstjórn Duncans Tucker

 12. Maura Pfefferman í Transparent eftir Jill Soloway

 13. Denise Bryson í Twin Peaks eftir David Lynch

 14. Taylor Mason í Billions (þrátt fyrir að vera sálarlaus kapítalisti er hán óvenju viðkunnanlegt og fellur því hérna megin) eftir Koppelman, Levian og Sorkin

Svo má nefna Gethenbúa í The Left Hand of Darkness eftir Ursulu K. Le Guin eða Merkúrbúa í 2312 eftir Kim Stanley Robinson, þar sem heilar plánetur (af góðmennum og illmennum og alls þar á milli) eru á rófinu.

Einhverjar sögupersónur veit ég ekki hvernig maður ætti að flokka (og auðvitað er svona tvíhyggjuflokkun alltaf próblematísk – þ m.t. flokkun í sís og trans – það eru engar hreinar línur). Til dæmis hermafródítan sem kemur út úr skáldsögu Michael Moorcocks, The Final Programme, sem er eins konar samruni konu og karls sem á að skapa fullkomna veru. Útkoman er í einum skilningi skrímsli eða (blóðþyrstur) neanderdalsmaður, en í öðrum einmitt þá fullkominn – nýr maður, nýtt upphaf. Spurningin sem sú annars flippaða bók spyr er ótrúlega mikið hvað sé fullkomnun.

Ég veit heldur ekki hvernig ég á að flokka Tintomara úr Drottningens Juvelsmycke – sem var áreiðanlega mjög sensasjónalísk þegar hún kom út (1834) en er samt, í krafti þess að vera vel skrifuð aðalsöguhetja, mjög rúnnaður karakter með margar hliðar og ótal ástæður fyrir gjörðum sínum. Svo eru auðvitað „sannsögulegar“ sögupersónur – í bókum sem eru samt einhvern veginn „skáldverk“ – t.d. Harry í Argonauts, Ég-ið í Intersex (for lack of a better word) eða ljóðmælandi í Intersex: A Memoir eftir Aaron Apps, Ikon eftir Yolöndu Auroru Bohm Ramirez eða Tjugofemtusen kilometer nervtrådar eftir Nino Mick. Þar er það ekki endilega spurning um hvernig sögupersónurnar eru – þær eru ekki illmenni eða skrímsli – heldur hvort maður flokkar þær yfir höfuð með „sögupersónum“.

Svo er ýmislegt á listanum/náttborðinu sem ég á einfaldlega eftir að lesa og horfa á. Mig grunar t.d. að transkonurnar í Ticked Off Trannies With Knives falli að þessari gefnu staðalmynd en ég held að Hedwig geri það ekki, þótt hún sé pönkari (ég sá að vísu Hedwig fyrir hundrað árum en það var ábyggilega í einhverjum svefnrofum og ég man ekkert eftir henni). In einem Jahr mit 13 Monden eftir Fassbinder sýnist mér karakterinn vera góðmenni/hlutlaus og hið sama gildir um Una Mujer Fantastica, sem var nýlega fjallað um á Hugrás. Ég veit ekkert við hverju ég á að búast af Annabel, The Hermaphrodite, Sphinx eða Paul Takes the Form of a Girl. Og svo framvegis og svo framvegis.

Síðast en ekki síst eru „skrímslin“ á þessum lista alls ekki bara skrímsli og hin miðjusæknari alls ekki bara miðjusækin. Enda væri það hvorki gaman né áhugavert.

***

Það væri áhugavert – en flókið túlkunaratriði – að skoða hvenær sé verið að fjalla um kynseginveruleikann sem slíkan og hvenær hann sé farartæki til þess að fjalla um annað og hvenær hann sé hreinlega bara myndlíking. Eðlilega er það alltaf sitt lítið af hvoru (og fleira til).

***

Engar áhugaverðar sögupersónur eru fullkomnar, engar eru „normal“ og flestar eru í senn fórnarlömb og níðingar, stundum gerendur (óvart og viljandi), stundum þolendur (óvart og jafnvel viljandi, með sjálfseyðingarhvöt). Þær eiga sér hvatir og útskýringar en ekki slíkar hvatir og útskýringar sem leysa þversagnir lífs þeirra – við finnum til samlíðunar með þeim en við skiljum þær ekki til fulls (frekar en fólkið í kringum okkur). Þær eru í senn fyrirsjáanlegar og algerlega ófyrirsjáanlegar. Þetta á líka við um Myru, Frank og Hann og Hana í Cock and Bull. Þau eru ekki bara „vond“.

***

Það væri gaman að fá tillögur að verkum til að skoða, bókum til að lesa og myndum til að horfa á – með kynseginillmennum eða kynsegingóðmennum. Hér að neðan er kommentakerfi sem er alltof lítið notað.

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png